Arnfríður Inga Arnmundsdóttir Tæpt hálft ár er umliðið síðan vinur okkar hjóna og skólabróðir, Jónas Gíslason vígslubiskup andaðist nær 72 ára að aldri. Nú hefur dauðinn einnig hrifið vin okkar Öddu, eiginkonu Jónasar, á brott. Við lát hennar líða fram ljúfar minningar um hana sem persónu og lífsförunaut látins vinar.

Á síðustu menntaskólaárum okkar Páls vissum við að Jónas átti sér unnustu frá Akranesi. Hann var hamingjusamur, hafði fengið köllun til að boða Guðs orð í starfi fyrir KFUM og K í Reykjavík, í Vatnaskógi, á Akranesi og víðar. Forsjónin hafði augljóslega leitt saman þessi tvö trúuðu ungmenni.

Við hittum ekki Öddu fyrr en eftir brúðkaup þeirra í ágúst 1950. Það vor lauk Jónas guðfræðiprófi frá Háskóla Íslands. Þau héldu um haustið til Osló til árs dvalar. Þar stundaði Jónas framhaldsnám í kirkjusögu og trúfræði en Adda var á hannyrðaskóla. Að loknu námi ytra fluttust ungu hjónin að Leifsgötu 27 þar sem foreldrar Jónasar bjuggu lengst af.

Samskipti tveggja hjóna, sem aldrei bar skugga á, hófust þar og héldust til æviloka Jónasar og Öddu.

Adda var einstaklega hlýleg og elskuleg í viðmóti, frjálsleg og glaðleg í fasi. Hún var greind og hógvær, kurteis og sannkristin kona. Hún bar þess fagurt vitni að hún kom frá menningarheimili samhentra foreldra. Faðir hennar var skáldmæltur félagshyggjumaður, ættaður af Langanesi, af sterkum stofnum. Móðir hennar var fyrirmyndar húsmóðir með fagra söngrödd. Hún var af borgfirskum bændaættum. Adda var yngst systkina sinna. Hún hafði fagra sópranrödd og fágaðan tónlistarsmekk, enda stundaði hún um tíma nám í tónlistarskóla í Reykjavík. Systur Öddu hafa líka góða söngrödd og mörg systrabörn hennar eru listamenn: Söngvarar, leikari og rithöfundur.

Adda var að mínu mati gædd öllum þeim hæfileikum og mannkostum sem prýða mega prestskonu. Það kom sér vel, því það mæðir mikið á prestsfrúnni í dreifbýli og þéttbýli, ekki síst ef presturinn er ótal störfum hlaðinn eins og Jónas ætíð var. Mér koma í hug orðskviðir spekingsins Salómons: "Væna konu, hver hlýtur hana? Hún er miklu meira virði en perlur. Hjarta manns hennar treystir henni."

Við Páll eigum dýrmætar minningar frá samverustundum á heimili þeirra í Vík í Mýrdal, en þangað fluttu þau 1953 og bjuggu þar í 11 ár.

Nýtt tímabil hófst í lífi þeirra er Jónas varð sendiráðsprestur í Kaupmannahöfn 1964. Þar bjuggu þau í sex ár. Adda var í senn eiginkona sendiráðsprests í Höfn og hjálparhella og sálusorgari íslenskra sjúklinga við Ríkisspítalann þar. Heimili þeirra í Holte stóð öllum opið. Við áttum þess kost að gista einu sinni á heimili þeirra og njóta sem fyrr frábærrar gestrisni. Á þessu tímabili fækkaði fundum okkar, nú var vík milli vina.

Við hjónin urðum fegin er samfundum fjölgaði við heimkomu Öddu og Jónasar. Fallegt einbýlishús í fögru umhverfi að Austurgerði 3 var heimili þeirra um árabil eftir heimkomuna frá Höfn 1970. Milli hlýlegs heimilis þeirra og okkar í Stigahlíð 89 voru mikil tengsl af ótal yndislegum tilefnum. Jónas gaf saman allar þrjár dætur okkar og eiginmenn þeirra á árunum 1970, 1972 og 1978 og síðar son okkar og eiginkonu hans 1986. Hann skírði átta af níu barnabörnum okkar á árunum 1970­1994. Á sorgarstundum við ótímabæran sjúkdóm og andlát einkabróður míns, Jóns Atla, sem lést 1975 fimmtugur, reyndist hann sannur sálusorgari.

Adda og Jónas voru fyrirmyndarforeldrar. Þess bera synir þeirra, séra Gísli og Arnmundur Kristinn skrifstofustjóri, fagurt vitni. Þeim auðnaðist að eignast góðar tengdadætur og 10 efnileg barnabörn.

Adda og Jónas voru hamingjusöm hjón sem elskuðu, treystu og virtu hvort annað. Lengst af helgaði Adda sig eingöngu umsvifamiklu heimili og sonum sínum sem prestsfrú, prófessors- og biskupsfrú. Um fimmtugt hóf hún langskólanám sem hún átti ekki kost á ung, þrátt fyrir góðar gáfur. Hún lauk stúdentsprófi og háskólanámi í dönsku með miklum ágætum. Jónas var að vonum glaður og hreykinn af afrekum Öddu.

Ljúfar endurminningar eigum við Páll frá heimsóknum á heimili þeirra hjóna í Þrastarlundi 15, í Skálholti, Eiðistorgi 13 og síðast að Lækjarsmára 2. Smekkvísi og snyrtimennska Öddu settu hvarvetna svip sinn á heimili þeirra hjóna, þar sem gestrisni, rausnarskapur og gefandi samskipti hjónanna við gesti þeirra réðu ríkjum.

Hæst ber þó í minningum mínum heimsókn okkar skólasystkina Jónasar frá 1946 í Skálholt vorið 1994. Jónas las skýrt hrífandi, myndræna frásögn af siðbótarmanninum Oddi Gottskálkssyni, er hann þýddi Nýja testamentið yfir á íslensku við erfiðar aðstæður. Þessi heimsókn til fyrstu vígslubiskupshjónanna með búsetu í Skálholti í 200 ár verður mér ógleymanleg.

Þrátt fyrir þungbær veikindi tókst Jónasi að gera mikið fyrir Skálholt, studdur af kærleik ástríkrar eiginkonu.

Jónas var alla ævi eldhugi og afkastamaður. Jafnvel eftir að Parkinsonssjúkdómurinn herti tökin hóf hann lífróður að ljúka sem mestu áður en yfir lyki. Honum tókst með sterku trúartrausti að láta eftir sig dýrmætar bækur og rit um trúarleg efni og endurminningar.

Þáttur Öddu í sigrum Jónasar í lífi og starfi er stór. Trúarstyrkur hennar veitti henni kraft til að styðja hann af öllum mætti. Hún gekkst undir stóran uppskurð við alvarlegu krabbameini í ágúst 1997. Samt studdi hún Jónas áfram með ráðum og dáð heima hjá þeim, í heimsóknum og á mannamót, því að Jónas hafði yndi af að deila geði við vini sína og starfsbræður þrátt fyrir líkamsfötlun sína.

Við Páll sóttum þau í heimsókn til okkar í Ásholt 4 í októberlok 1998. Jónas var þá löngu kominn í Skógarbæ. Að venju var lesin huggunarrík ritningargrein og síðasta bænin okkar beðin saman um styrk. Þetta varð síðasta heimsókn þeirra til okkar. Mánuði síðar, þann 18. nóvember, var vinur okkar sofnaður. Adda fylgdi honum síðasta spölinn til Skálholts. Líkamlegt þrek hennar var þorrið, en sálarstyrkur ekki.

Henni auðnaðist með hjálp systur sinnar, Sveinbjargar, að dveljast í þrjár vikur í febrúar sl. á Kanaríeyjum. Við Páll vorum samtímis þeim systrum ytra. Fórnfýsi og umhyggja Sveinbjargar við systur sína var aðdáunarverð og gerði Öddu dvölina auðveldari. Aðeins ár er á milli þeirra systra og þær voru alla tíð mjög samrýndar. Raunar er samheldni aðalsmerki ættmenna Öddu.

Eftir heimkomuna frá Kanaríeyjum hrakaði Öddu hratt. Hún dvaldist þó um tíma heima, studd af ástvinum sínum. Síðustu vikurnar háði hún sitt harða sjúkdómsstríð af æðruleysi og undirgefni við Guðs vilja. Hún sofnaði síðasta blundinn á líknardeild Landspítalans, umkringd ástvinum sínum, þann 14. maí.

Við Páll vottum sonum þeirra Öddu og Jónasar, eiginkonum þeirra, barnabörnum og allri fjölskyldu hennar dýpstu samúð okkar og biðjum Guð að blessa þau öll og leiða um alla framtíð.

Við Páll söknum sárt dýrmætra samverustunda með sönnum vinum okkar. Á slíkum stundum var ekki fjasað um fjarskyld efni. Bænarefni okkar eftir uppbyggilegar umræður voru um sanna volduga vakningu inn á hvert heimili, skóla, vinnustað og söfnuð á Íslandi. Einkunnarorð Jónasar á afmælisriti hans voru: "Oss langar að sjá Jesú." Lærisveinar Krists störðu til himins á eftir honum. Tveir englar á hvítum klæðum stóðu hjá þeim og sögðu við þá: "Galíleumenn, hví standið þér og horfið til himins. Þessi Jesús, sem varð uppnuminn frá yður, mun koma á sama hátt og þér sáuð hann fara til himins." Fögur fyrirheit, sem örugglega uppfyllast á efsta degi, veita huggun og styrkja trúarvissu okkar um endurfundi.

Guðrún Jónsdóttir.