Ásta Sigrún Guðjónsdóttir Rósu konunni minni kom í hug stef frá Eyjafjarðarskáldinu Davíð þegar hún minntist móður minnar: "en stundum lýsir ljós, sem aldrei var kveikt lengur en hin, sem kveikjum sínum brenna." Já, þetta var rétt, mamma var ein af þessum sérstæðu boðberum birtu og vinarþels, sem aldrei þarf að "kveikja" á, því í þeirra innra sjálfi er birtan svo skær að hún lýsir sjálfkrafa upp allt þeirra umhverfi. Hin fölskvalausa góðvild með raunsæju ívafi léttir göngu samferðamanna um grýttar götur lífsbaráttunnar, sé maðurinn svo hólpinn að mæta einstöku sinnum einhverjum öðrum en þeim sem "kveikjum sínum brenna".

Mikið mátti hún mamma vera skipulögð að eiga líka tíma fyrir mig, við vorum jú 14 í heimili hjá henni. Hún ein með allan hópinn, þegar pabbi var á sjó. Tvær kýr í fjósi og tylftin af börnum í húsi. Aldrei heyrði ég kvörtun, skapið var létt á hverju sem gekk. Við stækkuðum börnin og fórum að hjálpa til, en mamma sagði að besta heimilishjálpin væri handsnúna vindan til að vinda þvott. Ábyrgðin var hennar, hún var húsmóðirin af gamla skólanum. Pabbi var duglegur að sjá fyrir okkur öllum þó ekki væri miklir peningar á þessum árum, kom upp húsaskjóli fyrst í bragga og síðan Strembugötu 10. Mamma hafði ekki margar stundir fyrir "sig" eins og við segjum í dag, en þó ég man að hún fór á fundi hjá Slysavarnafélaginu, þá var hún svo fín. Seinna þegar á elliheimilið kom var það fótboltinn sem heillaði mömmu, það voru strákarnir hennar í ÍBV.

Hvert mannsbrjóst á einhvern innsta róm, sem orð ekki fann að segja. Lífshlaupið er sem sólargangurinn. Þar skiptast á skin og skuggi, enginn okkar kemst hjá því að myrkvun sorgarinnar sæki á sálu og skapi skammdegi í okkar innsta umhverfi, í okkar innsta sjálfi. En mamma var sterk, hún hafði alla tíð búið yfir miklu jafnaðargeði, skapgóð í gegnum þykkt og þunnt, þótt lítill væri tíminn til svokallaðra tómstunda. Þó hefur hún notið þess á seinni árum að gleðjast á góðum stundum, með ömmu- og langömmubörnum sínum sem nálgast nú hundraðið hægt og sígandi. Einnig hefur mamma alla tíð haft mikið gaman af bæði dansi og söng. Hún hafði eins og Tómas lýsir svo vel:

"Þú hafðir fagnað með gróandi grösum

og grátið hvert blóm, sem dó.

Og þér hafði lærzt að hlusta unz hjarta

í hverjum steini sló.

Og hvernig sem syrti, í sálu þinni

lék sumarið öll sín ljóð,

og þér fannst vorið þitt vera svo fagurt

og veröldin ljúf og góð."

Ég var mjög lánsamur að eiga elskulega sterka foreldra. Ég kveð með orðum skáldsins: "Þó hver sá nam að stilla hæsta strenginn og stóð á sviði einn þeim gleymir enginn. Þá nær til jarðar himnaeldsins ylur, ef andinn finnur til ­ og hjartað skilur."

Sveinn Valtýsson.