Kristján Júlíus Guðmundsson Kristján Júlíus Guðmundsson var fyrst og fremst þekktur sem skipasmiður. Hann vann við þá iðngrein sína meðan kraftar entust og síðustu starfsárin einkum við smíði minni báta. Hans besti tími sem skipasmiðs var áður en plastbátarnir tóku við af tréskipunum, sem Kristján þekkti best og kunni tökin á. Og hann var skipasmiður af hjartans list og handtök hans við smíðarnar voru traust og örugg. Hann stundaði einnig brúarsmíði og byggingarvinnu meðfram skipasmíðunum.

Þegar ég kynntist Kristjáni var hann kominn af léttasta skeiði. Hann vann engu að síður hörðum höndum við bátasmíði í húsinu sem hann hafði byggt við Slippinn í Stykkishólmi yfir starfsemi sína. Meðal vina og kunningja var hann mjög tengdur Slippnum og jafnan kallaður Stjáni slipp. Undir því nafni var hann þekktur við Breiðafjörðinn sem traustur skipasmiður. Útvegsmenn kunnu vel að meta viðskiptin við hann og hann átti marga góða vini í hópi þeirra sem beindu viðskiptum sínum til hans.

Fyrstu kynni mín af Kristjáni voru þá er hann var með vinnuflokk í byggingarvinnu við Félagsheimið að Lýsuhóli á vegum frænda míns, oddvitans í Staðarsveit. Fór mjög orð af þeirri vösku sveit sem þar var að verki undir stjórn Kristjáns. Þegar ég kynntist honum síðar nánar í Stykkishólmi kom mér fátt á óvart í fari hans. Hann var ekki allra og lítt gefinn fyrir hátíðleika hvað þá formlegheit þegar hann gekk á minn fund eða annarra embættismanna. Við Kristján urðum góðir vinir í gegnum þau samskipti sem við áttum og voru þau samt ekki öll mjög einföld því hann vildi hafa frelsi og olnbogrými við Slippinn þar sem starfsvettvangur hans hafði verið. Samskipti okkar vörðuðu þrætur um lóðamörk, einnig Slippinn sem bærinn átti og Kristján hafði ákveðna skoðun á hvernig ætti að nýta, um eignarlóðir og frágang gatna og garða. Á öllu var fundin lausn í sátt og Kristján taldi þörf á því að innsigla samninga með öðru en kaffi. Og honum fannst embættismaðurinn fullmikið fyrir kaffidrykkjuna eina og hæddist að öllu saman á sinn hátt. Eins og fyrr sagði var Kristján ekki allra og hann gat verið fastur fyrir ef honum þótti á rétt sinn gengið og trúlega hefur hann í sínum umsvifum verið á stundum lítið auðsveipur þeim sem næst honum stóðu. En hann var vinur vina sinna og naut ég þess.

Ég vil votta eftirlifandi eiginkonu Kristjáns, Auði Júlíusdóttur, og fjölskyldu þeirra samúð og heiðra minningu Kristjáns og minnast hans að leiðarlokum með þakklæti.

Sturla Böðvarsson