Valgerður Daníelsdóttir Vala amma verður sjálfsagt í huga okkar systkinanna úr Reykjavík hún amma í Breiðholti, þótt hún hafi í raun stystan tíma ævi sinnar búið þar. Hún og Jói afi, sem saman höfðu stundað búskap á Ketilsstöðum í Rangárvallasýslu, brugðu búi um 1970 þegar heilsa þeirra fór að bila og fluttu að Maríubakka í Breiðholti, þar sem við vorum tíðir gestir. Afi fór að vinna í Ölgerð Egils Skallagrímssonar og var ísskápurinn á Maríubakka óþrjótandi uppspretta af malti og appelsíni. Ósjaldan fór maður heim með vömbina kýlda af óhóflega miklu góðgæti og ef það var eitthvað sem amma hafði ánægju af, þá var það að veita vel - enginn mátti fara svangur heim. Þrátt fyrir það hvað af henni var dregið undir það síðasta var eitt það fyrsta sem kom upp í huga hennar að gesturinn fengi eitthvað í gogginn, súkkulaði og kökur, en sjálf vildi hún helst venjulegan sykurmola með kaffinu sínu sem gengur nú heima undir nafninu langömmunammi. Stundanna í Breiðholti minnumst við með hlýju og söknuði, því sannarlega voru þær allar góðar: afmælisveislur, jólaboð sem og venjulegar heimsóknir, þar sem við áttum oft stefnumót við ættingja okkar austan Hellisheiðar. Í kringum 1980 veiktist afi mikið, en náði sér þokkalega og í kjölfar þess fluttu þau hjónin sig nær heimahögum og fóru að búa á Bakka, eins og segir í kvæðinu.

Bakki er lítið fallegt hús sem Garðar smiður sonur þeirra, ásamt fleirum hjálpfúsum höndum, reisti í tengslum við Dvalarheimilið Lund á Hellu. Þar var alltaf mikill gestagangur, því mestur partur afkomenda, vina og ættingja þeirra er búsettur á Hellu, Selfossi og þar um kring. Þeim auðnaðist að eignast heila herskara af góðu fólki, allt frá börnum til barnabarnabarnabarns. Saman áttu þau nokkur góð ár á Bakka, þar til afi dó. Amma bjó þar áfram þar til hún fékk gott herbergi á Lundi. Maður gat vel merkt hvað fjölskyldan var ömmu mikils virði á því, að erfitt var að greina litina á veggjunum í herbergi hennar fyrir fjölskyldumyndum og alltaf vissi hún hvað hver fjölskyldumeðlimur var að sýsla. Amma náði háum aldri og lifði góðu lífi. Því er það með sátt, en þó með söknuði, sem við kveðjum hana í dag.

Unnur Vala, Karl Jóhann og Sæþór.