Sveinbjörg Brandsdóttir Með sorg í hjarta og söknuði kveð ég þig elsku amma mín. Laugardaginn 15. maí sl. fékkstu þína langþráðu hvíld og varst kölluð til æðri heima. Nú þegar komið er að kveðjustund og leiðir skilja finn ég huggun í að lesa eftirfarandi kveðjuljóð Valdimars Briem:

Hin langa þraut er liðin

nú loksins fékkstu friðinn,

og allt er orðið rótt,

nú sæll er sigur unninn

og sólin björt upp runnin

á bak við dimma dauðans nótt.Fyrst sigur sá er fenginn,

fyrst sorgar þraut er gengin,

hvað getur grætt oss þá?

Oss þykir þungt að skilja

en það er Guðs að vilja,

og gott er allt, sem Guði' er frá.Nú héðan lík skal hefja

ei hér má lengur tefja

í dauðans dimmum val.

Úr inni harms og hryggða

til helgra ljóssins byggða

far vel í Guðs þíns gleðisal.

(V. Briem) Þegar ég hugsa aftur til liðinna ára koma margar minningar upp í hugann. Einkum þó ljúfar minningar frá árunum okkar saman í Runnum. Það leið varla sá dagur að ég skottaðist ekki yfir garðinn til að heimsækja þig og við sátum og spjölluðum um heima og geima. Allra skemmtilegast þótti mér þegar ég spurði þig hvort við gætum haldið veislu. Þá tókst þú fram spariglösin úr svarta stofuskápnum, bakaðir kannski pönnukökur og við sátum eins og hefðarfrúr í fínu boði.

Þegar ég fór í skóla á Laugarvatni varst þú svo áhugasöm um hvernig lífið gengi fyrir sig þar og hvernig mér gengi. Þá heimsótti ég þig stundum um helgar og sagði þér frá öllu.

Þar sem ég sit og rifja upp gamlar stundir, sakna ég þess að geta ekki lengur skroppið niður að Runnum , sest niður í litla eldhúsið þitt ­ þú opnar kannski langa skápinn og stingur einhverju góðgæti í munninn á mér og við spjöllum um allt milli himins og jarðar.

Ég minnist þín í verki í fallega garðinum þínum sem var þitt líf og yndi. Þar sé ég þig fyrir mér á hjánum, að gróðursetja litrík blóm. Allt sett niður af smekkvísi og alúð eins raunar allt sem þú tókst þér fyrir hendur og þér einni var lagið.

Síðustu ár ævi þinnar háðir þú hetjulegan bardaga við erfið veikindi. Á endanum svaraðir þú kallinu sem bíður okkar allra og langþráður draumur þinn hefur nú orðið að veruleika um að hitta hann afa á ný. Ég veit, elsku amma mín, að núna líður þér vel. Eftir stendur minningin um réttsýna, lítilláta og hjartahlýja konu. Eftir stendur minningin um hana ömmu mína í Runnum.

Anney Þórunn Þorvaldsdóttir.