Hildur Marý Sigursteinsdóttir

Kæra vinkona.

Ekki átti ég von á því að þurfa að kveðja þið svo fljótt, sem raunin er. Ég trúði því alltaf að þú ynnir þessa þraut eins og allar hinar, þú sem aldrei kvartaðir, þér leið alltaf svo ágætlega ef þú varst spurð og vildir aldrei gera veður út af þínum veikindum, en varst alltaf að spyrja eftir hverjum þeim sem þú vissir að var eitthvað veikur.

Umhyggja þín fyrir fjölskyldunni var einstök, eiginmaðurinn Níels og börnin Hanna, Steina og Nonni, tengdabörnin og síðast en ekki síst barnabörnin, Inga, Hildur, Nína, Níels og Orri litli, um þau snerist allt þitt líf, hvernig þau hefðu það, hvort þau vantaði eitthvað, hvað þú gætir gert. Þetta var þitt ríkidæmi og finnst mér það lýsa þér afar vel.

Ég kynntist þér fyrst árið 1985 þegar þið hjónin fluttuð til Hornafjarðar, þegar Nonni og Hulda, dóttir okkar, fóru að draga sig saman. Seinna unnum við saman á bæjarskrifstofu Hornafjarðar þar til við hjónin fluttum á Hvolsvöll.

Nokkrum árum seinna fluttuð þið á Selfoss og jókst þá samgangur aftur, ósjaldan var skroppið á Selfoss eftir vinnu, oftast undir því yfirskini að það væri svo miklu betra að versla í stóra kaupfélaginu á Selfossi en litla kaupfélaginu á Hvolsvelli. Aðaltilgangurinn var nú oftast að skreppa í kaffi til ykkar hjóna, en þá var oft glatt á hjalla og mikið skrafað og hlegið, rætt um börn og barnabörn og sagðar fréttir af sameiginlegum vinum á Höfn.

Aldrei leið sá dagur að ekki væri talað saman í síma og á ég eflaust eftir að finna fyrir því hvað það verður tómlegt þegar enginn hringir um sexleytið og glaðlega er spurt hvað sé að frétta. Hvernig var í vinnunni í dag? eða þá við ræddum um nýjustu bókina sem við vorum að lesa.Veistu ef þú vin átt

þann er þú trúir

og vilt þú af honum gott geta.

Geði skaltu við þann blanda

og gjöfum skipta,

fara að finna oft.

(Úr Hávamálum.)Þér var svo margt til lista lagt og kom það vel í ljós eftir að þú veiktist og fórst að vera heima. Þú hafðir unun af því að teikna og mála, samdir ljóð, t.d. birtist eitt ljóð eftir þig í Lesbók Morgunblaðsins, þar sem þú samdir um litla kútinn þinn hann Níels Brimar. Hann var eina barnabarnið sem þú fylgdist daglega með fyrstu æviárin hans, þar sem Hanna, elsta dóttir ykkar, og Orri, eiginmaður hennar, ásamt dætrum sínum, Ingu og Hildi, búa á Seyðisfirði og Steina og eiginmaður hennar, Addi, ásamt börnum þeirra, Nínu og Orra, búa á Akureyri en Nonni og eiginkona hans, Hulda, ásamt syninum, Níelsi Brimari, búa á Hornafirði.

Ekki ætla ég að fara að telja upp alla kosti Hildar, en þeir voru margir, hún hefði alls ekki viljað það og að hennar ósk fór jarðarförin fram í kyrrþey, það segir meir en mörg orð.Deyr fé

deyja frændur,

deyr sjálfur ið sama.

En orðstír

deyr aldregi

hveim er sér góðan getur.

(Úr Hávamálum.)

Við hjónin söknum sárt góðrar vinkonu og þökkum Hildi samfylgdina um leið og við sendum eftirlifandi eiginmanni, Níelsi Jónssyni, börnum þeirra og fjölskyldum, Þóru, móður Hildar, systkinum og öllum öðrum ástvinum, okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Megi hinar ljúfu og björtu minningar milda söknuðinn og sorgina á komandi tímum.

Ingibjörg Finnbogadóttir