Bjargey Kristjánsdóttir Á sjávarbakkanum út með ströndinni fyrir utan Hofsós stóð lítill bær, sem nefndur var Berlín. Lítill garður var fyrir sunnan húsið, þar sem matjurtir og nokkur skrautblóm voru ræktuð. Þar steig lítil stúlka sín fyrstu spor. Hún hét Bjargey en var ætíð kölluð Bíbí. Hún fékk snemma tilfinningu fyrir náttúru landsins og naut þess að sjá blóm og grös vaxa og dafna og hlúa að þeim með litlum höndum. Sú tilfinning fylgdi henni alla ævi. Sama var að segja um dýr og allt sem lifandi var. Á bernskuheimili hennar voru öll venjuleg húsdýr eins og tíðkast hefur í sveitum frá fyrstu tíð. Hafði hún mikla ánægju af að umgangast þau en kisurnar voru hennar bestu vinir. Ef eitthvað bjátaði á, einhver var að stríða eða hrekkja, var leitað til mömmu, því að hún var best allra. Mamma var skjólið, þegar litla stúlkan fann að hún var ofurlítið sérstök. Bíbí fæddist með sjúkdóm sem leiddi til fötlunar sem setti mark á líf hennar allt. Ef hún hefði fæðst nokkrum áratugum síðar, hefði verið hægt að meðhöndla sjúkdóminn og hún getað lifað eðlilegu lífi. Hún fann alla tíð sárt til þess að vera ekki eins og aðrir, því að greind hafði hún næga til að gera sér grein fyrir því. Árin færðu henni, eins og okkur flestum, bæði gleði og sorg en hún átti sínar óskir og vonir eins og við öll. Bíbí ólst upp í foreldrahúsum ásamt bróður sínum, Þorsteini, en foreldrar þeirra voru þau Guðrún Steinþórsdóttir og Kristján Guðmundsson. Bíbí lauk barnaskólanámi og átti létt með margar námsgreinar. Hún hafði yndi af lestri, hafði næmt eyra fyrir hljómfalli ríms og stuðla og hafði gaman af að gera vísur. Fyrr á árum skrifaðist Bíbí á við marga vini sína og ættingja um land allt. Móðir hennar kenndi henni ýmsa handavinnu sem kom henni til góða síðar á lífsleiðinni. Hún safnaði brúðum og saumaði mikið af fötum á þær og einnig saumaði hún sínar eigin brúður, sem voru ótrúlega skemmtilega gerðar. Hún átti orðið mikið brúðusafn, sem að hún færði Þjóðminjasafninu að gjöf fyrir nokkrum árum.

Þegar Bíbí var rúmlega þrítug að aldri lést Guðrún móðir hennar og hrundi þá heimur Bíbíar að verulegu leyti og hófst þá nýtt skeið í lífi hennar. Faðir hennar og bróðir höfðu ekki tök á að vera henni það skjól sem móðir hennar hafði verið og fór þá Bíbí á Héraðshælið á Blönduósi, þar sem að hún átti athvarf í rúm fjörutíu ár. Henni leið vel þar að öðru leyti en því að hún þráði alltaf að eiga sitt eigið heimili. Eftir nokkurra ára dvöl á Héraðshælinu kynntist hún Ingibjörgu Sigurðardóttur, starfsstúlku þar. Með þeim tókst góð vinátta sem var þeim báðum mikils virði. Ingibjörg gerði Bíbí kleift að skapa sér sitt eigið heimili, fyrst í húsi Ingibjargar, en síðar í litlu húsi sem þær stöllur keyptu saman. Þar bjó Bíbí þar til heilsu hennar hrakaði svo mjög, að hún treysti sér ekki til að búa lengur ein og flutti þá aftur á Héraðshælið.

Ingibjörg Sigurðardóttir á heiður skilinn fyrir alla þá góðvild og umhyggju sem að hún auðsýndi Bíbí og fáum við það seint þakkað. Hún gerði Bíbí fært að lifa í allmörg ár á þann hátt sem hún óskaði helst. Þær vinkonurnar ferðuðust saman um landið og þannig gafst Bíbí tækifæri til að sjá og kynnast mörgum stöðum sem hún hefði aldrei kynnst ella. Á meðan Bíbí hafði heilsu til, heimsótti hún frændfólk og vini hér sunnanlands og dvaldi hjá þeim um vikutíma í senn. Það var gaman að fara með henni á söfn og í smáferðalög. Hún vissi ótrúlega mikið um sögu lands og þjóðar. Þessi ár munu hafa verið hamingjuríkustu ár Bíbíar.

Í útjaðri Blönduóss er gömul malarnáma. Þar bjó Bíbí sér unaðsreit. Hún ræktaði blóm og fleiri jurtir í fallega hlöðnum grjótbeðum sem að hún hafði skapað sjálf af mikilli elju og dugnaði. Á hverjum degi, hvernig sem viðraði, fór Bíbí í garðinn sinn. Hún hafði með sér nesti og vann þar oft fram á kvöld. Vinir hennar, þeirra á meðal Knútur Einarsson, aðstoðuðu hana á margan hátt, útveguðu henni lítið hús, þar sem hún gat leitað skjóls og reistu girðingu kringum garðinn. Með hverju árinu varð garðurinn hennar Bíbíar fallegri og ræktarlegri. Það var með ólíkindum hve mörgum tegundum jurta hún náði að viða að sér og listfengi og smekkvísi réðu þar ríkjum. Fyrir nokkrum árum veitti Blönduósbær henni verðlaun fyrir garðrækt. Var sú viðurkenning Bíbí mikils virði.

Hin síðari ár ævi sinnar dvaldi Bíbí á Héraðshælinu. Heilsunni fór smám saman hrakandi og sárt þótti henni, að geta ekki komist í garðinn sinn. En þegar hún átti orðið erfitt um gang, naut hún aðstoðar vina sinna sem óku henni þangað. Starfsfólk Héraðshælisins annaðist hana alla tíð frábærlega vel og fyrir það eru því fluttar hugheilar þakkir. Sigursteinn Guðmundsson, yfirlæknir Héraðshælisins, var læknirinn hennar og mat Bíbí hann ætíð mjög mikils og var honum þakklát fyrir vinsemd hans. Steini bróðir hennar og við frændfólkið hér sunnan heiða og erlendis, þakka öllum þeim sem sýndu Bíbí hlýju og góðmennsku og léttu henni lífið.

Við sendum Bíbí kærar kveðjur að leiðarlokum og þökkum henni samfylgdina.

Kristjana H. Guðmundsdóttir.