Arnfríður Arnmundsdóttir Smávinir fagrir, foldarskart,

fífill í haga, rauð og blá

brekkusóley, við mættum margt

muna hvort öðru að segja frá.

Prýðið þér lengi landið það,

sem lifandi guð hefur fundið stað

ástarsælan, því ástin hans

allstaðar fyllir þarfir manns.

(Jónas Hallgr.) Þessar ljóðlínur koma mér í hug, þegar ég minnist kærrar móðursystur minnar. Adda, eins og hún var alltaf kölluð í fjölskyldunni, var barn vorsins og gróandans. Hún leit dagsins ljós að vori og hún kvaddi þennan heim, við söng vorðboðans ljúfa og gargsins í kríunni, sem tylltu sér niður við gluggann fyrir framan líknardeild Landspítalans í Kópavoginum, þar sem hún lést. Hún hlakkaði til vorsins og talaði alltaf um að hressast með vorinu.

Adda var unnandi alls sem fagurt var. Blómin voru sérstakir vinir hennar, og alls staðar sem hún bjó spruttu upp fallegir garðar, með litasamsetningum sem lýstu einstöku næmi og smekkvísi. Hún naut návistar við náttúruna og talaði oft um hversu litbrigði náttúrunnar hefðu mikil áhrif á sig. Adda hafði yndi af að hlusta á fallega tónlist og hún var alveg sannfærð um að það væri mikið sungið og spilað á himnum.

Hún var fædd og uppalin á Akranesi yngst fimm systkina. Veraldlegum auði var ekki fyrir að fara á því heimili, en því meiri rækt var lögð við hin góðu gildi, að hjálpa þeim sem enn verr voru staddir. Í öruggu skjóli og mikilli umhyggju foreldra sinna uxu þau systkinin úr grasi og fengu með sér gott veganesti sem mótaðist af harðri lífsbaráttu kreppuáranna, ásamt ýmsum fróðleik sem faðir þeirra miðlaði þeim, en honum var einkar umhugað um, að börnin töluðu fallegt og rétt mál og stunduðu sinn skóla af kostgæfni.

Ung að árum fór Adda til Reykjavíkur, eins og þá var títt um ungar stúlkur utan af landi, og þar kynntist hún eiginmanni sínum, Jónasi Gíslasyni. Adda helgaði líf sitt eiginmanni sínum og sonum og skapaði þeim einstaklega fallegt heimili, þar sem listfengi hennar fékk að njóta sín. Nokkrum árum eftir að synirnir voru farnir að heiman lét hún gamlan draum rætast. Hún settist í öldungadeild Hamrahlíðarskólans og lauk stúdentsprófi vorið 1989. Hún lét ekki þar við sitja heldur hélt áfram og lauk BA-námi í dönsku með miklum glæsibrag, sem má teljast afrek, með öllu öðru sem hún hafði að sinna á gestkvæmu heimili. Hún naut þess að læra, enda mjög góðum gáfum gædd.

Ég á því láni að fagna, að kynni okkar Öddu urðu mjög náin, og fékk ég að njóta þess, að hún var viðstödd þegar ég fæddist. Allt frá barnæsku og fram á síðasta dag vorum við miklar vinkonur, og mörg voru sameiginleg áhugamál okkar. ­ Ég lít út í garðinn minn og sé fyrstu vorblómin, sem eru sprotar af blómum Öddu. Ég lít upp í himinninn og horfi á kvöldroðann, sem minnir mig á hana sem vissulega þráði lengra ævikvöld, með drengjunum sínum, tengdadætrum og elskuðum barnabörnum. Þegar ég heyri fallega tónlist, þá minnist ég hennar.

Hinsta hvíla hennar verður við hlið eiginmannsins í Skálholti. Sá allt of stutti tími sem hún bjó þar voru hennar sælustundir, í návígi við náttúruna og síbreytilega litadýrð Vörðufellsins, fífils í haga og návistar þess Guðs sem þessi staður er helgaður.

Að sonum, tengdadætrum, barnabörnum og eftirlifandi systrum er mikill harmur kveðinn við andlát Öddu. Við Jón og börnin okkar biðjum góðan Guð að styrkja ykkur í sorginni. Við kveðjum Öddu með mikilli þökk fyrir allt sem hún var okkur.

Inga Þóra Geirlaugsdóttir.