Arnfríður Arnmundsdóttir ­ Ég hef Drottin ætíð fyrir augum,

þegar hann er mér til hægri handar

skriðnar mér ekki fótur.

Fyrir því fagnar hjarta mitt, sál mín gleðst,

og líkami minn hvílist í friði,

því að þú ofurselur Helju eigi líf mitt,

leyfir eigi að þinn trúaði sjái gröfina.

Kunnan gjörir þú mér veg lífsins,

gleðignótt er fyrir augliti þínu,

yndi í hægri hendi þinni að eilífu.

(Sl. 16, 8­11.) Arnfríður Arnmundsdóttir vissi hver hún var og að hverju hún gekk. Og hún bar sig að eins og því hæfði hverju sinni. Sjálf skipti hún ekki gjarna um hlutverk. Það gerði hins vegar maður hennar nokkrum sinnum og hennar hlutur breyttist um leið. Hún hafði greinst með krabbamein. Varanleg lækning var ekki í sjónmáli. Við áttum skömmu síðar samtal um það. Samtalið var mótað af sýn reyndrar konu. Hún átti bara eitt markmið: að fá að lifa mann sinn. Og hún náði því. Líklega náði hún alltaf því sem hún setti sér. Samt var markið sjaldnast fyrir hana eina, heldur fyrir fjölskylduna, eða eiginmanninn. Adda, eins og ég þekkti hana, var kona manns síns og móðir sona sinna. Fyrst og síðast. Þess vegna voru það líka oftast gluggarnir hans Jónasar sem hún horfði út um til að skoða heiminn. Við töluðum stundum um það. Hún var ánægð með útsýnið. Hún varð stúdent úr öldungadeild um leið og maður hennar varð vígslubiskup og hún stundaði dönskunám við Háskólann nokkra hríð eftir að þau fluttu í Skálholt. En hún gerði gys að hugleiðingum mínum um framhald þeirra mála enda önnur verk meira aðkallandi. Það var matartími þegar ég leit til hennar um daginn, og ég bað hana að forláta það. ­ Ég sofna þá ekki ofan í matinn minn ­ sagði hún, ­ og svo kíttum við dálítið um málefni sem nú er geymt og gleymt, rétt eins og svo oft áður. Það var sýnilega satt sem postulinn skrifar: ­ Jafnvel þótt vor ytri maður hrörni, endurnýjast dag frá degi vor innri maður. ­ (II. Kor. 4, 16b). Adda myndi alltaf vera hún sjálf. Það yrði ekki snúið að finna hana frammi fyrir hástól Guðs þegar við verðum kölluð þangað um síðir. Ég er dálítið hróðugur yfir því að hafa átt hana að vini. Svona líka lengi. Óþrjótandi var kaffilindin í Austurgerði þar sem fundum okkar bar fyrst saman. Og aldrei varð hún þurr. Ekki frekar en konan sem af henni jós. Vistarveran sem þau gistu hjónin nokkurra mánaða skeið í Bammental við Heidelberg við hlið okkar, lítillar námsmannafjölskyldu í útlöndum fyrir löngu, var kölluð eplaherbergið af því að áratugum saman var hún ekki notuð til annars en að geyma eplauppskeruna ­ og Öddu og Jónas um hríð. Tryggðaböndin brustu aldrei eftir það. Árin sem löngu síðar fylgdu í nánu sambýli á helgum Skálholtsstað treystu þau enn. Það voru góð ár. Þar skyggði ekki á. Jafnvel ekki heilsubrestur Jónasar megnaði að breyta þar nokkru. Og nú er hún gengin inn til hvíldar Drottins og þau bæði. ­ Rita þú: Sælir eru dánir, þeir sem í Drottni deyja upp frá þessu. Já, segir andinn, þeir skulu fá hvíld frá erfiði sínu, því að verk þeirra fylgja þeim. ­ (Op. 14, 13). Þökk fyrir árin öll, ­ þökk fyrir Skálholtsárin í nafni Skálholtsskóla og starfsfólksins þar, og þökk fyrir okkur. Guð styrki og gleðji þau öll sem nú syrgja.

Margrét, Kristján Valur og synir í Skálholti.