Sveinbjörg Brandsdóttir Það kom mér ekki á óvart þegar faðir minn hringdi og færði mér fréttir af andláti ömmu minnar Sveinbjargar Brandsdóttur. Þú amma mín fagnar hvíldinni og þó við ættingjar þínir syrgjum þig þá vitum við að þrek þitt var gengið til þurrðar og hvíldin kærkomin. Nú færðu að hvíla við hlið afa í Reykholti.

Þú, amma mín, hefur alltaf átt stóran part af hjarta mínu. Ég fékk nafnið þitt og hef alltaf verið stoltur yfir því og kem til með að reyna að bera það nafn með sóma. Þegar ég minnist þín þá kemur upp í huga minn hæglát og ljúf kona sem hafði reisn og glæsileika sem hélst alla tíð. Alltaf þegar ég hitti þig þá fann ég fyrir djúpri hlýju og væntumþykju. Þitt innilega faðmlag gaf mér mikið. Í Runnum var heimili þitt og afa og ég veit að þér þótti mjög erfitt að yfirgefa bæinn þinn og fallega garðinn þinn sem þú varst svo stolt yfir og sem bar vitni alúðar þinnar. Því miður höfum við ekki hist oft síðustu árin vegna veru minnar erlendis en ég er þakklátur fyrir þær stundir sem við áttum saman og kem alltaf til með að minnast þín.

Sveinbjörn Brandsson.