Sigurmundur Jörundsson Far þú í friði,

friður Guðs þig blessi,

hafðu þökk fyrir allt og allt.

(V. Briem.) Elsku pabbi, með þessum línum langar okkur að minanst þín í örfáum orðum. Minningarnar streyma fram, allt sem þú kenndir okkur og gerðir fyrir okkur í litla húsinu sem þú byggðir á erfiðum tíma. Þú varst alltaf á sjónum, og mamma hugsaði um barnahópinn, saumaði og prjónaði, við minnumst þín með hlýhug, því þú varst alltaf svo skapgóður, sama á hverju gekk í barnaskaranum, en svo var líka alltaf stutt í glensið og stríðnina, áhugamál áttir þú ekki mörg, en þar var sjórinn númer eitt, bryggjan og hvað bátarnir höfðu fiskað, síðan var það lestur, og að taka í spil, og ekki vorum við gömul þegar þú kenndir okkur að spila. Ekki má gleyma því að fara og sjá góð leikrit, en það var þín besta skemmtun. Ef eitthvað þurfti að laga eða gera við heima, þá var alltaf viðkvæðið, "Gugga, ég bið hann Kidda að laga þetta."

Þú varst mjög heilsuhraustur, og munum við varla eftir því að þú hafir verið veikur. En síðustu 3 ár varst þú á Sjúkrahúsi Patreksfjarðar.

Elsku pabbi, við vitum að það var erfitt fyrir þig að yfirgefa litla húsið sem þú hafðir búið í, í meira en 50 ár, yfirgefa dalinn sem þér var svo kær, sjá ekki lengur niður á bryggju, eða lygnan voginn, en núna vitum við að þér líður vel. Hvíl þú í friði.

Föðurland vort hálft er hafið

helgað þúsund feðra dáð

þangað lífsbjörg þjóðin sótti

þar mun verða stríðið háð.

Yfir logn og banabylgju

bjarmi skín af drottins náð.

Föðurland vort hálft er hafið

hetjulífi og dauða skráð.

Börnin þín.