Valgerður Daníelsdóttir Mig langar að kveðja tengdamóður mína með örfáum orðum. Ég man eins og gerst hafi í gær þegar ég hitti Völu fyrst. Það var í desember 1969. Vala og Jói voru í "kaupstaðarferð" að útrétta fyrir jólin og langaði þau til að hitta stúlkuna sem hafði heillað yngsta son þeirra. Ég var boðin í mat hjá elsta syninum á Álfhólsveginn þar sem Vala og Jói dvöldu í ferðinni. Var það kvíðin ung stúlka, sem fór á þeirra fund, en kvíðinn hvarf eins og dögg fyrir sólu, þegar hún tók mig í faðminn og bauð mig velkomna. Svona var hún Vala, alltaf hlý og góð.

Gott var að koma til Völu og Jóa og Völu eftir að Jói dó, enginn mátti fara án þess að þiggja þær veitingar sem hún hafði fram að færa. Barnabörnin og barnabarnabörnin voru sérlega hænd að henni, alltaf átti hún hlýtt faðmlag og eitthvað gott til að stinga upp í litla munna eða pening í litla lófa. Vala var mjög stolt af fjölskyldu sinni sem er mjög samrýnd, ekki síst fyrir hennar tilstilli. Vala var þakklát fyrir allt sem fyrir hana var gert og talaði hún aldrei illa um nokkurn mann. Við söknum hennar öll, hennar glaðlyndis og jákvæði sem alltaf einkenndu hana á hverju sem gekk, þrátt fyrir heilsuleysi sem hún átti við að stríða í gegnum tíðina (sem ekki verður tíundað hér), en alltaf stóð hún upp brosandi eftir hverja raun.

Ég vil þakka Völu fyrir öll árin sem ég átti með henni og bið Guð að styrkja okkur ástvini hennar í þessari miklu sorg.

Erla.