Valgerður Daníelsdóttir Elsku besta amma okkar. Í fáeinum orðum langar okkur að minnast þín og þeirra yndislegu stunda sem við höfum átt saman. Það sem einkenndi þig var umhyggjusemi, léttlyndi og hlýja í garð okkar og allra sem í kringum þig voru og alltaf svo stutt í hláturinn og grínið.

Þegar við hugsum til baka eru samverustundirnar um jólin ofarlega í huga okkar því við höfum verið með þér síðan við munum eftir okkur, fyrir utan síðustu jól, þá komst þú ekki vegna veikinda þinna.

Við heimsóttum þig um kvöldið þegar þú varst nýfarin frá okkur, jafnvel þá var gott að koma til þín, svo hlýlegt í litla herberginu þínu á Lundi. Friður var kominn yfir þig og við trúum því að nú líði þér vel og Jói afi hafi tekið vel á móti þér.

Elsku amma, hjartans þakkir fyrir allt sem þú gafst okkur, minningarnar um þig munu lifa um ókomin ár. Við kveðjum þig með söknuði. Guð blessi þig ætíð.

Auður Svala, Valgerður Rún og Heiðrún Jóhanna.