Grímur Jónsson Vinur minn, lokavegferðin var erfið en ég veit að þú varst sama baráttuhetjan og einkennt hafði þitt fas alla tíð. Þú varst glaður maður og frásagnargleðin mikil og oft svo lifandi að líkja mátti við myndband nútímans. Ég átti því láni að fagna að vegir okkar lágu saman, bæði í leik og starfi. Ég kynntist fjölskyldu þinni og starfaði með börnum þínum. Í sumum barna þinna ert þú svo ljóslifandi kominn að margt mun lifa þig. Ég gæti skrifað mjög langa sögu og skemmtilega aflestrar um þig og sum atvik sem við áttum saman á lífsins leið. Einu atviki gleymi ég aldrei og er oft búinn að brosa að skemmtigöngu okkar um götur Honoluluborgar á Hawaii í janúar 1973. Þá sögu segi ég aðeins í góðra vina hópi við sérstök tækifæri.

Það er þannig að sumir menn skilja bara eftir minningar fullar af lífi og gleði og þú ert sá vinur vinn sem alltaf vekur upp glaða hugsun og minnir á þörf um mikið lífsrými og frjálsa hugsun sem stundum flæddi með mælsku þinni og orðum. Ég mun vafalaust síðar segja frá einhverju því skemmtilega sem við upplifðum saman og veit að þá gleðst þú einnig í öðrum heimi. Nú kveð ég þig, kæri vinur.

Jóhönnu, börnum ykkar, mökum þeirra, börnum og barnabörnum votta ég innilega samúð og bið Guð að veita ykkur öllum styrk.

Guðjón A. Kristjánsson.