Guðleif Jónsdóttir Hugurinn rennur til baka þó tíminn renni fram. Leifa frænka er dáin. Hin eina sanna Leifa frænka. Þessi fasti punktur í tilverunni. Frá því hún fluttist hingað til Borgarness, ásamt eiginmanni sínum Ólafi Þórðarsyni, járnsmið, og dótturinni Ásu. Þau voru þá búin að búa í Reykjavík í fáein ár. Óli hafði keypt hér járnsmiðju sem hann vann svo við allt til dauðadags. Þessi ágætu hjón bjuggu allan sinn búskap hérna í Borgarnesi í húsi sínu að Egilsgötu 6 en það hús byggðu þau eftir að þau settust hér að. Í kringum þetta ágæta fólk var alla tíð mikill gestagangur. Þá kom ferðafólk með áætlunarbílum sem síðan tengdust skipsferðum. Hversu oft var eldhúsið hennar Leifu ekki þétt setið af fólki sem var að koma eða fara í sveitina eða til Reykjavíkur. Allt þótti þetta sjálfsagður hlutur. Hún lagði mikla vinnu í sínar rómuðu kökur og kaffi eða matarveitingarnar. Það var alveg einstakt. Ég var ein af þeim lánsömu einstaklingum sem kynntist vel þessu góða fólki. Það þótti svo sjálfsagt þegar ég fór að vinna í Kaupfélaginu að ég kæmi í kaffi til Leifu og Óla og í vondum veðrum þá skyldi ég koma í mat líka. Allt þótti þetta svo sjálfsagt. Þó gat ég aldrei þakkað þér alla þá hjálp sem þú veittir mér og mínu heimili þegar hér fæddust tvíburar og þú komst eins og engill með þínar hjálparhendur og liðsinntir þessum krílum og stærri drengjunum líka. Ávallt sýndir þú mér og mínu fólki áhuga og fylgdist með öllum fjölskyldumeðlimunum og var það dæmi um trygglyndi þitt og góðvild. Að leiðarlokum þökkum við þér öll í fjölskyldunni samfylgdina og tryggðina í okkar garð og ástvinum sendum við innilegar samúðarkveðjur. Ása Sveins og fjölskylda.