Kristján Vernharður Oddgeirsson Móðurbróðir minn, Venni, er látinn eftir stutta sjúkdómslegu. Ég vissi hvert stefndi er ég sat við sjúkrabeð hans þann 8. maí s.l. Þegar svo móðir mín sagði mér að hann væri látinn, komu löngu liðin atvik upp í hugann. - Venni á tröppunum á Hlöðum ásamt með ömmu og afa; við að renna í hlað. - Lítil hönd í stórum hlýjum lófa á leiðinni út í fjós að mjólka kýrnar. - Niðri á bryggju að fylgjast með bátunum. - Kennir okkur krökkunum að dorga, hlær af klaufaskapnum. - Hjálpar til við að ganga frá árabát sem við höfðum stolist út á og ávítar okkur fyrir glannaskapinn. - Situr á eldhúsbekknum við gluggann á Hlöðum og ræðir pólitík, liggur ekki á skoðunum sínum. - Situr á vegg ofan við fjöruna og ræðir við hina karlana í Víkinni. - Segir hlæjandi frá því þegar hann hljóp frá Grenivík inn á Svalbarðsströnd til að spila fótbolta. - Ræðir sveitastjórnarmál af hita og fótbolta af engu minni hita. Minningin um staðfastan og góðan mann mun lifa.

Lísbet.