Arnfríður Arnmundsdóttir Andlát Öddu kom ekki á óvart, en samt finnst okkur sem þekktum hana hún vera tekin allt of fljótt frá okkur. Hún var ein þeirra kvenna sem helgaði fjölskyldunni krafta sína og stóð ávallt við hlið manns síns, sr. Jónasar Gíslasonar. Hún og sr. Jónas gáfu mikið af sér fyrir mig og mína kynslóð þegar við vorum unglingar og ungt, fullorðið fólk í Kristilegu skólahreyfingunni. Þau tóku þátt í lífi okkar og vandamálum. Adda var ávallt róleg og yfirveguð svo að fólki leið vel í návist hennar. Vináttan hélst óbreytt þótt samskiptin yrðu minni á seinni árum. Hún var góð fyrirmynd ungu fólki og sýndi í verki að inntak og markmið lífs hennar var að leggja sitt af mörkum við að útbreiða Guðs ríki hér á jörð. Hún var ávallt mikill kristniboðsvinur, fylgdist vel með kristniboðsstarfi Sambands íslenskra kristniboðsfélaga og studdi það af alhug. Okkur fjölskyldunni var jafnan boðið heim til þeirra hjóna, þegar við komum heim frá Afríku, og sögðum þeim nýjar fréttir. Um leið og ég þakka Guði fyrir Öddu og góðar minningar um hana votta ég ástvinum hennar innilega samúð.

Fyrir hönd Sambands íslenskra kristniboðsfélaga,

Kjartan Jónsson, framkvæmdastjóri.