Það þykir ekki lengur merkilegt að keyra yfir hálendið þvert og endilangt á bílum að vetrarlagi. En þegar búið er að ferðast á þennan hátt í um 15 ár og heimsækja flest svæði landsins, sum margsinnis, þá þarf að finna nýja staði til að skoða og nýjar leiðir til að keyra. Því tók Jóhann Ísberg vel í þá hugmynd að ferðast frá Reykjanesvita út á Font.
REYKJANES - LANGANES

Landshorna á

milli í vetrarfærð

Það þykir ekki lengur merkilegt að keyra yfir hálendið þvert og endilangt á bílum að vetrarlagi. En þegar búið er að ferðast á þennan hátt í um 15 ár og heimsækja flest svæði landsins, sum margsinnis, þá þarf að finna nýja staði til að skoða og nýjar leiðir til að keyra. Því tók Jóhann Ísberg vel í þá hugmynd að ferðast frá Reykjanesvita út á Font.

ÞAÐ var Birgir Brynjólfsson sem nefndi það við mig að prófa að keyra þessa leið. Birgir eða Fjalli eins og hann er oftast kallaður býr yfir gríðarlegri reynslu í ferðamennsku. Hann er húmoristi, sögumaður, sérvitringur og býr yfir þessari sterku löngun til þess að sjá alltaf hinum megin við næstu hæð. Það finnst mér gaman líka og því er það að við höfum ferðast saman síðastliðin 10 ár á marga stórkostlegustu staði Íslands. Upphaflega hugmyndin var að fara ótroðnar slóðir í leiðavali. Kjölur, Botnsúlur, Þórisdalur, Flosaskarð og Krákur voru allt áformaðir viðkomustaðir á leið okkar en hlýindi og snjóleysi hér syðra kollvörpuðu áætlunum okkar eins og oft vil verða. Mannskapurinn sem kom í ferðina var ekki af verri endanum, allt harðduglegir ferðamenn á fullbúnum öflugum jeppum.

Í 20 ára gömlum Bronco voru Karl Rútsson og Logi frændi hans. Ekki minnist ég þess að Broncoinn, sem Kalli notar bara í ferðalög, hafi nokkurn tíma bilað í öllum þeim ferðum sem við höfum farið saman og vart er hægt að hugsa sér betri ferðafélaga en Kalla. Festur, vandræði, fárviðri og slíkir smámunir sem oft fylgja ferðum sem þessum hafa alls ekki nein sýnileg áhrif á skapferli hans eða hegðun. Sýnishorn af ferðaveðri

Á Reykjanesvita var enginn snjór og veðrið skrítið. Glampandi sól og dimm haglél skiptust á að óska okkur góðrar ferðar og reyndar fór svo að þetta veður var ágætis sýnishorn af veðrinu sem við fengum í ferðinni. Við höfðum lagt snemma af stað og vorum fyrir bragðið komnir inn á Sprengisand um hádegi. Undir Hágöngunum var áð í logni og sólskini. Ég hef ferðast með mönnum sem datt bara í hug kvenmannsbrjóst þegar þeir skoðuðu Hágöngurnar en ferðalög um hálendi Íslands hljóta að reynast slíkum mönnum erfið. Við sáum fjöllin sem tvo stórkostlega líparíthnjúka, yfir 1.200 metra háa, en Hágöngurnar eru líklega hraungúlar. Vatnajökull var næstur á dagskrá. Það er alltaf jafn gaman að þeysa um jökulinn í frábæru veðri. Við fórum upp Köldukvíslarjökul, sem er skriðjökull vestan í Vatnajökli syðst í Vonarskarði. Jökullinn er þægilegur til aksturs, sléttur og aflíðandi og ekki skemmir útsýnið með Bárðarbungu og Hamarinn hvort til sinnar handar og Vonarskarð og Hágönguhraun í baksýnisspeglunum.

Í Bárðarbungunni austanverðri vorum við á slóðum Geysisslyssins og vart er hægt að hugsa sér betri stað til að fljúga flugvél inn í fjall ef það þarf endilega að gerast. Aflíðandi löng brekka full af snjó til að deyfa höggið varð til þess að svo vel fór sem raun varð á. Við héldum okkur á slóðum þessa atburðar og fórum nú í Kistufell svipaða leið og björgunarmenn þurftu að fara fyrir næstum fimmtíu árum. Þar niðri voru ský og þar sem við vorum bara að nálgast eldsneyti sem þarna var héldum við aftur á jökulinn og stefndum austur í Kverkfjöll. Það er erfitt að ímynda sér þegar þeyst er á þessu tröllaukna ísflykki á 100 km hraða að undir sé eitthvert virkasta eldsumbrotasvæði landsins en umbrotin sem enn sjást í Gjálp og smá gufubólstrar í Grímsvötnum minna á aflið sem undir býr. Sigurðarskáli í Kverkfjöllum er alltaf kærkominn áfangastaður. Kverkfjallasvæðið býr yfir einhverjum dularfullum töfrum fyrir utan stórkostlega náttúrufegurð þess. Hver veit, kannski er það vitneskjan um stærð nær allra náttúrufyrirbrigða á svæðinu. Kannski eitthvað annað.

Tölvubúnaður Tölvubúnaður með innbyggðum kortum og tengdur í GPS staðsetningartæki er auðveldur í notkun, aðgengilegur og mun gera fleirum kleift að ferðast á þennan hátt. Þekkingin og reynslan þó dýrmæt sé verður ekki jafn nauðsynleg og áður til að komast allra sinna ferða. Ég mæli þó með því að menn hafi tvö sett af tölvubúnaði með í svona för, nú eða kunnáttumann með áttavita og kort sem hægt er að dusta rykið af ef harði diskurinn bregst. Náttúran lætur ekki að sér hæða og þegar við vöknuðum næsta morgun, ánægðir með sjálfa okkur að hafa ferðast á þessar eyðislóðir um miðjan vetur af eigin rammleik, fagnaði okkur skógarþröstur sem vildi njóta með okkur morgunmatarins. Hann virtist ekki þurfa fleece, goritex, GPS, tölvur eða yfirleitt nokkuð annað til að skreppa inn í Kverkfjöll í aprílbyrjun, bara nokkrar baunir og svo var hann farinn. Við fórum líka en með talsvert meira umstangi og stefndum yfir Jökulsá á Fjöllum sem einmitt á upptök sín undan Dyngjujökli og úr Kverkfjöllum. Að vetrarlagi er hún lítil svona ofarlega og oftast auðveld yfirferðar. Stefnan var nú tekin á Dyngjufjöll og farið inn í Öskju um Suðurskarð. Dýpsta vatn landsins, Öskjuvatn, 217 metra djúpt, myndaðist þar eftir gosið 1875 þegar tóm kvikuþró féll saman og dældin sem myndaðist fylltist af vatni.

Það er gaman að keyra þarna um en það er aðeins hægt að vetrarlagi og leiðangursmenn rituðu allir nöfn sín samviskusamlega í bók sem geymd er í Knebelsvörðunni. Hún var reist við vatnið upp úr 1950 til minningar um Þjóðverjana Walther von Knebel og Max Rudloff sem fórust í Öskjuvatni 1907 við rannsóknir þar.

Skyggni fór nú versnandi þó veðrið væri gott, logn og smá frost og útsýnið því ekki sem skyldi þegar við héldum gegnum Ódáðahraun norður með Herðubreiðarfjöllunum. Þess í stað sveipuðu skýin dularblæ yfir hrikalegt hraunið sem þrátt fyrir gríðarmikinn snjó lét ekki færa sig í kaf. Strýturnar í Bræðrafellinu sunnan Kollóttudyngju litu út eins og tröll að fylgjast með ferðum okkar og passa að við umgengjumst ríki þeirra með tilhlýðilegri virðingu. Við gerðum það sannarlega og þrátt fyrir litla fjallasýn þá var jafnvægi yfir umhverfinu og ég held að allir hafi notið þess að aka þessa leið. Komnir á ókunnar slóðir

Við þurftum að aka þjóðveginn smá spöl yfir Jökulsá og fyrir norðan Grímsstaði vorum við komnir á ókunnar slóðir. Þar hafði enginn okkar ferðast að vetrarlagi áður. Við höfðum ákveðið að gista í Heljardal sem er inn af Þistilfirði undir Heljardalsfjöllum. Á þessu svæði voru gríðarmikil snjóalög, sérstaklega þegar komið var inn í Hólsmynni og skarirnar á Mórillu voru margra metra þykkar víðast hvar. Finna þurfti snjóbrýr yfir jafnvel smæstu sprænur og skyggni fór versnandi. Allt hægði þetta á okkur en skálinn við Hafralón var vel þess virði að leggja á sig smá puð. Þetta reyndist vera lítill en vel búinn skáli með öllum hugsanlegum þægindum. Þarna var jafnvel skáktölva og inniskór fyrir alla. Fjalli dró nú fram gítarinn sinn og söng nokkur lög fyrir okkur sem duttum út af einn og einn á vit draumalandsins.

Draumarnir breyttust í martraðir um miðja nótt þegar byrjaði að blása. Lítil vindrafstöð á skálanum ískraði nefnilega og stundi í takt við vindinn. Skálinn virkaði eins og hátalarabox og þetta varð til þess að flesta okkar dreymdi að við værum að keyra og keyra og keyra ... Um morguninn var kominn blindbylur. Við þurftum að komast út á Font á Langanesi og til baka í Þistilfjörðinn þennan dag en útlitið var ekki gott. Vegalengdin er yfir 100 km og í svona veðri er ekki ferðahraðanum fyrir að fara. Tveir tóku að sér að fara á undan og leistu það verkefni óaðfinnanlega. Oft þurfti að ganga á undan bílunum til öryggis og þó að þetta svæði sé kannski ekki mjög fjöllótt þá eru þar gil og ekki þarf hátt fall til að eyðileggja bíl eða slasa menn. Á endanum náðum við til byggða í Laxárdal og Stefán bóndi bauð okkur til húsa þar sem góðgerðir í tíu hungraða karla voru töfraðar fram að því er virtist fyrirhafnarlaust. Skyggnið var orðið betra og þrátt fyrir að hvasst væri, örugglega ein 7-8 vindstig, og nístingskalt, þá var allt betra en blindakstur morgunsins. Töfrar Langaness

Langanesið er töfrandi staður að sumarlagi með stórkostlegu fuglalífi og auðvelt er að ímynda sér að þar hafi verið gott að vera hér áður fyrr þegar lífsgæðin voru öðruvísi metin. Gjöful fiskimið, hlunnindi af fugli og endalaus reki til eldsneytis og bygginga gerðu Langanesið gott til búsetu á þeim tímum þegar Reykjavík tilheyrði landsbyggðinni rétt eins og önnur smáþorp kring um landið. Að vetrarlagi kveður við annan tón, einungis rebbi og nokkrir mávar takast á við vetrarstormana. Samt er þetta ekki síður töfrandi þó á annan hátt sé. Auð björgin og hrjóstrugt útnesið hafa áhrif á ferðalangana sem skynja hér glöggt hörku og miskunnarleysi náttúrunnar við þessar kringumstæður. Kross á miðju nesinu sem á er letrað "Hér hvíla 11 enskir menn" minnir okkur óþyrmilega á þessa staðreynd en hann er til minningar um enska sjómenn sem taldir eru vera grafnir þarna eftir að þeir urðu úti þegar skip þeirra strandaði undir björgunum fyrir margt löngu. Á Font náðum við kl. 9 um kvöldið og þar skapaðist sérstök stemmning í hópnum. Ekki veit ég af hverju, kannski eru það bara töfrar þessa yfirgefna landshluta. Ættu allir, sem tækifæri hafa til, að heimsækja þennan landshluta og ekki bara Langanesið heldur Þistilfjörðinn og norðausturhorn landsins allt. Ég hef komið þar alloft og í hvert skipti opnast mér nýir áður duldir töfrar sem svæðið býr yfir. Þar býr líka duglegt fólk sem vill byggja upp svæðið og atvinnuvegi þess eins og við fengum að reyna þegar við komum til gistingar að Ytra-Álandi kl. 3 um nóttina beint í heitar vöfflur með rjóma og fleira góðgæti. Þar er rekin bændagisting ásamt myndarlegu fjárbúi og slík var þjónustan að Skúli bóndi leyfði Fjalla að fara á bak geithafri sínum sér til afþreyingar daginn eftir.

Að lokum gef ég samferðamönnum mínum hæstu einkunn og vona að leiðir okkar eigi eftir að liggja saman á þessum vettvangi sem við njótum allir. Í hópnum ríkti allan tímann góður andi þar sem menn voru umfram allt að njóta þess að ferðast saman um stórkostleg svæði án allrar keppni um hver væri fyrstur eins og stundum vill verða í ferðum sem þessum.

Höfundur er.......Í REKAFJÖRUM rétt utan við Skoruvík.

BÍLAR og menn á Fonti.

KARL Rútsson á heimleið á Kili.

LEIÐANGURSMENN við Víti.

ÓMAR Friðþjófsson á Land Cruiser dottinn ofan í á ofarlega í Þistilfirði. Fyrir ofan er Musso Þórarins Þórarinssonar.

Í SIGURÐARSKÁLA í Kverkfjöllum, horft á kvikmynd á tölvuskjá.

BENSÍN tekið á Kistufelli, Birgir Brynjólfsson og Kristján Kristjánsson.

KROSS á Langanesi þar sem 11 enskir sjómenn eru sagðir grafnir.