Johnny Depp fer á kostum í hlutverki Hunters S. Thompsons í Ótta og andstyggð í Las Vegas sem kom út á myndbandi í síðustu viku. Pétur Blöndal talaði við hann um myndina og fyrirmyndina.
Ótti og andstyggð í Las Vegas Ofurstarnir af Kentucky

Johnny Depp fer á kostum í hlutverki Hunters S. Thompsons í Ótta og andstyggð í Las Vegas sem kom út á myndbandi í síðustu viku. Pétur Blöndal talaði við hann um myndina og fyrirmyndina.

"ÉG HELD að flugþreytan sé farin að gera vart við sig," segir Johnny Depp og grettir sig bakvið sólgleraugun. "Maður kemur til Cannes og hefur ekki sofið í tvo daga og líður bara vel; eins og hálfgerðri ofurhetju. Svo skyndilega er eins og maður sé laminn í höfuðið með sleggju, þar sem mænan og höfuðið mætast."

Blaðamaður er ekki viss hvort Depp er að rugla saman flugþreytu og timburmönnum en gerir sér grein fyrir því að svona liði rithöfundinum og "gonzo"-blaðamanninum Hunter S. Thompson einmitt í Cannes. Hann hefði verið með allt á hreinu fyrsta daginn en smám saman hefði sigið á ógæfuhliðina. Og það er einmitt Hunter sem Depp leikur snilldarlega í myndinni Ótta og andstyggð í Las Vegas eða "Fear and Loathing in Las Vegas".

Viðtalið fer fram á hótelinu Du Cap sem er í grennd við Cannes. Depp lítur út fyrir að vera nývaknaður, er órakaður og í krumpuðum teinóttum jakkafötum en segist samt ekki hafa sofið í þeim. "Þau eru frá Dolce & Gabbana og eiga að vera svona," segir hann. "Þessar elskur hringdu í mig og sögðu að ég ætti eftir að líta virkilega vel út í þeim. Ég vona bara að þetta sé ekki illyrmislegur hrekkur," heldur hann áfram og hlær.

Manndómsraunir Thompsons

Myndin Ótti og andstyggð í Las Vegas er byggð á samnefndri sögu Hunters S. Thompsons. "Ég las bókina fyrst þegar ég var 16 til 17 ára og hef lesið hana fjórum til fimm sinnum síðan þá," segir Depp. "Ég er mikill aðdáandi Hunters og hef lesið nánast allt sem hann hefur skrifað."

Hvað veldur þessari hrifningu?

"Hann er einn hæfileikaríkasti rithöfundur sem komið hefur fram í Bandaríkjunum og þótt víðar væri leitað," svarar Depp. "Hann hefur mikið vald á tungumálinu og er fyrir mér alveg óviðjafnanlegur."

Var það þér mikilvægt að hitta hann fyrir gerð myndarinnar?

"Ég lærði svo mikið af honum að ég get ómögulega neglt eitthvað ákveðið niður. Maðurinn hefur svo mikla athyglisgáfu og er einstakur mannþekkjari. Hann er mjög fljótur að sjá kosti og galla í fari fólks og það tekur hann aðeins örfáar sekúndur."

Hverjir voru þínir kostir og gallar, að hans mati?

"Hann hefur aldrei látið það uppi en hann gerir ýmislegt til að reyna fólk, sjá hvernig það bregst við og hversu langt hann getur gengið. Hann á það til að móðga mig lítillega, t.d. með því að segja hæðnislega: "Svo þú ert kvikmyndastjarnan?"" Depp bregður sér í gervi Hunters þegar hann segir þetta og það er eins og Hunter bíómyndarinnar sé lifandi komin.

Hann heldur áfram: "Við annað tækifæri vorum við að búa okkur undir tökur. Ég var búinn að raka af mér allt hárið og var að máta búninga og prófa nokkrar kollur, eina með 50 hárum, aðra með 25 og þá þriðju með 17 hárum. Ég sendi Hunter myndir af þessu og skrifaði: "Þetta er stefnan sem við erum að taka en við erum ekki búin að taka neina ákvörðun ennþá og þú verður að átta þig á því."

Hann sendi mér aftur sama bréfið, setti ör við hausinn á mér og skrifaði: "Kláði?" Þá skrifaði hann á myndirnar: "Fötin eru alveg út úr korti. Ef þið ætlið að gera mig að einhverri teiknimyndafígúru eigið þið eftir að finna til tevatnsins."

Ég hugsaði með sjálfum mér að hann gæti bara farið til fjandans. Og skrifaði það. Hann kallar mig Depp ofursta því hann skipaði mig einu sinni ofurstann af Kentucky. Svo við erum báðir ofurstar af Kentucky..."

Hvaðan hefur hann umboð til þess?

"Ég hef ekki hugmynd um það," svarar Depp, "en mér skilst að það séu til samtök ofursta frá Kentucky þannig að við erum í góðum félagsskap. Ég sendi honum sem sagt bréf með áletruninni: "Doktor. Farðu til fjandans. Of seint. Ofurstinn."

Hann skrifaði mér aftur: "Mannkynssagan mun ekki veita þér aflausn illgjarni þorparinn þinn."

Þá skrifaði ég honum langt bréf þar sem ég útskýrði fyrir honum að ég væri ekki að reyna að gera hann að teiknimyndafígúru eða vanvirða hann: "Ég er ekki lagður upp í þessa ferð enn sem komið er. Ekki þrátta við mig. Ég hef nóg með mig að gera og þú ert að fást við annað. Við skulum hafa það í huga. Ef þú heldur að ég sé veikgeðja þá á ég eftir að koma þér á óvart." Þetta var storkandi bréf og ég fékk allt í einu svar frá honum sem var í allt öðrum dúr: "Hresstu þig við; ég var bara að reyna að hjálpa þér að velja föt." Þannig er hann. Hann var bara að reyna að stugga við mér og finna út hversu langt hann kæmist með mig. Þegar ég lét hann ekki vaða yfir mig, virti hann það við mig og líkaði það vel."

Orrustan töpuð?

Talar hann eins og þú talar í myndinni?

"Þannig hljómaði það í mín eyru," segir Depp.

Hefur hann séð myndina?

"Hann brást mjög vel við; mun betur en ég bjóst við," svarar Depp. "Ég var dauðskelkaður yfir því hvernig hann myndi bregðast við. Því þegar maður sér stóra útgáfu af sjálfum sér á hvíta tjaldinu þá hlýtur það að koma manni úr jafnvægi. Því meira sem ég líktist honum því óþægilegra yrði það fyrir hann. En hann brást vel við, sagðist hafa skemmt sér vel og að myndin væri yndisleg. Hann sagðist hafa vonað að hún tæki aldrei enda og það sem var stórkostlegast var að hann sagði: "Þetta var draugalegur lúðrablástur á töpuðum vígvelli."

Eftir að hafa melt þessa spaklegu setningu um stund spyr blaðamaður: Tapaði hann þá orrustunni?

"Ég er ekki viss um það, en að mínum dómi er hann enn í fremstu víglínu."

Af hverju var ekki gerð kvikmynd fyrr en 25 árum eftir að bókin var skrifuð?

"Ég veit það ekki," svarar Depp. "Það hafa verið gerðar margar atrennur að sögunni en ætli mönnum hafi nokkuð tekist að ná utan um viðfangsefnið. Ég veit að [Dennis] Hopper var viðriðinn þetta á sínum tíma og líka Jack Nicholson. Það er virkilega erfitt að skrifa bókina yfir í handrit. Jafnvel þótt það sé næstum skrifað í söguna sem er út frá einni og sömu persónunni og því tilvalin fyrir sögumann. En eftir að hafa gert myndina get ég sagt þér að það var afar strembið."

Þú hefur verið óhræddur við að skipta um ham frá einni mynd til annarrar á leikferli þínum.

"Já, ég held að það sé mikilvægt fyrir leikara að..." hann hugsar sig um og botnar: "nú, að leika."

Baulið var mikils virði

Þú leikstýrðir myndinni "The Brave" fyrir tveimur árum. Hvernig finnst þér að vera þeim megin við borðið?

"Það var mikilvæg reynsla fyrir mig," svarar Depp. "Hver einasta fruma í líkamanum á mér lagði sitt af mörkum til myndarinnar. Mig dreymdi hana; ég gat ekki einu sinni flúið hana í svefni. Þannig var ástatt um mig í þó nokkra mánuði."

Myndin fékk ekki alltof góða dóma, þú klipptir hana aftur og styttir um hálftíma.

"Það var til að bíóhúsin hefðu meiri tíma til að selja popp og kók," segir hann og hlær. "Nei, ástæðan var sú að ég vildi komast að kjarnanum. Þegar ég klippti hana á sínum tíma var alltaf verið að ýta á eftir mér vegna Kvikmyndahátíðarinnar í Cannes, ég yrði að ná myndinni þangað. Því miður felldi ég mig undir það og fór í kapphlaup við tímann að ljúka við myndina fyrir hátíðina. Þannig á ekki að klippa myndir. Það er dálítið spaugilegt að viðbrögð fjölmiðla voru afar sterk, þeir bauluðu á myndina og mér finnst það fyndið. Því ef menn hafa svo sterkar skoðanir á mynd að þeir þurfi að baula þá ... ég er dálítið upp með mér af því," segir hann einlægur og brosir. "Það þýðir að ég fór ekki eftir einhverri staðlaðri formúlu. Ég er glaður að hafa náð að stela tveimur og hálfum tíma úr lífi þeirra. Og ég hef hug á að stela meiru."

Viðbrögðin við Fear and Loathing in Las Vegas voru líka hörð.

"Ég les ekki gagnrýni lengur," segir Depp kæruleysislega. "Fólk getur átt sínar skoðanir í friði. Að fá borgað fyrir að gefa álit sitt á einhverju svo aðrir geti fylgt því í blindni er fásinna. Þá skulum við dæma MacDonalds hamborgara eða Burger King." Hann apar eftir ímynduðum gagnrýnanda: "Mér finnst hann smakkast vel en ekki vini mínum. Svo ég veit ekki hvað skal segja." Hann heldur áfram: "Það sér hver heilvita maður að þetta er fáránlegt. Við bjuggumst alltaf við að fólki myndi blöskra þessi mynd, að við myndum ganga fram af einhverjum."

...vegna eiturlyfjanna?

"Já, vegna eiturlyfjanna og viðfangsefnisins," svarar Depp. "Þetta er ekki þjóðernissinnuð mynd og hún gefur engar afsakanir fyrir neinu, fer bara sínu fram. Ætli það hafi ekki verið ælan sem gerði útslagið."

Hvaða persóna hefur haft mest áhrif á leikferil þinn. Maður hefur á tilfinningunni að það gæti verið Marlon Brando.

"Marlon hefur vissulega veitt mér mikinn innblástur. Það er frábær kennari og vinur," segir Depp. "Annars lærir maður af öllum. Jafnvel þótt ég hafi lifibrauð mitt af leiklist er það líka ástríða í þeim skilningi að ég er eilífðarnemandi."

JOHNNY Depp var voða fínn í tauinu.