INNAN drum 'n bass-heimsins eru margir straumar og einna mest að gerast í jassbræðingnum. Gengur svo langt að sumir vilja nefna tónlistarformið nýjan djass, en gott dæmi um djasskotna drum 'n bass-tónlist er ný plata Mocean Worker, sem vakið hefur mikla athygli fyrir hugmyndaauðgi og listilegar tónlistarfléttur.

NÝR

DJASS

INNAN drum 'n bass-heimsins eru margir straumar og einna mest að gerast í jassbræðingnum. Gengur svo langt að sumir vilja nefna tónlistarformið nýjan djass, en gott dæmi um djasskotna drum 'n bass-tónlist er ný plata Mocean Worker, sem vakið hefur mikla athygli fyrir hugmyndaauðgi og listilegar tónlistarfléttur. Mocean Worker, sem heitir reyndar Adam Dorn, hefur sent frá sér tvær breiðskífur. Dorn er alinn upp við djasstónlist, enda er faðir hans virtur upptökustjóri í djassheimum. Sextán ára gamall var Dorn farinn að spila á bassa og fór hefðbundna leið í gegnum tónlistarnám sem lauk í Berklee. Upp úr því starfaði hann sem upptökustjóri, undirleikari á skífum og þátttakandi í útgáfu á gamalli djasstónlist. Meðal platna sem hann hefur sett saman eru metsölusafnskífur með djass úr ýmsum áttum og mikið safn af upptökum með Judy Garland. Eftir að hafa leikið undir hjá öðrum lengstaf segist Dorn hafa langað að gera eitthvað á eigin spýtur og þá ekki beinlínis djasskyns, því hefðbundinn djass er heldur dauflegur að hans mati. "Ég tel mig þó vera að setja saman einskonar djass, en nýjan djass, það er kominn tími til að gera eitthvað nýtt." Á fyrstu skífu sinni vitnaði Dorn meðal annars í Mahaliu Jackson en á þeirri sem áður er getið, Mixed Emotional Features, fer hann um víðan völl í leit að hugmyndum og stefjum til að moða úr. Hann segir reyndar að lögin séu öll smásögur byggðar á atburðum úr lífi sínu, listaverkum, bókum og kvikmyndum. Hátt í helmingur af tónlistinni byggist á hljóðbútum frá öðrum, enda segist Dorn njóta þeirra forréttinda fyrir tilstilli tölvunnar, að geta leikið með hverjum sem er og fengið viðkomandi til að gera hvað sem er. Nýdjass Adam Dorn sem kallar sig Mocean Worker.