TONY Blair, forsætisráðherra Bretlands, hefur hafnað hugmyndum um breyttan hlut skozkra þingmanna í Westminster í kjölfar sjálfstjórnarþings Skota í Edinborg. Skozka þingið hefur lögsögu í skozkum málum, sem til þess heyra, og hafa enskir þingmenn í Westminster ekkert um þau að segja, en skozkir þingmenn sitja áfram í London með atkvæðisrétt í enskum málum.
Blair hafnar breytingum hjá skozkum ríkisþingmönnum London. Morgunblaðið. TONY Blair, forsætisráðherra Bretlands, hefur hafnað hugmyndum um breyttan hlut skozkra þingmanna í Westminster í kjölfar sjálfstjórnarþings Skota í Edinborg. Skozka þingið hefur lögsögu í skozkum málum, sem til þess heyra, og hafa enskir þingmenn í Westminster ekkert um þau að segja, en skozkir þingmenn sitja áfram í London með atkvæðisrétt í enskum málum. Enskir þingmenn, einkum úr röðum íhaldsmanna, hafa bent á, að þetta sé engan veginn réttlátt og fyrir kosningarnar var sagt, að Íhaldsflokkurinn myndi leggja fram frumvarp um breytta stöðu skozkra þingmanna á ríkisþinginu þannig að þeir gætu ekki haft áhrif á gang sérenskra mála. Í The Daily Telegraph er sagt, að Blair hafi nú tekið af skarið og til að undirstrika þá skoðun sína, að skozkir þingmenn hefðu áfram sitt að segja um ensk málefni sem skozk, hefur hann skipað Helen Liddell, sem var ráðherra í Skotlandsmálaráðuneytinu, samgönguráðherra. Íhaldsþingmaðurinn Cheryl Gillan hefur bent á, að bak við hvern skozkan þingmann í London standi 52 þúsund kjósendur meðan 100 þúsund eru að baki hverjum enskum þingmanni og að með tilkomu skozka þingsins hafi starfsálagið á skozka þingmenn í London minnkað til muna. Þessu svarar Blair á þann veg, að það þjóni hagsmunum brezku ríkisheildarinnar að dreifa valdinu og það sé réttlætismál, meðan það væri rangt að hafa tvenns konar þingmenn á ríkisþinginu. Blair er í mun að engin breyting verði á stöðu skozkra þingmanna eða ráðherranna fimm, sem frá Skotlandi eru og hann hefur frestað fram yfir næstu kosningar að taka til endurskoðunar kjördæmaskipanina í Skotlandi, sem gæti leitt til fækkunar skozkra þingmanna í London. Í kosningunum 1997 vann Verkamannaflokkurinn 56 af 72 skozkum þingsætum og sterk staða þar í næstu kosningum gæti hjálpað upp á sakirnar, ef Íhaldsflokkurinn færi að vinna eitthvað á í Englandi.