AÐALDUNDUR Ferðamálasamtaka Íslands var haldinn dagana 17. og 18. maí sl. á Höfn í Hornafirði. Að loknum venjulegum aðalfundarstörfum fyrri daginn buðu heimamenn gestum upp á sérstaka dagskrá sem hófst með stuttri rútuferð um bæinn. Síðan var haldið með Lóðsinum út fyrir innsiglinguna og til baka, á leiðinni voru ýmsar uppákomur.
Aðalfundur Ferðamálasamtaka Íslands

Miklar skipulags

breytingar innan

ferðaþjónustunnar

AÐALDUNDUR Ferðamálasamtaka Íslands var haldinn dagana 17. og 18. maí sl. á Höfn í Hornafirði. Að loknum venjulegum aðalfundarstörfum fyrri daginn buðu heimamenn gestum upp á sérstaka dagskrá sem hófst með stuttri rútuferð um bæinn. Síðan var haldið með Lóðsinum út fyrir innsiglinguna og til baka, á leiðinni voru ýmsar uppákomur. Bæjarstjórn Hornafjarðar bauð eftir það til sérstakrar móttöku og að því búnu var borinn fram kvöldverður á Hótel Höfn með tilheyrandi skemmtikröftum eins og karlakór og dansflokki sem sýndi línudansa.

Dagskrá aðalfundar var fram haldið á þriðjudagsmorgunn. Helstu mál þessa aðalfundar voru þær miklu breytingar sem orðið hafa á skipulagi innan ferðaþjónustunnar og þær lagabreytingar sem samþykktar voru á síðustu dögum Alþingis nú í vor um skipulag ferðamála. Ennfremur var mikið rætt um upplýsingagjöf og upplýsingamiðstöðvar og þá miklu nauðsyn að ríki og sveitarfélög styrki betur stöðu og rekstur upplýsingamiðstöðva eins og formaður samtakanna Pétur Rafnsson sagði: "þær eru stór þáttur í markaðssetningu svæða og landsins í heild, stærri en margan grunar". Pétur Rafnsson var endurkjörinn formaður Ferðamálasamtaka Íslands en aðrir í stjórn samtakanna eru: Dóra Haraldsdóttir fyrir Vesturland, Gunnar Egilsson fyrir Vestfirði, Kristinn Guðmundsson fyrir Norðurland-vestra, Ívar Sigmundsson fyrir Norðurland-eystra, Ásmundur Gíslason fyrir Austurland, Jóhanna B. Magnúsdóttir fyrir Suðurland, Júlíus Steinþórsson fyrir Suðurnes og Hildur Jónsdóttir fyrir höfuðborgarsvæðið. Að loknum aðalfundi flutti Friðrik Sóphusson, forstjóri Landsvirkjunar, erindi um orkuvinnslu og ferðaþjónustu og Magnús Oddsson, ferðamálastjóri, talaði um þær breytingar sem átt hafa sér stað innan Ferðamálaráðs Íslands og á umfangi og verkefnum skrifstofu Ferðamálaráðs. Miklar umræður sköpuðust að loknum þessum erindum. Pétur Rafnsson.