"ÉG ER ekki ein af þeim sem alltaf vilja vera að skrifa í blöð en mér fyndist ástæða til að koma á framfæri andúð á því tiltæki að láta fólk kyssa bíla til þess að reyna að eignast þá ­ mér finnst þetta ógeðsleg hugmynd hjá forráðamönnum bílafyrirtækis," sagði gáfuð og vel menntuð kona í samkæmi sem ég sat um daginn.
ÞJÓÐLÍFSÞANKARð/Hvað verður það næst?

Kossar

ágirndarinnar

"ÉG ER ekki ein af þeim sem alltaf vilja vera að skrifa í blöð en mér fyndist ástæða til að koma á framfæri andúð á því tiltæki að láta fólk kyssa bíla til þess að reyna að eignast þá ­ mér finnst þetta ógeðsleg hugmynd hjá forráðamönnum bílafyrirtækis," sagði gáfuð og vel menntuð kona í samkæmi sem ég sat um daginn. Allar sex konurnar sem í þessu samkvæmi voru kváðust algerlega vera á móti svona tiltækjum og raunar finnast þau lítilsvirðandi fyrir þá sem í þeim tækju þátt. "Mér finnst stórundarlegt að fréttamennirnir sem sögðu frá þessum langdregnu bílakossum skyldu ekki sýna þess nein merki að þeim þætti þetta óeðlilegt," bætti fyrrnefnd kona við. Við nánari umhugsun er ýmislegt undarlegt við þetta auglýsingatiltæki.

Í fyrsta lagi er þetta óvenjulegt vegna þess að þarna var komið á einskonar "líkamlegu" sambandi milli bíls og mannveru. Ég hef þekkt marga menn um dagana sem hafa haft ást á bílum en enginn þeirra mér vitanlega hefur þó gengið svo langt að kyssa bíl. Hingað til hafa jafnvel mestu bílaaðdáendur látið duga að strjúka lauslega yfir gljáfægt lakk hins elskaða bíls. Nú er sem sé brotið blað, það er staðreynd að fólk er tilbúið til að kyssa bíl langtímum saman í von um að eignast umræddan grip. Með bólgnar varir og stirða liði máttu allir þátttakendur bílkossakeppninnar nema einn bíta í það súra epli að fá ekki bílinn. Frekar ömurleg lífsreynsla. Það er tvennt sem fólki sýnist oft sérlega skeinuhætt, það að láta hégómleikann teyma sig á asnaeyrunum og svo hitt að ágirndin taki af því ráðin. Í þessu tilviki virðist það hafa verið ágirndin sem réð ferðinni. Við höfum raunar áður orðið vitni að svipuðu ­ það var þegar fólki var boðið að fá síma gefins ef það mætti nakið á staðinn. Sumir gerðu þetta og fengu síma, en hvort þeir gerðu þetta af ágirnd eða hégómagirnd er ekki alveg jafn víst. Hitt má telja víst að nú arka þeir hinir sömu um allar götur og spjalla í símana sína. Kannski sjá þeir á ferðum sínum bregða fyrir konu sem ekur um götur í bíl sem hún eignaðist með því að kyssa hann lengur en aðrir "keppendur" í bílkossakeppni?

Því lengur sem ég hugsa um þetta atvik því furðulegra finnst mér það. Ég hef oft undrast hve ágirndin getur teymt fólk langt. Ætla má að ekki aðeins hafi ágirnd átt þátt í að fólk tók þátt í umræddri keppni heldur líka að henni var komið á laggirnar. Ég á bágt með að trúa að fólk kyssi bíla langtímum saman bara af því að það langi svo til þess. Ég á líka bágt með að trúa að fyrirtæki gefi bíla þeim sem fást til kyssa þá lengi án þess að eitthvað búi á bak við annað en góðsemin eintóm. Ég er ekki viss um að þetta sé góð leið að fara út á og finn til efasemda um að siðferðilega samrýmist þetta "vönduðum" viðskiptaháttum. Það er eitthvað ógeðfellt við þetta, hvort sem hugsað er um þá sem kysstu bílinn eða þá sem buðu þeim til keppninnar. Hvað ætli það verði næst? Kannski býður einhver samborgurum sínum til keppni í hver geti lengst enst við að sleikja bílrúður, sjúga gírstangir, nudda afturendanum upp við afturstuðara og hvaðeina sem hægt væri að láta sér detta í hug að gera. Ég ætla ekki að fara lengra út í þessa sálma, en tek bara undir lokaorð konunnar í samkvæminu: "Það er eitthvað "sick" við þetta."

Guðrúnu

Guðlaugsdóttur