Ef Brandur byskup hefur ekki skrifað Hrafnkötlu virðist ljóst að einhver lærisveina hans eða rithöfundur sem var handgenginn þýðingum hans á Gyðinga sögu og Alexanders sögu hefur skrifað hana, svo augljós rittengsl sem eru milli þessara verka.
Ef Brandur byskup hefur ekki skrifað Hrafnkötlu virðist ljóst að einhver lærisveina hans eða rithöfundur sem var handgenginn þýðingum hans á Gyðinga sögu og Alexanders sögu hefur skrifað hana, svo augljós rittengsl sem eru milli þessara verka. Þó að engin leið sé til að fallast á kenningar Hermanns Pálssonar um Ormssyni og þá Svínfellinga sem fyrirmyndir að persónum í Hrafnkötlu, þá eru aðrar skýringar Hermanns á sögupersónum Hrafnkötlu og athöfnum þeirra augljóslega svo nærri réttu lagi að auðvelt er að fallast á þær, einsog hann ber þær fram í Siðfræði Hrafnkels sögu. Getgátur og fullyrðingar Hermanns um lykilpersónurnar, einsog þær eru bornar fram í riti hans um Freysgyðlinga, eru að mínum dómi jafn fjarri lagi og hugmyndir hans um siðfræði sögunnar eru á sterkum rökum reistar. Það er auðvelt að taka undir flest það sem hann segir um jafn óáþreifanleg efni og sjálfsþekkingu, örlög og sjálfskaparvíti. Skrif Hermanns um þessa þætti eru sannfærandi vísindi og haldbær málssókn fyrir skýringum á heldur óraunverulegum og huglægum þáttum sögunnar, t.a.m. er allt sem hann segir um ofmetnað áreiðanlega mikilvæg skýring á þeirri harmrænu leikfléttu sem gerir söguna eftirminnilega. En samanburðurinn við Sturlungaaldarmenn og samtíð höfundar steytir ávallt á einhverju skeri. Örlítið dæmi um það er sú staðreynd að Hrafnkell kýs lífið og fær það, en Ormssynir biðja sér griða en eru drepnir 1248. Þannig raknar samanburðarfléttan ávallt upp þegar reynt er að opna sálarlíf persónanna og sögusvið með þeim lyklum sem nærtækastir eru úr samtíð höfundar. Samtímamenn hans voru að sjálfsögðu allir kristnir, en persónur Hrafnkötlu eiga að vera ásatrúarmenn og því heiðingjar að dómi höfundar. Þeim er eitthvað áfátt í siðferðilegum skilningi vegna sinnar heiðnu lífsskoðunar, það er einn helzti boðskapur sögunnar ef um boðskap er að ræða. Það má vel til sanns vegar færa að það sé ekki eingöngu brotalöm í Hrafnkötlu, heldur flestum ef ekki öllum Íslendinga sögum, að þær eiga að gerast í heiðnu samfélagi 10. aldar en bera samt áberandi merki kristinna áhrifa vegna lífsskoðana höfunda. Þeir Þjóstarssynir og bandamenn Sáms fyrirfara Freyfaxa og hrinda honum fram af hömrunum, en með því fórna þeir í raun og veru sjálfum frjósemisguðinum Frey. Síðan eru goðhús Hrafnkels brennd. Þessir heiðnu menn eru látnir fremja goðgá sem er ekki minni óverkan en sumt af því sem forystumenn kristninnar gerðu sig seka um í hita baráttunnar, s.s. Hjalti Skeggjason sem orti níð um Freyju og Þangbrandur sem braut allan heiðindóm og bramlaði, hvar sem hann gat því við komið. Höfundur Hrafnkels sögu er einfaldlega að segja að Freyr og tákngervingur hans, hesturinn Freyfaxi, séu óheillakrákur sögunnar andspænis jákvæðum siðaboðskap kristninnar einsog Hermann Pálsson lýsir honum af skarpskyggni, en þó einkum miklum lærdómi - og þar með að sjálfsögðu einkum og sér í lagi andspænis hugarheimi höfundar sjálfs en ekki endilega þeirra heiðnu persóna sem hann er að skrifa um. Hrafnkell elskar engan nema Frey og svo Freyfaxa, en honum fer þó ekki að vegna vel fyrr en þeim hefur verið fórnað. Það er áminning kristins höfundar. En fyrst verður Hrafnkell að hefna sín á Sámi með því að drepa Eyvind Bjarnason bróður hans, en það er heiðin afstaða. En samfélag sturlunga var reyndar einnig nægileg forsenda fyrir slíku hefndarverki, svo oft sem menn voru drepnir og pyntaðir á Sturlungaöld til að koma í veg fyrir að þeir þyrðu eða gætu hefnt sín. Hefndarþorsti heiðingjanna brann í brjósti þeirra kristnu vígamanna sem kveiktu eldana á Flugumýri og Bergþórshvoli. Hrafnkell býr svo aftur við vinsældir eftir að hann hefur fórnað Frey og lært að temja ofsa sinn og ofmetnað, það er kristin afstaða: að kunna sér hóf.

Það er úr þessum tvískinnungi, þessum andstæðum sem Hrafnkels saga og aðrar Íslendinga sögur verða til. Það er af þessum andstæðum sem list þeirra rís. Hún verður ekki einungis til úr átökum persónanna, sjálfskaparvíti þeirra og ofmetnaði, heldur einnig - og ekki síður - úr hugmyndafræðilegum átökum, þeirri áskorun sem kristnir höfundar tóku í glímunni við heiðinn arf. Hrafnkatla er dæmisaga um yfirburði kristinnar hugmyndafræði gagnvart heiðnum arfi, ef hún er á annað borð dæmisaga. En það skyldi þó ekki vera að hún sé einfaldlega innansveitarkronika um fólk sem verður til í þeirri deiglu sem skáld sækja í þegar þau smíða sér nýjan heim úr draumum og veruleika? Sem sagt: að sagan sé ekki skáldskapur frá rótum, heldur smíðuð úr nokkru efni einsog allt það sem verður til í smiðju merkra rithöfunda. Það var í eldi þessarar smiðju sem Snorri herti sinn heim. Það hafa önnur skáld einnig gert og þá einnig höfundur Hrafnkötlu.

M.