LOUISE Arbour, aðalsaksóknari stríðsglæpadómstóls Sameinuðu þjóðanna í Haag, tilkynnti á fimmtudag, að formleg ákæra og handtökuskipun hafi verið gefin út á hendur Slobodan Milosevic, forseta Júgóslavíu, og fjórum öðrum háttsettum ráðamönnum landsins. Eru þeir ákærðir fyrir glæpi gegn mannkyninu.
Milosevic ákærður fyrir stríðsglæpi

LOUISE Arbour, aðalsaksóknari stríðsglæpadómstóls Sameinuðu þjóðanna í Haag, tilkynnti á fimmtudag, að formleg ákæra og handtökuskipun hafi verið gefin út á hendur Slobodan Milosevic, forseta Júgóslavíu, og fjórum öðrum háttsettum ráðamönnum landsins. Eru þeir ákærðir fyrir glæpi gegn mannkyninu. Í flestum vestrænum ríkjum var tilkynningu Arbours fagnað, en ráðamenn í Kína og Rússlandi sögðust óttast að ákæran gæti torveldað friðarumleitanir. Þá sagði Constantine Mitsotakis, fyrrverandi forsætisráðherra Grikklands, að ákæran væri "alvarleg mistök" og að hún drægi úr líkum á því að samkomulag næðist um frið í Kosovo. Þá var greint frá því á fimmtudag, að Rússar muni ef til vill senda tíu þúsund manna friðargæslulið til Kosovo náist samkomulag í deilunni í héraðinu. Þá var hermt að Bill Clinton Bandaríkjaforseti teldi til greina koma að senda 90.000 manna landher til Kosovo, náist ekki samkomulag á næstu þrem vikum.

Kínverjar sakaðir um njósnir

BILL Clinton, forseti Bandaríkjanna, hét því á þriðjudagskvöld að frekari ráðstafanir til þess að vernda kjarnorkuleyndarmál landsins eftir að öryggismálanefnd Bandaríkjaþings birti skýrslu þar sem fullyrt er að Kínverjar hafi stundað umfangsmiklar njósnir í Bandaríkjunum undanfarna tvo áratugi. Kínversk stjórnvöld hafa vísað ásökunum þessum á bug og segjast aldrei hafa stundað kjarnorkunjósnir í Bandaríkjunum.GENGI Evrunnar, hinnar sameiginlegu Evrópumyntar, féll í vikunni. Um miðjan dag á fimmtudag var gengi hennar gagnvart Bandaríkjadollar 1,0410 og hafði aldrei verið lægra. Það hækkaði aðeins síðar um daginn. Nýbirtir hagvísar Evrópusambandsríkjanna eru meginástæða hinnar skyndilegu lækkunar og eru taldir vera til marks um stöðnun í efnahagslífi Evrópuríkja.

PAKISTANAR kváðust á fimmtudag hafa grandað tveim indverskum orrustuþotum er flogið hafi yfir yfirráðasvæði þeirra í Kasmír. Indverjar héldu því hins vegar fram að þoturnar hafi farist Indlandsmegin við markalínuna er skiptir héraðinu í tvennt. Indverjar hófu á miðvikudag árásir á skotmörk í Kasmír til að flæma burt pakistanska skæruliða sem voru sagðir hafa laumast yfir á indverskt yfirráðasvæði.

ÆRIN Dollí, sem einræktuð var fyrir þrem árum, fæddist miðaldra, ef svo má segja, að því er vísindamennirnir, sem ræktuðu hana, greindu frá á fimmtudag. Erfðaefni hennar var fengið úr sex ára gamalli á, og er því níu ára, þótt Dollí sjálf sé aðeins þriggja ára. Ekki er alveg ljóst hvaða áhrif þetta mun hafa á líf Dollíar.

NÝ stjórnarkreppa var yfirvofandi í Rússlandi á föstudag eftir að Míkhaíl Zadornov sagði af sér embætti aðstoðarforsætisráðherra. Þykir þetta staðfesta fréttir undanfarið um að óljóst sé hver fari í raun með stjórn efnahagsmála í Kreml.