SÁ misskilningur er útbreiddur að Kvikmyndahátíðin í Cannes fari fram á hvítum sólbekk á gullinni sandströnd með kokkteil, kúbverskan vindil og útsýni yfir berbrjósta smástirni. Enda er það sú ímynd sem Hugh Hefner, útgefandi Playboy, og íkar vilja halda á lofti. Raunin er önnur.
VERK:: SAFN'SDGREIN DAGS.:: 990530 \: SLÖGG:: n virtist til dæmis STOFNANDI:: PEBL \: \: KVIKMYNDAHÁTÍÐIN Í CANNES

Snjóhvítir vinnufíklar á sólarströnd

Stærstu kvikmyndahátíð í heiminum lauk í Cannes um síðustu helgi. Pétur Blöndal var á staðnum og lýsir lífinu sem er ekki eins ljúft og það virðist við fyrstu sýn.

SÁ misskilningur er útbreiddur að Kvikmyndahátíðin í Cannes fari fram á hvítum sólbekk á gullinni sandströnd með kokkteil, kúbverskan vindil og útsýni yfir berbrjósta smástirni. Enda er það sú ímynd sem Hugh Hefner, útgefandi Playboy, og íkar vilja halda á lofti.

Raunin er önnur. Stærsti hluti hátíðarinnar fer fram á litlum hótelherbergjum eða básum þar sem samið er um kaup og sölur á kvikmyndum. Þetta er stærsti markaður í heiminum með kvikmyndir og þarf því ekki að koma á óvart að öll íslensku kvikmyndahúsin senda fulltrúa sína á hátíðina. "Við förum á þennan markað til þess að rækta samskipti við erlend fyrirtæki," segir Einar Logi Vignisson hjá Háw skólabíói.

"Við erum á fyrirfram bókuðum fundum með fulltrúum tuga fyrirtækja og ræðum við þá um kaup og kjör á myndum. Að auki skoðum við myndir sem við höfum áður keypt eða með kaup í huga. Á hverjum degi fundum við kannski með fulltrúum fimm til tíu fyrirtækja og svo skipta menn með sér verkum að fara í kvikmyndahús."

Einar Logi segist mest hafa horft á 35 til 40 myndir á einum markaði. "Ef fleiri eru frá einu fyrirtæki skipta menn með sér myndum," segir hann. "Við erum í allt að skoða 40 til 50 myndir og það er drjúgt, þótt það komist í vana. En það er hálfskrítið starf að horfa á svona margar myndir á svo skömmum tíma; sérstaklega þegar sólin skín úti." Hann brosir og bætir við: "Enda sér maður oft hverjir hafa verið að vinna og hverjir ekki. Sumir koma brúnir heim eftir ströndina og aðrir snjóhvítir eftir bíósalina."

Ungfrúin góða í Feneyjum?

Í tímaritinu Moving Pictures er brandari um tíu manns sem verða skipreika á eyðieyju: tvo Dani, tvo Finna, tvo Íslendinga, tvo Norðmenn og tvo Svía. Eftir viku eru Danirnir tveir orðnir ástfangnir. Eftir tvær vikur hafa Norðmennirnir komið upp brugghúsi. Eftir þrjár vikur spyr annar Finninn: "Hvað er klukkan?" og hinn svarar: "Ekki tala svona mikið." Eftir fjórar vikur segir annar Svíinn við hinn: "Eigum við ekki eftir að kynna okkur? Ég heiti Svensson." Eftir fimm vikur eru Íslendingarnir tilbúnir með kvikmynd um atburðinn sem styrktur er af kvikmyndasjóðum allra Norðurlandanna.

Þetta segir sitt um það orðspor sem fer af Íslendingum að þeir séu snjallari öðrum í að fjármagna myndir sínar. Og Kvikmyndasjóður Íslands leikur þar stórt hlutverk. "Við höfum ansi margt fyrir stafni," segir Þorfinnur Ómarsson, framkvæmdastjóri Kvikmyndasjóðs Íslands, sem sér um íslenska kynningarbásinn í Cannes ásamt starfsbróður sínum Breka Karlssyni.

"Við erum með fjórar myndir á kvikmyndamarkaðnum og eru það Dansinn, Sporlaust, Popp í Reykjavík og nýja myndin Split. Þær eru kynntar og auglýstar. Það fólk sem kemur til okkar er annars vegar kaupendur, sem við afgreiðum með söluaðilum hverrar myndar, og hins vegar fulltrúar kvikmyndahátíða um allan heim. Þær sem taka sig alvarlega skipta hundruðum og allar senda þær útsendara til Cannes til að velja myndir og fá upplýsingar um væntanlegar myndir."

Íslensku myndunum í Cannes var boðið á kvikmyndahátíðir víðsvegar um heiminn. Skilnaðinum eða "Split" var m.a. boðið á nýja hátíð í Róm sem stýrt er af Felicio Laudadio en hann hefur áratuga reynslu af kvikmyndahátíðum í Feneyjum og annars staðar á Ítalíu. Þá hefur myndinni Ungfrúin góða og húsið verið boðið á Kvikmyndahátíðina í Feneyjum og Poppi í Reykjavík boðið á nokkrar hátíðir, m.a. hefur komið upp sú hugmynd að sýna hana ásamt Rokki í Reykjavík á Kvikmyndahátíðinni í Locarno í ágúst.

En Kvikmyndasjóður Íslands hefur fleiri skyldum að gegna í Cannes. "Það er ekki síður mikilvægt að kynna væntanlegar myndir og erum við með óvenju margar myndir á lokastigi framleiðslu," segir Þorfinnur. "Svo gæti farið að sjö nýjar myndir yrðu sýndar fram að áramótum. Þar fyrir utan hefur komið fram að við höfum úr meiri fjármunum að spila en áður sem hefur mikla þýðingu fyrir okkur og menn koma að máli við okkur með jákvæðara hugarfari. Loks eru margir mikilvægir alþjóðlegir fundir haldnir í Cannes þar sem þá eru fulltrúar allra þjóða samankomnar á einum stað og ýmsir fjármögnunarmöguleikar kannaðir til þrautar."

Eingöngu að hitta fólk

"Þetta er afmælislagið," svarar Jeff Goldblum, sem situr í dómnefndinni í Cannes og þessa stundina við píanóið á Hótel Majestic, þegar Tinna Gunnlaugsdóttir biður hann að spila fyrir afmælisbarnið Snorra Þórisson hjá Pegasus. Tilefnið er að Snorri er fimmtugur og vinir hans eru að gera sér og honum glaðan dag. Hvað er hann annars að gera í Cannes?

"Ég er eingöngu að hitta fólk," segir hann, "mest dreifingaraðila og fjármögnunaraðila á kvikmyndum. Þetta fer fram þannig að maður hefur samband við þá fyrirfram, bókar fundi og síðan er spjallað um væntanleg verkefni. Við erum á a.m.k. fimm til sjö formlegum fundum daglega og svo er auðvitað mikið af óformlegum fundum þar sem maður hittir fólk, ræðir málin og skiptist á nafnspjöldum."

Hann segist hafa farið til Cannes frá því í kringum 1990. "Þetta er gífurlega stór markaður þar sem verið er að selja myndir og fjármagna og þetta er einn besti staðurinn til þess að hitta fólk. Allir sem skipta máli eru á staðnum og það er mun heppilegra að ná fundum þeirra hérna en að þvælast um allan heim. Þeir eru hér til þess að hitta fólk og komast að því hvað er í gangi."

Þegar Snorri sneri heim til Íslands tók konan hans, Erla Friðriksdóttir, á móti honum. Hún sagði honum að þau yrðu að fara út að borða í tilefni af afmælinu en fyrst yrði hann að sækja tengdason sinn í fyrirtækið. "Þar beið hundrað manna veisla eftir mér," segir Snorri og brosir í kampinn. "Ég varð fimmtugur daginn áður en ég fór heim og svo varð ég aftur fimmtugur eftir að ég kom heim."

Íslendingar sigra heiminn

Þegar vinnunni sleppir vilja margir meina að hún byrji fyrir alvöru í Cannes. Það þykir ákaflega mikilvægt að koma sér upp samböndum enda eru þau grunnur alls og þau verða ekki síst að veruleika í veislum sem haldnar eru vegna frumsýninga á myndum í keppninni eða sem sýndar eru sérstaklega á markaðnum. En ekki eru allir færir um að útvega sér boðsmiða í veislurnar eða hafa nennu til þess.

Kráin Le Petit Carlton er orðin hálfgildings stofnun í Cannes enda hefur hún verið til staðar í þau 52 ár sem hátíðin hefur verið haldin. Þetta hefur verið helsti samkomustaður fulltrúa Norðurlandanna og Bretlands og kom þeim því í opna skjöldu þegar eigandinn tilkynnti að hann hygðist snúa sér að öðru þar sem viðskiptin væru dræm árið um kring, ef hátíðin væri undanskilin. Hann seldi krána og verður þar fataverslun að ári.

En víst er að Le Petit Majestic, við næsta götuhorn, á eftir að taka við og engin ástæða til að örvænta enda gnótt af veitingastöðum, krám og diskótekum í nágrenninu. Þá sitja margir á hótelbörunum, sötra dýra drykki og leggja kapal með nafnspjöldum. Og enn aðrir spila fótbolta. Það er nefnilega stór stund á kvikmyndamörkuðunum í Los Angeles, Mílanó og Cannes þegar kemur að fótboltaleiknum á milli Evrópu og World United.

Það lið sem hefur sigrað oftar að loknum leiknum í Cannes uppsker veglegan bikar. "Þeir sem taka þátt eru seljendur mynda, dreifingaraðilar og ýmsir aðrir sem tengjast kvikmyndaiðnaðinum á borð við leikstjóra, handritshöfunda, framleiðendur og jafnvel blaðamenn," segir Einar Logi sem átti frumkvæðið að því að koma Íslendingum að í leikinn sem fram fer á grasi grónum leikvangi í Cannes.

"Menn taka þetta alvarlega," heldur hann áfram, "jafnvel þótt það sé gífurlega erfitt á þessari miklu messu að láta áfengi eiga sig tvo daga fyrir keppni. Aftur á móti er hefð fyrir því að menn leiki talsvert undir getu og fer það í skapið á mörgum en það ræðst af því að ekki nokkur maður hefur sofið eðlilega í viku á undan. Þegar blandast saman óreglulegur svefntími, mikið stress, langur vinnudagur og almennur ólifnaður þá gefur að skilja að gæði leiksins eru ekki alltaf mikil þó að reyndar hafi leikurinn í ár verið undantekning."

Skemmst er frá því að segja að World United vann yfirburðasigur í Cannes með sex mörkum gegn fimm og var það í annað skipti á fimm árum sem það tekst í Evrópu. Þar með vannst bikarinn og vitaskuld voru Íslendingarnir fimm, sem léku leikinn, í sigurliðinu. "Þeir stóðu sig með þvílíkum eindæmum að leikurinn var kallaður Ísland gegn öðrum heimshlutum," segir Einar Logi og glottir. "Þeir gerðu fjögur af sex mörkum og áttu mann leiksins auk þess sem kollegi minn í Háskólabíói, Ægir Dagsson, varði vítaspyrnu."

Morgunblaðið/Halldór Kolbeins ÞAÐ er eftirsótt að komast upp rauða dregilinn með hirð ljósmyndara í smóking á hvora hlið.

LEIKKONAN Beatrice Dalle er dálæti frönsku þjóðarinnar og þó víðar væri leitað.

BANDARÍSKA leikkonan Daryl Hannah lét nú ekki verða af því að stinga sér en ýjaði að því.

HJÓNIN Pia og Mikka Kaurismaki ásamt Önnu Maríu og Friðriki Þór á skrifstofu Scandinavian Films.

ÍSLENDINGURINN Oliver gerði sér ferð til Cannes frá Munchen á mótorfák sínum.

TVÆR nektardansmeyjar sitja fyrir á ströndinni og vekja eftirtekt vegfarenda.

EWAN MacGregor mætti úr Stjörnustríðinu í Bandaríkjunum og var hissa á ákafa ljósmyndaranna.

KLÁMMYNDAFYRIRTÆKIÐ Privat stóð fyrir uppákomum á ströndinni.

NOKKRAR af fyrirsætum L'Oreal, m.a. Kate Moss, David Ginola og Heather Locklear.

BREKI Karlsson og Þorfinnur Ómarsson á standi Kvikmyndasjóðs Íslands í Cannes.

SETIÐ að spilum á ströndinni.

ÞAÐ SÆKIR þorsti að styttunum í Cannes.

LJÓSMYNDAGERIÐ er yfirþyrmandi fyrir margar stjörnurnar í Cannes, ekki að ástæðulausu.

Morgunblaðið/Pétur Blöndal

LOLO Ferrara státar af stærstu brjóstum í heimi, að eigin sögn.

JEFF Goldblum spilaði á píanóið á Hótel Majestic og tók lagið fyrir afmælisbarnið Snorra Þórisson.