Anne-Christine Eriksson, almannatengslafulltrúi fyrir svæðisskrifstofu Flóttamannahjálpar Sameinuðu þjóðanna (UNHCR) fyrir Norðurlönd og Eystrasaltsríkin var stödd hér á landi fyrir skömmu. Í samtali við Hrund Gunnsteinsdóttur sagði hún frá erindi sínu hér á landi, hlutverki annarra landa við lausn á flóttamannavandanum og stöðu mála í Kosovo.
Anne-Christine Eriksson, almannatengslafulltrúi fyrir svæðisskrifstofu

Flóttamannahjálpar Sameinuðu þjóðanna fyrir Norðurlönd og Eystrasaltsríkin

"Framlag Íslands til

flóttamannahjálparinnar

til fyrirmyndar"

"Flóttamannastraumurinn meiri og hraðari en við áttum von á"Anne-Christine Eriksson, almannatengslafulltrúi fyrir svæðisskrifstofu Flóttamannahjálpar Sameinuðu þjóðanna (UNHCR) fyrir Norðurlönd og Eystrasaltsríkin var stödd hér á landi fyrir skömmu. Í samtali við Hrund Gunnsteinsdóttur sagði hún frá erindi sínu hér á landi, hlutverki annarra landa við lausn á flóttamannavandanum og stöðu mála í Kosovo.

STRAUMUR flóttafólks frá Kosovo-héraði í Serbíu hefur verið meiri en flestir höfðu gert sér í hugarlund áður en loftárásir Atlantshafsbandalagsins (NATO) hófust á Júgóslavíu, sambandsríki Serbíu og Svartfjallalands. Samkvæmt heimildum Flóttamannahjálpar Sameinuðu þjóðanna (UNHCR) hafa yfir 761.100 manns flúið til nágrannaríkja Serbíu frá því í mars sl.

Talið er að um 779.400 flóttamenn séu nú í nágrannalöndum Serbíu. Þar af eru 65.000 flóttamenn í Svartfjallalandi, 252.300 í Makedóníu, 440.600 í Albaníu og 21.500 í Bosníu-Herzegovínu. Um 65.700 flóttamenn hafa verið fluttur til "þriðju landa" þ.e. annarra landa en þeirra sem eiga landamæri að Serbíu.

Ísland fellur í hóp þriðju landanna og hingað kom fyrir skömmu Anne-Christine Eriksson, almannatengslafulltrúi svæðisskrifstofu UNHCR fyrir Norðurlönd og Eystrasaltsríkin, á leið sinni til flóttamannabúðanna í Makedóníu.

Á Íslandi hitti Anne-Christine meðal annarra að máli fulltrúa Amnesty International, Mannréttindaskrifstofu Íslands, Barnahjálpar og félagsmálaráðuneytisins, en þó var erindi hennar aðallega að ræða við fulltrúa Rauða Kross Íslands.

Á fundi með fulltrúum Rauða Kross Íslands var almennt rætt um það flóttamannastarf sem farið hefur fram á Íslandi, hvernig flóttafólkið hefur komið sér fyrir og hvort einhver vandamál hafi komið upp. Einnig voru ræddar hugmyndir um hugsanleg kynningarátök til að auka meðvitund Íslendinga um flóttamannavandann, að sögn Anne-Christine.

Hún sagði UNHCR sérstaklega ánægða með viðbrögð íslenskra stjórnvalda.

"Viðbrögð íslenskra stjórnvalda við flóttamannaástandinu hafa verið til fyrirmyndar. Ísland var eitt af fyrstu löndunum sem buðu sig fram til að taka ákveðinn fjölda flóttamanna og hundrað flóttamenn er mikill fjöldi fyrir land eins og Ísland.

Ísland var ekki aðeins eitt af fyrstu löndunum til að taka við flóttafólki, heldur einnig eitt af fyrstu löndunum til að flytja flóttafólk frá nágrannaríkjum Serbíu með flugi," sagði Anne-Christine.

Nú hefur flóttamannastraumurinn verið mun meiri en menn höfðu gert ráð fyrir áður en loftárásir NATO hófust.

"Já, fjöldi flóttafólks hefur verið gífurlegur. Bæði hraði og stærð flóttamannastraumsins kom okkur í opna skjöldu. Sá fjöldi flóttafólks sem við vorum búin að búa okkur undir að taka á móti áður en loftárásirnar hófust var einungis 100.000 manns til Makedóníu, Albaníu og Svartfjallalands, landanna sem liggja að Kosovo," sagði Anne- Christine.

UNHCR hefur síðan þá undirbúið sig fyrir æ fleira flóttafólk frá Kosovo, en fyrir u.þ.b. þremur vikum var markið sett við 950.000 manns.

Ákveðið mynstur í frásögn flóttamanna

En hvernig hefur ástand flóttamanna verið í Kosovo-héraði sjálfu sl. vikur?

"Við fáum töluverðar upplýsingar um ástandið í héraðinu frá flóttafólki sem kemur þaðan. Það segir okkur og starfsmönnum annarra samtaka frá því sem það hefur upplifað og séð. Í frásögn þess er að finna ákveðið mynstur þar sem það hefur verið hrakið frá heimilum sínum og fjölskyldum margra sundrað. Oft eru karlar aðskildir frá konum og settir í rútur eða lestir og keyrðir á brott.

Við fáum vitnisburði um barsmíðar, stundum morð og nauðganir en við höfum engan beinan tengilið í Kosovo þannig að við getum ekki fyllilega staðfest þessar frásagnir."

Nú hafa fregnir borist af slæmu ástandi í flóttamannabúðum og ekki síst í Makedóníu. Einnig hafa yfirvöld þar í landi verið treg til að taka við fleiri flóttamönnum vegna slæms efnahagslegs ástands og viðkvæmrar þjóðernisblöndu í landinu. Því hefur flóttafólki oftar en einu sinni verið meinaður aðgangur inn í landið.

"Já, það má segja að yfirvöld í Makedóníu hafi verið treg til að taka á móti flóttafólki. Þar eru flóttamannabúðirnar löngu orðnar yfirfullar og er sama vandamálið uppá teningnum í Albaníu. Ástandið í Albaníu er þó örlítið frábrugðnara því þarlend yfirvöld leggja mikið af mörkum við að sinna flóttafólkinu.

En það er ekki einungis í höndum yfirvalda að veita land undir flóttamannabúðir því löndin sem notuð eru, eru oft á tíðum í einkaeign. Einstaklingar vilja ekki alltaf gefa land sitt undir flóttamannabúðir vegna þess að allar líkur eru á að það eyðileggist.

Hins vegar má segja að yfirvöld í Makedóníu séu sérlega hæg á sér að finna land undir búðirnar. Í raun hófust flutningar á flóttafólki til þriðju landa er Makedóníumenn lokuðu landamærunum því flóttamannastraumurinn varð þeim ofviða af fyrrnefndum ástæðum.

Til þess svo að geta haldið landamærunum opnum fyrir fólki sem þarf að komast í örugga höfn, leituðum við til annarra ríkisstjórna um hæli fyrir flóttafólkið.

Flutningur flóttafólks til þriðju landa hefur hins vegar ekki numið þeim fjölda sem kemur til nágrannaríkja Kosovo á degi hverjum og hefur það valdið okkur töluverðum vandræðum. Til að stemma stigu við þessu vandamáli höfum við hvatt yfirvöld í öðrum löndum til að taka við enn fleira flóttafólki."

Anne-Christine segir það hafa verið stefnu UNHCR í upphafi að halda flóttafólkinu í nágrannaríkjum Kosovo, enda gerði stofnunin ekki ráð fyrir svo mörgu flóttafólki eins og nú er orðið.

"Hins vegar varð straumur flóttafólks það mikill eins og raun ber vitni, að við þurftum að biðja fleiri Evrópulönd um að taka á móti flóttafólki, en loks var svo komið að við neyddumst til að biðja lönd eins og Bandaríkin, Kanada, Átralíu og Nýja-Sjáland, sem eru ennþá lengra í burtu frá Kosovo, um að taka við flóttafólki.

Flutningur til þessara landa hefur verulega aukist sl. vikur en enn vantar töluvert upp á að hann fullnægi raunverulegri þörf."

Standa ríki almennt undir kröfum sem gerðar eru til þeirra hvað varðar flóttamannavandann?

"Almennt séð já. Ég hef stundum verið spurð að því hvort sá fjöldi sem ríki bjóðast til að taka við af flóttafólki sé nægilegur. En um það snýst málið raunverulega ekki. Málið snýst um það hvort vilji sé til staðar til að taka á móti flóttafólki meðal ríkja, því allir eiga rétt á að leita hælis."

Réttur þessi er tryggður í grein 14 í Mannréttindayfirlýsingu SÞ sem kveður á um að: "Rétt skal mönnum vera að leita og njóta griðlands erlendis gegn ofsóknum." Hvernig er þessum rétti framfylgt í Kosovo-deilunni í dag að þínu mati?

"Alþjóðasamfélagið hefur sýnt gífurlega sterk viðbrögð við flóttamanna ástandinu. Viðbrögðin hafa til að mynda sýnt sig í flutningi fólks frá nágrannalöndum Serbíu og í því að ríki hafa boðið flóttafólki hæli eða tímabundna vist. Í mínum huga er þetta til marks um að fjórtánda greinin lifir góðu lífi. Hins vegar er ljóst að ríkisstjórnir túlka rétt flóttamanna skv. alþjóðalögum misjafnlega strangt."

Hvað geturðu sagt mér um ástand barna sem flóttafólks frá Kosovo í dag?

"Því má ekki gleyma að þau börn sem upplifað hafa Kosovo-átökin hafa orðið fyrir gífurlegum áföllum. Mörg þeirra hafa horft upp á er foreldrar þeirra eða nánir ættingjar eru drepnir og því þurfa þau á miklum stuðningi að halda.

Nú þegar eru samtök og hópar sem starfa með börnum í flóttamannabúðunum, bæði við ráðgjöf og við að koma allskyns félagsstarfi í kring sem vex með degi hverjum. Þó virðist meiri áhersla hafa verið lögð á þarfir barna og því hafa unglingar oft gleymst. Nú er hins vegar verið að taka á því, með því að finna samtök og hópa sem tilbúnir eru til að starfa með þeim.

Hjálparstarf og uppbyggingarstarf beinist að sjálfsögðu ekki einungis að börnum og unglingum, en í flóttamannabúðum í Albaníu og Makedóníu starfa nú um 80-100 óháð félagasamtök. Ástandið breytist daglega og því þurfa ný ráð að koma til á degi hverjum til að takast á við flóttamannavandann."

Í ljósi Kosovo-átakanna og stöðu flóttamanna, hvað er þér efst í huga í dag?

"Í dag er mér efst í huga að finna skjól fyrir allt þetta fólk, hvað orðið hefur um fólk sem horfið hefur frá landamærunum yfir nótt og hvernig því fólki sem enn er í Kosovo vegnar.

Fólk hefur verið innlyksa á milli landamæranna þar sem kallast á "einskis manns landi" í marga daga án þess að við vitum um líðan þess. Við landamærin að Kosovo hefur mörgum jarðsprengjum verið komið fyrir sem veldur okkur einnig miklum áhyggjum. Fyrir nokkrum vikum létust nokkrir flóttamenn sem voru á ferð í skóginum við landamærin er þeir ferðuðust um jarðprengjusvæði.

Ég sé fyrir mér öll andlitin. Hversu mikilvægt það er að flutningur flóttafólks frá nágrannaríkjum Serbíu gangi sem greiðast fyrir sig og að reynt verði eftir fremsta megni að leyfa fjölskyldum að vera saman. Allt þetta reikar um huga minn.

Enn á sama tíma veitir það mér styrk að vita til þess að það eru mörg samtök að vinna með flóttafólkinu og margar ríkisstjórnir og almenningur sem leggur sitt af mörkum við að aðstoða flóttamennina."

Brýnast að pólitísk lausn finnist

Anne-Christine segist sérstaklega hrifin af því starfi sem unnið hefur verið á Íslandi af hálfu yfirvalda, fyrirtækja, samtaka og einstaklinga.

"Að mínu mati hefur Ísland mikla og góða reynslu af því að taka á móti flóttafólki og ég vil leggja áherslu á það hversu þakklátt UNHCR er fyrir framlag Íslands. Í viðræðum okkar við aðrar ríkisstjórnir nefnum við oft framlag Íslands er við ræðum flóttamannahjálp, kerfi ykkar er mjög til fyrirmyndar og má þá nefna það fyrirkomulag að hafa fósturforeldra sem dæmi."

Anne-Christine sagði brýnast í dag að pólitísk lausn verði fundinn á Kosovo-deilunni "eins og UNHCR hefur ítrekað lagt áherslu á frá sl. sumri," að hennar sögn.

Hvað varðar umfjöllun um að pólitískar leiðir hafi verið reyndar til hins ýtrasta áður en loftárásirnar hófust sagði Anne-Christine fólk vissulega geta verið viturt eftir á.

"EN eigi UNHCR hins vegar að tryggja flóttafólkinu örugga heimkomu og að réttindi allra íbúa Kosovo, óháð þjóðerni, verði virt, verður að finna pólitíska lausn á endanum því hernaðaríhlutunin ein og sér kemur því ekki til leiðar.

Í þessu felst að mikið uppbyggingarstarf er framundan bæði í þágu mannúðar- og hagkvæmnissjónarmiða."

Morgunblaðið/Jón

ANNE-CHRISTINE Eriksson, almannatengslafulltrúi fyrir svæðisskrifstofu Flóttamannahjálpar Sameinuðu þjóðanna fyrir Norðurlönd og Eystrasaltsríkin segir brýnt að mál flóttamanna séu betur kynnt fyrir almenningi. Reuters

FLÓTTAMANNASTRAUMURINN frá Kosovo hefur verið meiri og hraðari en menn höfðu gert ráð fyrir áður en loftárásir Atlantshafsbandlagsins á Júgóslavíu hófust. Yfirfullar flóttamannabúðir valda því að sumir hafa þurft að sofa og hafast við undir beru lofti.

Alþjóðasamfélagði hefur brugðist vel við

UNHCR tekur Ísland gjarnan til fyrirmyndar