KARLAKÓRINN Söngbræður í Borgarfirði ásamt Sigrúnu Hjálmtýsdóttur sópransöngkonu hélt tónleika í Reykholtskirkju á dögunum. Tónleikarnir voru vel sóttir því á fjórða hundrað gesta komu í Reykholtskirkju og nutu þess sem flutt var. Dagskráin var fjölbreytt; kórinn hóf tónleikana með að syngja fjögur lög og tók þá Diddú við með fimm lög.
Vel sóttir tónleikar í Reykholtskirkju

Grund. Morgunblaðið.

KARLAKÓRINN Söngbræður í Borgarfirði ásamt Sigrúnu Hjálmtýsdóttur sópransöngkonu hélt tónleika í Reykholtskirkju á dögunum. Tónleikarnir voru vel sóttir því á fjórða hundrað gesta komu í Reykholtskirkju og nutu þess sem flutt var.

Dagskráin var fjölbreytt; kórinn hóf tónleikana með að syngja fjögur lög og tók þá Diddú við með fimm lög. Þá sungu þau saman Sigrún Hjálmtýsdóttir og Snorri Hjálmarsson dúetta úr Kátu ekkjunni og Zardas-furstynjunni.

Spaðafjarkinn, sem er kvartett með félögum úr Söngbræðrum, þeim Halldóri Sigurðssyni, Snorra Kristleifssyni, Jóni Kristleifssyni og Guðmundi Péturssyni sungu tvö lög saman. Því næst Karlakórinn fimm lög og síðan Diddú þrjú og að lokum sungu kórinn og Diddú saman tvö lög, La vergene degli Angeli eftir Guiseppe Verdi og Íslandslag eftir Björgvin Guðmundsson.

Félagar í Karlakórnum eru fjörutíu og þrír. Stjórnandi hans er Jerzy Tosek Warszawlak. Undirleikari er Zsuzanna Budai. Undirleikari hjá Spaðakvartettinum var Svavar Sigurðsson, en kynnir kvöldsins var sr. Brynjólfur Gíslason.

Tónleikagestir þökkuðu fyrir góða kvöldskemmtun með langvarandi lófaklappi.

Morgunblaðið/Davíð