FYRIR ALLLÖNGU, á hljómsveitamælikvarða, sendi hljómsveit sem hét Victory Rose frá sér lag á safnplötu. Lagið, Fljúgðu, sem mörgum þótti hálfgerð lagleysa, var mótuð bjögun, torskilin samsuða af bjögun og suði.
VERK:: SAFN'SDGREIN DAGS.:: 990530 \: SLÖGG:: Lærðir fegurðarsmiði STOFNANDI:: TDGA \: \: LÆRÐIR fegurðarsmiðir Tónlistaráhugamenn víða um land bíða með óþreyju þriðju plötu hljómsveitarinnar Sigur Rósar, sem væntanleg er 12. júní næstkomandi. Árni Matthíasson ræddi við liðsmenn hljómsveitarinnar sem sögðust leggja áherslu á að tónlist þeirra væri tímalaus. FYRIR ALLLÖNGU, á hljómsveitamælikvarða, sendi hljómsveit sem hét Victory Rose frá sér lag á safnplötu. Lagið, Fljúgðu, sem mörgum þótti hálfgerð lagleysa, var mótuð bjögun, torskilin samsuða af bjögun og suði. Ekki heyrðist meira frá Victory Rose, en þess meira tók að heyrast um hljómsveitina Sigur Rós Sú var skipuð síðhærðum skeggjuðum piltum sem fluttu hægfara rokktónlist og seiðandi, notuðu fiðluboga á gítarinn til að seiða fram óvenjulega hljóma sem hnigu og risu. Síðan er langt um liðið, Sigur Rósar piltar búnir að klippa sig, senda frá sér breiðskífur, eina með frumsömdu efni, Von, og aðra með endurgerðum lögum af Von, Von brigði. 12. júní næstkomandi kemur úr önnur breiðskifa sveitarinnar, Ágætis byrjun, og sjaldan verið önnur eins eftirvænting fyrir nokkurri plötu og einmitt þeirri. Sigur Rós skipa sem stendur þeir Jón Þór Birgisson, Georg Hólm og Kjartan Sveinsson, en annar stofnenda sveitarinnar, Ágúst Sævar Gunnarsson, er hættur þó hann leiki enn með þeim félögum á tónleikum og verður svo þar til staðgengill finnst. Þeir Jón Þór og Ágúst teljast upphafsmenn sveitarinnar og það voru þeir sem fengu hugmyndina að því að fara í hljóðver sem Victory Rose að taka upp lag fyrir þá Smekkleysumenn. Það var árið 1994. Þegar kom að upptökunum slóst Georg í hópinn. Síðar bættist þeim liðsauki í Kjartani sem varð þó ekki eiginlegur meðlimur í sveitinni fyrr en fyrir skemmstu, en hann hefur leikið með henni á tónleikum alllengi. Ekki voru þeir félagar nema sex tíma að taka upp fyrsta lagið, sem ber í sér bergmál af því sem síðar átti eftir að verða. Þeir félagar segja að þó þeir hafi þannig verið búnir að finna hvaða leið það var sem þeir vildu fara hafi þeir farið inn í skúr og byrjað að æfa allt aðra gerð af tónlist. "Það er svo sérkennilegt," segir Georg, "að þetta lag var einmitt það sem okkur langaði mest til að gera en þegar við síðan fórum að æfa í bílskúrnum æfðum við allt aðra gerð af tónlist, Smashing Pumpkins-rokk. Það var ekki fyrr en eftir nokkurn tíma að við fórum aftur í átt að því sem við höfðum byrjað á að gera að við áttuðum okkur aftur á því hvað það var sem við vildum í tónlist." Ekki liggur eftir Victory Rose nema þetta eina lag á plasti, sem tekið var upp á sex tímum, og sveitin lifði eiginlega ekki lengi eftir að það var komið út; þeir félagar segja að þeim hafi þótt hallærislegt að vera íslensk hljómsveit að syngja á íslensku, en heita upp á ensku. Victory Rose varð því að Sigur Rós. Ekki spillti að nafnið er miklu skemmtilegra á íslensku en ensku. Þeir félagar koma hver úr sinni áttinni, Jón Þór ólst upp í Mosfellsbæ og Kjartan bjó þar einnig um tíma, en Georg og Ágúst eru úr Reykjavík. Tónlistarlega komu þeir einnig hver úr sinni áttinni, hlustuðu á allskonar tónlist, þungarokk, framúrstefnu, nýaldartónlist, trúbadúrapopp, nýrokk; ekki á það sama en sameinuðust í Sigur Rós. Fyrsta breiðskífan, Von, kom út haustið 1997 og á síðasta ári kom út endurgerð hennar, Von brigði, þar sem ýmsir tónlistarmenn fór höndum um hugverk þeirra Sigur Rósar manna og endurgerðu að vild. Jón Þór segir að það hafi verið afskaplega gaman að fá lögin til baka endurunnin af öðrum. Það var gaman að sjá hvað öðrum fannst, hvað aðrir sáu í lögunum, en okkur fannst ekki síst gaman að endurvinna lög og langar til að gera meira af því, leita að kjarnanum í einhverju og draga hann fram." Sér á báti Sigur Rós hefur ævinlega verið sér á báti í tónsköpun sinni og einnig látið minna fara fyrir sér en gengur og gerist með rokksveitir. Það kallar á að menn geti í eyðurnar og sögurnar af sveitinni eru óteljandi og sumar all svæsnar. Þeir félagar láta í ljós undrun yfir því hvernig sögur fari af stað, enda sé varla til prúðari og rólegri hljómsveit. Meðal annars fór það orð af sveitinni að henni væri ókleift að ljúka við nokkurt verkefni og bent á það til sannindamerkis að upptökur á fyrstu breiðskífu hennar tóku þrjú ár. Þeir félagar hlæja mikið þegar þeir rifja upp sögur um að þeir hafi setið í hljóðverinu sólarhringum saman, reykt hass og tekið upp, samfleytt í þrjú ár. "Víst tók það okkur þrjú ár að taka plötuna upp, en það var bara vegna þess að við höfðum ekki efni á að kaupa okkur samfelldan tíma í hljóðveri; keyptum okkur smáskammta þegar færi gafst," segja þeir félagar. "Það byrjaði allt með því að við hittum þann sem átti hljóðverið Hvarf í Mosfellsbæ og fórum að spjalla við hann. Hann bauð okkur að mála húsið sitt fyrir stúdíótíma og þannig byrjuðum við að vinna. Eftir það áttum við ekki pening í langan tíma og gátum því ekki haldið áfram og svo fór Georg út í kvikmyndaskóla og við vorum mikið til í pásu á meðan." Þeir félagar segja að platan hafi breyst mjög mikið á þessum tíma sem vonlegt er, en þeir voru líka að breyta henni fram á síðustu stundu og til að mynda voru umfangsmiklar breytingar gerðar á henni þegar frumeintakið var gert. "Við vorum búnir að ganga frá lögunum en breyttum henni mikið í samsetningunni, bættum við allskyns hljóðum og breyttum stemmningunni ... það er ekkert heilagt," segir Jón Þór og Georg heldur áfram: "Það hefði kannski verið skynsamlegt að byrja upp á nýtt eftir svo sem tvö ár, en það var samt gott að klára þetta, að losa sig við lögin og byrja alveg upp á nýtt. Okkur finnst erfitt að gera sama hlutinn tvisvar og þannig eigum við oft erfitt með að æfa fyrir tónleika, eyðum æfingunum í að semja ný lög í stað þess að æfa þau gömlu, og spilum því yfirleitt meira af nýjum lögum á tónleikum en gömlum." "Það væri miklu skemmtilegra að spila bara ný lög í Óperunni," segir Jón Þór hugsi. "Við erum alltaf einu stigi á undan ... þegar við vorum að kynna Von vorum við aðalega að spila lög af þessari plötu og það verður eins þegar við förum að kynna Ágætis byrjun."

Eilítið meiri tíma Þeir félagar tóku sér skemmri tíma í að taka upp Ágætis byrjun, en lögin eiga sér sum langan aðdraganda, upp undir tveggja ára gamlar hugmyndir. Þeir hófu upptökur um síðustu verslunarmannahelgi og hugðust gefa plötuna út fyrir jól, byrjuðu af krafti og luku við alla grunna á skömmum tíma, en sáu fljótt að þeim myndi ekki auðnast að ljúka við plötuna á tilsettum tíma. "Við vitum hvenær lögin eru tilbúin, finnum það," segir Jón Þór, "og þau voru ekki tilbúin." Kjartan tekur í sama streng og segir að þó vinnan sé nú loks búin og platan í framleiðslu ytra hefðu þeir í sjálfu sér gjarnan viljað hafa eilítið meiri tíma, því það sé erfitt að sleppa hendi af lögunum. Eitt af því sem tafði vinnuna var að platan var tekin upp í tveimur hljóðverum, annars vegar í hljóðveri sem Jón Þór og Kjartan eiga með öðrum, en síðan var tekið upp og hljóðblandað í Sýrlandi í erfiðum næturlotum. "Vitanlega væri best að geta tekið plötuna upp og unnið í sama hljóðverinu, það er ekki hægt hér," segir hann og bandar með hendinni, "en við hefðum ekki orðið almennilega sáttir."

Lög Sigur Rósar vaxa eins og af sjálfu sér á tónleikum, byrja gjarnan með stefi sem magnast í háreista hljómaborg. Þeir félagar segja að eins sé með tilurð laganna í æfingahúsnæðinu, einhver spilar stef, finnur stemmningu og síðan mótast lagið smám saman með innleggi frá hverjum og einum. "Georg kemur með einhverja eitraða bassalínu," segir Jón Þór og Kjartan heldur áfram: "Og svo kemur Jón Þór með fiðlubogann, ég legg mitt til og loks syngur Jón Þór laglínu. Við erum svo samstiga að við vitum alltaf nákvæmlega hvað passar saman og hvað gengur upp." "Lögin breytast líka hjá okkur eftir að búið er að taka þau upp og gefa út, við erum alltaf að móta þau," segir Georg. Kjartan samsinnir þessu og segir að mörg laganna á Ágætis byrjun eigi eftir að taka stakkaskiptum á tónleikum og jafnvel aldrei hljóma eins. Þóttu hippalegir Þeir Sigur Rósarfélagar voru framan af síðhærðir og síðskeggjaðir og þóttu hippalegir. Tónlistin hefur og verið kölluð hippatónlist, hægfara spuni og seigfljótandi laglínur. Þeir félagar hlæja að þeirri samlíkingu, en segja svo af meiri alvöru: "Við lásum það í dönsku tónlistartímariti að við værum ægilegir hasshausar og heróínfíklar. Það er kannski hægt að hlæja að þessu en það er frekar leiðinlegt að lesa svona bull um sjálfan sig í útlöndum," segir Georg og Kjartan heldur áfram: "Við vorum að spila í framhaldsskóla úti á landi fyrir stuttu og fórum meðal annars í útvarpsviðtal þar sem við vorum bara eins og við eigum að okkur að vera. Eftir viðtalið sá skólastjórinn ástæðu til að koma til Jóns Þórs og vara hann við því að vera ekki að neinum hassreykingum í skólanum. Vitanlega er þetta afkáralegt, en það verður víst ekki komist undan kjaftasögunum." Meðal sérkenna sveitarinnar og eitt það fyrsta sem menn taka eftir er að Jón Þór leikur á gítarinn með boga, en í upphafi var enginn bogi, bara hefðbundið gítarspil. Smám saman náði boginn þó yfirhöndinni og hefur öll völd í dag. Á plötunni nýju eru þeir þó að mála með breiðara litaspjaldi og Jón Þór segist telja að verklagið við gítarinn eigi eftir að þróast enn um sinn; það sé engin stefna að nota eitt umfram annað, bara það sem hljómar rétt. Sigur Rós vekur meðal annars athygli fyrir að nota hefðbundin hljóðfæri til að flytja tónlist sem oft er kennd við tölvur, svonefnda umhverfishljóma, ambient-tóna. Jón Þór segir gaman að vissu marki að nota rafhljóðfæri, "það er persónulegra og gerir tónlistina tímalausari að skapa eitthvað nýtt með gömlum hljóðfærum. Við notum vitanlega líka tölvur við að vinna tónlistina, setja plötuna saman og skjóta inn hljóðum og svo notuðum við þær líka í lagi af Von sem við endurunnum." Á plötunni brydda þeir félagar upp á ýmsu fyrir stemmninguna, kór, strengjum og blásarasveit, sem þeir segja að hafi verið mjög skemmtilegt. Þeir útsettu sjálfir strengina, notuðu til þess tölvuforrit og prentuðu út nóturnar sem þeir sögðu lærdómsríkt, "það hljómaði allt öðruvísi en við héldum," segir Jón Þór og flissar. Blásararnir fengu aftur á móti frjálsar hendur, þeir voru beðnir um ákveðna stemmningu og svo blésu þeir að vild. Ekki verður gott að endurskapa allt sem á plötunni er á tónleikum, sem þeir virðast reyndar taka létt, en þeir hyggjast þó hafa strengi og blásara á útgáfutónleikunum í Óperunni, helst þó með þá högun á að þeir spili eftir eyranu eða stemmningunni, en ekki eftir nótum. Heillar flesta Sigur Rós heillar flesta sem í hljómsveitinni heyra, ekki síst á tónleikum, og virðist skipta einu hvort menn eru dansboltar eða hreinræktaðir rokkarar. Þeir segjast og verða varir við það að fólki finnist það heyra mjög mismunandi hluti út úr tónlistinni; sumir heyri gamalkunna hljóma, aðrir framúrstefnulega ambient-tónlist og enn aðrir framúrstefnurokk eða nýbylgju. "Fyrir vikið getum við hitað upp fyrir hvaða hljómsveit sem er," segja þeir félagar og bæta við að þeim finnist gaman að leika á tónleikum, ekki síður en að vera í skúrnum að semja. "Það fer auðvitað eftir stemmningunni, en vissulega þreytast menn á því að vera sífellt að spila á stöðum þar sem kerfið er ekki í lagi og enginn tími er fyrir undirbúning og aðstaðan slæm, eins og allar hljómsveitir þurfa að ganga í gegnum þegar þær eru að byrja. Það var til að mynda gaman að spila á flugskýlistónleikum Gus Gus um daginn fyrir það hversu hljómurinn var magnaður," segir Jón Þór en Kjartan er ekki á sama máli, segist lítið muna eftir þeim tónleikum, hann hafi spilað eins og vélmenni. "Það er mest gaman að spila á litlum stað með góða stemmningu, að ná til allra í salnum." Sigur Rós hefur helst verið rædd manna á millum, lítið verið í fjölmiðlum og þeir félagar hafa að auki verið tregir til að halda tónleika. "Við kunnum því betur að aðrir leiti til okkar en að við séum sífellt að hampa okkur og leita eftir samneyti við fjölmiðlafólk. Það verður ekki hjá því komist að fara í viðtöl og mæta í myndatökur þegar maður er að kynna eitthvað nýtt, en það er best að hafa það í hófi. Við höfum líka verið latir við að spila á tónleikum en gefum þeim meira af okkur þegar þar að kemur, það er betra að láta langt líða á milli tónleikanna." Eins og getið er í upphafi kemur Ágætis byrjun út 12. júní næstkomandi og þann dag verða haldnir tónleikar í Íslensku óperunni. Þeir félagar eru þegar teknir að undirbúa þá tónleika, tryggja að sviðsumbúnaður verði réttur, lýsing góð og kerfi, enda verður mikið lagt í þá tónleika. Þá hyggjast þeir helst leika lög af plötunni, enda útgáfutónleikar, en það fljóti nokkur ný lög með. Síðustu útgáfutónleikar sveitarinnar voru haldnir á óvenjulegum stað, í kapellu Valsmanna á Hlíðarenda, sem þeir segja hafa verið mikla upplifun, þó ekki hafi hljómur í kapellunni verið góður. "Það var svo góður andi þar inni," segir Jón Þór, "að hljómurinn skipti ekki meginmáli." Georg tekur í sama streng: "Það skiptir svo miklu máli hvernig maður er sjálfur stemmdur og ef við náum vel saman getum við yfirstigið hljóminn." Lærðir fegurðarsmiðir Þegar spilað er með boga á gítar er verið að glíma við ólgandi óreiðu, móta hana og skapa úr henni fegurð. Jón Þór segir að þeir séu að temja dýrið og bætir við eftir stutta umhugsun að þeir félagar pæli mikið í hljómum og hljóðum. "Það er kannski ekki rétt að segja að við liggjum yfir hljóðum, en við erum fljótir að meta hvort þau séu "réttu" hljóðin eða ekki og þá samtaka, kannski ómeðvitað." Von var nánast samfelld plata, hvert lag tengist næsta lagi á eftir með hljóðbrú og eins verður með Ágætis byrjun, þó platan hefur breyst verulega á lokastigum og þeir félagar segja að þeir vilji helst vera að breyta og fínpússa fram á síðustu stundu, "á meðan við komumst með puttana í hana," eins og Kjartan orðar það. Í fyrstu samsetningu plötunnar var mikið um aukahljóð og fléttur á milli laga, en í lokagerðinni var mun minna um slíkt, enda segjast þeir hafa áttað sig á því að þeir voru að gera of mikið, meðal annars fyrir ábendingu frá útgefanda plötunnar. Ekki er bara að platan verði að vera sem næst fullkomnun að niðurröðun og samsetningu, umslagið skipti lítið minna máli að þeirra mati. Líkt og þeir hanna hljóma- og hljóðaheiminn á plötunni hanna þeir umslagið, sem er víst óvenju flókið í vinnslu. "Umbúðirnar mega ekki verða síðri en innihaldið, það verður að vera samhljómur," segja þeir. Þeir eru þó ekki lærðir grafíklistamenn, Georg reyndar lærður í kvikmyndagerð, en Ágúst, sem er hættur í sveitinni eins og fram hefur komið, er sleipur í myndvinnslu í tölvu og umslagið var mikið unnið hjá honum. Þeir leggja heldur ekki mikla áherslu á nám, eru lítt lærðir í tónlist, utan Kjartan, en eins og Jón Þór orðar það svo smekklega: "Við erum lærðir fegurðarsmiðir." Ljósmynd/Björg Sveinsdóttir Morgunblaðið/Kristinn