Í hugvekju dagsins veltir Stefán Friðbjarnarson fyrir sér, hvort tengsl séu á milli kristinna viðhorfa og velferðar á Norðurlöndum.
HUGVEKJA Velferð á Norðurlöndum Í hugvekju dagsins veltir Stefán Friðbjarnarson fyrir sér, hvort tengsl séu á milli kristinna viðhorfa og velferðar á Norðurlöndum. Í SUNNUDAGSHUGVEKJU hér í blaðinu 22. marz sl. er fjallað um skipan kirkjumála hér á landi og annars staðar í hinum kristna heimi. Þar segir m.a. að kirkjur Norðurlanda eigi það sameiginlegt að vera í senn þjóðkirkjur og ríkiskirkjur. Þjóðkirkjur í þeirri merkingu orðsins að þær eru "breiðar kirkjur og opnar", sem axla skyldur við landsmenn alla, bæði sem heild og einstaklinga. Ríkiskirkjur að því leyti að náin tengsl eru milli ríkis og kirkju. Að baki þessari kirkjuskipan býr ákveðin hugsun um kristið þjóðríki, þar sem kirkjunni er falið að standa vörð um ýmis grundvallaratriði þjóðfélagsins. Norrænar þjóðir eiga fleira sameiginlegt en þá skipan kirkjumála er að framan greinir. Sögulegt bakland þeirra, menning þeirra og þjóðfélagsgerð eru af sömu rót. Og þótt Norðurlöndin eigi enn brekku eftir að því marki að tryggja öllum þegnum sínum ­ undantekningarlaust ­ þau kjör, sem nútíma kröfur standa til, eru þau samt sem áður í fylkingarbrjósti í framsókn þjóðanna til hagsældar og velferðar. Önnur ríki líta mörg hver til Norðurlanda sem fyrirmyndar í stefnumörkun að "velferðarríki". Í greininni Samfélagsáhrif siðbótarinnar (bókin Saga og kirkja ­ afmælisrit Magnúsar Más Lárussonar fyrrverandi háskólarektors ­ 1988) varpar séra Heimir Steinsson fram athyglisverðri spurningu: "Er það tilviljun, að velferðarríki 20. aldar hafa risið hæst í þeim löndum, sem um aldir bjuggu við evangelisk-lútherska kristni og búa enn, að svo miklu leyti sem þjóðarátrúnaður er virkur í þessum hluta heims um vora daga?" Í framhaldi af þessari spurningu segir séra Heimir: "Velferðarríki" er ekki einungis stjórnmálalegt fyrirbæri í þrengstu merkingu þess orðs. Það byggist vissulega á tiltekinni skipan efnahagsmála, en það snýst um fleira en efnahagsmál. Það tengist tvímælalaust þeirri kristnu mannúðarstefnu, sem verið hefur undirtónn þessa greinarkorns og helzt að sínu leyti í hendur við tilteknar grundvallarhugmyndir lúthersku siðbótarinnar." Þessi orð prestsins eru meira en íhugunarverð. Reynslan, sem er ólygnust, sýnir að vísu ótvírætt fram á þá staðreynd, að ávöxtur hag- og þjóðfélagskerfa er mismikil, mældur í verðmætasköpun á hvern þjóðfélagsþegn. Þau eru m.ö.o. misvel í stakk búin til að rísa kostnaðarlega undir almannatryggingum, félagslegri þjónustu, heilbrigðiskerfi, skólum og öðru því sem velferðarríki heyrir til. En það þarf fleira til en verðmætasköpunina eina. Það þarf að nýta hagsældina og hagvöxtinn með réttum hætti. Og þá komum við aftur að spurningu séra Heimis, hvort það sé tilviljun að þetta tvennt fari saman á Norðurlöndum, þjóðkirkjur siðbótar og forysta þeirra í velferðarmálum. Niðurlagsorðin í grein hans eru þessi: "Ef svarið við spurningunni verður á þá lund, að ekki sé um að ræða tilviljun, heldur sé unnt að finna bein eða óbein tengsl milli siðbótarinnar og áðurnefndra nútímahátta um Norðurlönd, leiðir af sjálfu sér, að samfélagsáhrif lúthersku siðbótarinnar hafa aldrei verið meiri á þessum slóðum en einmitt nú. Þá er einnig í nokkrum mæli vitað, hvað það er, sem vér skyldum kappkosta að varðveita og skila í hendur óbornum kynslóðum, ­ ef vér að öðru leyti erum eftir atvikum sátt við það samfélag, sem hér er til orðið." Því hefur áður verið haldið fram í pistlum þessum að allt það bezta í lýðræðissamfélögum Vesturlanda reki rætur til kristinsdóms. Orð séra Heimis, sem hér er vitnað til, renna rökum undur þá stæðhæfingu. Eftir þúsund ára farsæla samleið kirkju og þjóðar ætti okkar að vera ljóst "hvað það er, sem vér skyldum kappkosta að varðveita og skila í hendur óbornum kynslóðum". Ræktum tengslin við sóknarkirkjuna okkar!

Höfundur er fyrrverandi blaðamaður við Morgunblaðið. KALEIKUR úr Dómkirkjunni, smíðaður af Sigurði Þorsteinssyni.