Hafnarfjarðarleikhúsið Hermóður og Háðvör og leikfélagið Annað svið hafa hafið æfingar á Sölku Völku eftir Halldór Laxness í leikgerð og leikstjórn Hilmars Jónssonar. Frumsýning er fyrirhuguð í Hafnarfjarðarleikhúsinu í haust.

Salka Valka í Hafnarfirði

Hafnarfjarðarleikhúsið Hermóður og Háðvör og leikfélagið Annað svið hafa hafið æfingar á Sölku Völku eftir Halldór Laxness í leikgerð og leikstjórn Hilmars Jónssonar. Frumsýning er fyrirhuguð í Hafnarfjarðarleikhúsinu í haust.

"Salka Valka gerist í íslensku sjávarplássi og er um margt bundin stéttarátökum á framanverðri öldinni en það eru manneskjurnar og örlög þeirra sem gera söguna sígilda. Sagan speglar mannlífið og lífsbaráttuna tengda hafinu, segir frá Sölku Völku sem kemur fyrst með einstæðri móður sinni til Óseyrar við Axlarfjörð, fer að vinna fyrir sér í saltfiskverkun ung að árum kaupir svo bát og berst fyrir sjálfstæði sínu sem útgerðarmaður," segir í fréttatilkynningu frá aðstandendum sýningarinnar.

Í helstu hlutverkum verða leikararnir María Ellingsen, Benedikt Erlingsson, Gunnar Helgason, Magnea Björk Valdimarsdóttir, Þrúður Vilhjálmsdóttir og Jón St. Kristjánsson. Leikmynd gerir Finnur Arnar Arnarson, Margrét Örnólfsdóttir semur tónlist, Björn Bergsteinn Guðmundsson hannar lýsingu, Þórunn María Jónsdóttir gerir búninga og Ásta Hafþórsdóttir sér um förðun.

Morgunblaðið/Jón Svavarssson

Leikarar og listrænir stjórnendur Sölku Völku í Hafnarfjarðarleikhúsinu.