FRÉTT birtist hér í Morgunblaðinu 4. apríl í fyrra um frábærar viðtökur sem Sjálfstætt fólk, bók Halldórs Laxness, hafði fengið hjá lesendum í Bandaríkjunum sem sent höfðu Amazon-bóksölunni umsagnir á Netinu. "Tímalaust meistaraverk um okkur öll" var fyrirsögn fréttarinnar og vitnað í einn lesandann. Sex lesendur höfðu þá gefið bókinni einkunnina 9 af 10 mögulegum.
FRÉTT birtist hér í Morgunblaðinu 4. apríl í fyrra um frábærar viðtökur sem Sjálfstætt fólk, bók Halldórs Laxness, hafði fengið hjá lesendum í Bandaríkjunum sem sent höfðu Amazon-bóksölunni umsagnir á Netinu. "Tímalaust meistaraverk um okkur öll" var fyrirsögn fréttarinnar og vitnað í einn lesandann. Sex lesendur höfðu þá gefið bókinni einkunnina 9 af 10 mögulegum. "Einfaldlega besta bók sem ég hef lesið," sagði þá lesandi frá Idaho. Annar líkti Laxness við nóbelsverðlaunahafann Gabriel Garcia Marques, og sá þriðji við rithöfundinn James Joyce.

Það er Víkverja mikil ánægja að bæta hér ofurlítið við. Þeir sem sent hafa skoðanir sínar á bókinni síðan eru nefnilega flestir á einu máli um að hér sé um stórkostlegt verk að ræða ­ sem þarf vitaskuld ekki að segja Íslendingum, en þó er alltaf athyglisvert þegar útlendingar hrífast af því sem héðan kemur. Ekki satt?

TUTTUGU og þrír lesendur hafa nú tjáð sig um bókina hjá Amazon og meðaleinkunn sem þeir hafa gefið verkinu er fjórar og hálf stjarna af fimm mögulegum.

Nokkrir gefa bókinni hæstu einkunn, fimm stjörnur. Lesandi frá Edmonton í Kanada segir meðal annars: "Það er ánægjulegt að sjá hve margir hafa nýverið uppgötvað þessa dásamlegu bók ­ sem ég las fyrst fyrir rúmlega þrjátíu árum, eftir að hafa sótt Ísland heim, en hún varð mér innblástur að meistaraprófsritgerð minni (um sögu Íslands) og nokkrum ferðum til viðbótar til Íslands. Laxness tekst að fanga harðneskju íslenskrar náttúru og hvernig Íslendingar ná að laga sig að henni." Umræddur lesandi segir Sjálfstætt fólk eina af þeim bókum sem eru ómissandi, "sem ég vona að allir lesi," eins og hann orðar það.

ANNAR lesandi sem gefur Sjálfstæðu fólki fimm stjörnur í einkunn varar reyndar við einu; lesið ekki formálann fyrst! Bókin sé frábær, yndislega skrifuð og í henni sé að finna mörg dramatísk augnablik. Svo illa vilji hins vegar til að inngangurinn að ensku útgáfunni upplýsi lesandann um flest bestu augnablik bókarinnar. Til að njóta verksins, eins og það er frá höfundarins hendi, hvetur hann fólk því til að geyma innganginn þar til síðast ­ jafnvel væri best að sleppa honum.

Ekki eru þó allir sammála. "Leiðinleg," segir lesandi frá Kaliforníu, stutt og laggott og gefur bókinni tvær stjörnur. "Mér finnst leiðinlegt að hljóma óveraldarvanur, en ég skil ekki hvers vegna þessi bók færði höfundi sínum nóbelsverðlaunin. Þetta er skáldsaga um vonleysi og þriðjungur lengdarinnar hefði verið nóg. Mér fannst söguþráðurinn algjörlega óaðlaðandi." Svo mörg voru þau orð.

LESANDI í Illinois, sem gefur bókinni fimm stjörnur, segir bókina hafa haft mikil áhrif á sig og margt í fari og þankagangi Bjarts í Sumarhúsum minni á föður sinn. Sá var danskt einkabarn, bóndasonur frá Jótlandi, og móðirin lést í framhaldi fæðingarinnar. Aðstæður voru allar svipaðar og í Sjálfstæðu fólki; drengurinn ólst upp á svipuðum tíma og sagan gerist, húsið var með stráþaki og hluti þess var hlaða. Faðir lesandans fluttist til Bandaríkjanna 18 ára að aldri, þvert gegn vilja föður síns sem neitaði öllum samskiptum við drenginn í mörg ár vegna þess að hann yfirgaf föðurlandið. Fari einhver þá fer hann, eins og hjá Bjarti, segir Illinois-búinn.

Hann segir jafnframt, að allt þar til Bjartur hafi farið að haga sér óvenjulega undir lok bókarinnar, hafi hann alltaf séð fyrir næsta skref þessa íslenska bónda. "Bjarti fannst hann þurfa að vera algjörlega sjálfstæður, og var stundum óvæginn (og heimskur) til að ná því markmiði sínu og faðir minn hugsaði á svipuðum nótum; en báðir vildu þeir þó vel." Með lestri bókarinnar kveðst lesandinn frá Illinois hafa gert sér grein fyrir ástæðunum fyrir hugsunarhætti föður síns, í samfélagslegu samhengi, að minnsta kosti að hluta til.

Hann telur þýðingu J. A. Thompson mjög góða og lýkur pistli sínum á þessum orðum: "Það er mjög skemmtileg reynsla að lesa óbundið mál eftir skáld; hvort sem er Nelson Algren, Jorge Borges eða Halldór Laxness. Ég mæli með því."