Reuters Endurgerð meistaraverks da Vincis lokið EFTIR áralanga bið var hulunni loks svipt af endurgerð meistaraverks Ítalans Leonardos da Vincis, "Síðustu kvöldmáltíðinni", í kirkju heilagrar Maríu í Mílanó á fimmtudag en tuttugu ár eru liðin síðan hafist var handa við ýmsar lagfæringar á verkinu.
Reuters

Endurgerð meistaraverks da Vincis lokið

EFTIR áralanga bið var hulunni loks svipt af endurgerð meistaraverks Ítalans Leonardos da Vincis, "Síðustu kvöldmáltíðinni", í kirkju heilagrar Maríu í Mílanó á fimmtudag en tuttugu ár eru liðin síðan hafist var handa við ýmsar lagfæringar á verkinu. Da Vinci lauk við málverkið árið 1498 og það er því komið verulega til ára sinna. Hafði tímans tönn enda skilið umtalsverð verksummerki eftir á málverkinu og lá það undir skemmdum þegar sú ákvörðun var tekin að gera verkið upp á áttunda áratugnum.

Við endurgerðina reyndu sérfræðingar að skafa burt ýmis óhreinindi og fitu, sem og verksummerki eftir fyrri lagfæringar og breytingar á verkinu. Fréttaskýrendur sögðu hins vegar óhjákvæmilegt að deilt yrði um hvernig til hefði tekist og sögðu ýmsir gagnrýnendur að allt of langt hefði verið gengið við hreinsun verksins og að búið væri að skemma hluta verksins. Ýmsar breytingar á lit málverksins hafa átt sér stað og horfið er rauðleitt skegg frelsarans auk þess sem einn lærisveina hans er nú ljóshærður eftir að hafa verið brúnhærður um margra alda skeið.

Á hinn bóginn benda sumir listfræðingar á að um langt skeið hafi menn alls ekki verið að horfa á verkið eins og meistarinn málaði það, heldur eins og það leit út eftir þær breytingar sem aðrir hafa gert á því í gegnum tíðina. Við endurgerðina nú hefði hins vegar verið öll áhersla verið lögð á að komast eins nærri upprunalegu verki da Vincis og hægt var.