Næstu vikur birtast í Morgunblaðinu greinar undir heitinu "Börn eru besta fólk", þar sem Þórir S. Guðbergsson og Þóra Bryndís Þórisdóttir fjalla um þroska barna og uppeldi og benda á fáein atriði sem foreldrum gæti þótt forvitnilegt að vita og gagnlegt að velta fyrir sér. Í greinaflokknum reifa þau ýmist sínar eigin hugrenningar eða tilvitnanir í fræðimenn og rannsóknir.
VERK:: SAFN'SDMANNLIF DAGS.:: 990530 \: SLÖGG:: börn eru besta I STOFNANDI:: TDFA \: \: BÖRN ERU BESTA FÓLKU/Hvaða þættir eru mikilvægastir í uppeldi barna?

Hlýja, öryggi, festa og skopskyn

Næstu vikur birtast í Morgunblaðinu greinar undir heitinu "Börn eru besta fólk", þar sem Þórir S. Guðbergsson og Þóra Bryndís Þórisdóttir fjalla um þroska barna og uppeldi og benda á fáein atriði sem foreldrum gæti þótt forvitnilegt að vita og gagnlegt að velta fyrir sér. Í greinaflokknum reifa þau ýmist sínar eigin hugrenningar eða tilvitnanir í fræðimenn og rannsóknir.FRÁ ÖRÓFI alda hafa foreldrar fylgst með börnum sínum, séð þau vaxa og þroskast, takast á við vandamál og erfiðleika, gefið þeim ráð og reynt að útbúa þau með sem allra best veganesti til framtíðar. Einatt skiptast á skin og skúrir. Góð börn verða stundum óþæg börn og baldin börn og hrekkjalómar hafa komist til manns, mörgum til gagns og gleði. Fyrstu áhrifavaldar í lífi barns og þeir veigamestu eru yfirleitt foreldrar þess og er ábyrgðin því mikil sem hvílir á herðum okkar.

Gamalt máltæki segir að "það sé mannlegt að skjátlast". Því megum við ekki gleyma sem foreldrar. Okkur skjátlast oft í uppeldinu þó við reynum ætíð að gera okkar besta. Börn þurfa að læra að enginn er óskeikull, hvorki foreldrar, prestar, uppeldisfræðingar né kennarar. Þau komast að þessu hvort sem er á vissu þroskaskeiði. Við þurfum að vera tilbúin til að læra af mistökunum, hafa okkur sjálf í sífelldri endurskoðun og endurhæfingu sem foreldrar og síðar sem afar og ömmur. Verum opin fyrir nýrri þekkingu og leggjum okkur fram um að búa börnum okkar góðan heim.

Unnt væri að nefna ótal margt sem er nauðsynlegt góðu uppeldi en hér verður minnst á þrjá þætti sem við teljum veigamikla til að barn geti orðið að heilbrigðum einstaklingi sem kann að elska, getur tjáð tilfinningar sínar og líður vel.

Hlýja er mikilvæg öllum börnum. Kærleikur sem er skilyrðislaus og krefst einskis í staðinn. Við gerum börnum okkar eitthvað gott af því að okkur þykir vænt um þau. Við veitum þeim ekki ástúð og umhyggju til þess að þau geri eitthvað fyrir okkur á móti eða hegði sér á ákveðinn hátt. Sumir ganga svo langt að segja að krafa um þakklæti handa foreldrum sé beinlínis hættuleg vegna þess að foreldrar eiga í raun ekki tilkall til barna sinna. Börn eru sjálfstæðar verur. "Þau eru synir og dætur lífsins og eiga sér sínar eigin langanir. Við erum farvegur þeirra" (Kahlil Gibran).

Að sjálfsögðu þurfa börn þó að læra almenna kurteisi og að þakka fyrir sig. Öllum er nauðsynlegt að læra að bera virðingu fyrir persónufrelsi annarra og til þess að samskipti verði til jákvæðs þroska þurfum við að kunna að meta og þakka fyrir það sem vel er gert.

Öryggi er öllum börnum nauðsynlegt. Með því er átt við að börn þurfi athvarf og skjól á hverju sem dynur. Þau þurfa að vita að foreldrarnir eru sannir vinir sem standa með þeim í blíðu og stríðu og að leitað verður leiða til að stuðla að hamingju þeirra og heilsu. Þetta má ekki misskilja á þann veg að aldrei eigi að vanda um við börn eða benda þeim á það sem aflaga fer heldur að það sé gert á þann hátt að þau skilji hvers vegna við viljum aga og skynji að það sé gert af ást og með hlýju.

Festa skiptir öll börn miklu máli. Þau þurfa viðmið og reglur sem þau geta notað til þess að feta sig áfram í flókinni veröld. Þeim er nauðsynlegt að vita hvað þau mega og hvað þau mega ekki og hvar mörkin liggja við margvíslegar aðstæður. Við eigum að vera sjálfum okkur samkvæm í því sem við segjum og gerum, segja ekki eitt í dag og annað á morgun. Við setjum ekki reglur reglnanna vegna, ­ ekki aga til þess að við getum sýnt þeim "hver ræður". Reglur þurfa að vera einfaldar, skýrar, fáar og sanngjarnar ­ við ræðum við börnin um þær svo að þau skilji grundvöllinn sem þær eru byggðar á. Þetta viðhorf felur í sér að við vitum og börnin vita að öllum getur skjátlast. Stundum virðist sem mjög flókin vandamál séu leyst með einfaldri setningu: Það hlýtur að vera foreldrunum að kenna! Að baki erfiðra vandamála liggja yfirleitt margvíslegar orsakir. Aðalatriðið er ekki að finna sökudólg heldur að komast að jákvæðri niðurstöðu og lausn mála. (Thomas Gordon.)

Skopskyn er nauðsynlegt að nefna. Öll brot af kátlegum atvikum í hringekju dagsins sem kitla hláturtaugar geta haft áhrif á ónæmiskerfið, bætt geð og létt lund. Ef við leyfum okkur að hafa gaman af því þegar barnið missir strump út um gluggann, í stað þess að bölsótast, öðlumst við skemmtilega fjölskylduminningu um bjartsýna strumpinn sem hélt að hann gæti flogið! ­ Leyfum hugmyndafluginu að hefja sig á loft með börnum okkar.

Börn eru dýrmætur efniviður og það skiptir máli hvernig við meðhöndlum hann, slípum og forverjum fyrir framtíðina en leyfum honum samt að halda sérkennum sínum, fegurð og eiginleikum.

"Löngu áður en börn hafa náð þroska fullorðinna krefjumst við af þeim að þau hegði sér eins og fullorðið fólk. Við gefum þeim ekki nægan tíma til leikja." (A.S. Neill 1883­1973.)

Með leikjum sínum uppgötva börn veröldina og með skapandi hugsun verða þau tilbúin til að breyta henni til batnaðar.

REYNUM að líta ekki á athafnir barna okkar frá sjónarhóli fullorðinna.

Þóri S.

Guðbergsson

Þóru Bryndísi

Þórisdóttur