HLJÓMSVEITIN SSSól hefur starfað af fullum krafti í tólf ár og ætlar að skella sér í ballslaginn í sumar. Í blíðunni á föstudaginn kom sveitin sér fyrir á þaki Íslandsbanka í Lækjargötu og tók lagið. Ekkert betri en ég
Hljómsveitin SSSól á ferð og flugi í sumar

Sólir takast í hendur

HLJÓMSVEITIN SSSól hefur starfað af fullum krafti í tólf ár og ætlar að skella sér í ballslaginn í sumar. Í blíðunni á föstudaginn kom sveitin sér fyrir á þaki Íslandsbanka í Lækjargötu og tók lagið.

Ekkert betri en ég

"Við vorum að taka upp myndband við nýtt lag sem verður á "Best of"-plötu sveitarinnar sem er væntanleg í búðir um miðjan júní," segir Helgi Björnsson söngvari. "Lagið heitir "Þú ert ekkert betri en ég" en það verða þrjú önnur ný lög á plötunni og svo 36 gömul og góð frá árunum 1988­1999."

­ Af hverju safndiskur núna, eru einhver tímamót hjá sveitinni?

"Þetta hefur staðið til í 2­3 ár. Hugmyndin var fyrst að koma með hann á tíu ára afmælinu en það gekk ekki, þannig að þetta hefur dregist þangað til nú."

­ Verður SSSól á tónleikaferðalagi í sumar?

"Já, við ætlum að taka aðeins stærri pakka núna en undanfarin sumur þar sem við dúkkuðum upp annað slagið til að halda blóðstreyminu í gangi. En í sumar verðum við á meira á ferðinni og alveg fram í september."

­ Veðrið í dag lofar góðu fyrir sumarið ...

"Já, um leið og Sólin (hljómsveitin) fer á stjá þá tökumst við í hendur, bæði við hérna niðri á jörðinni og hún systir okkar þarna uppi."

­ Þú ert líka að leika í Rent, fá ballgestir að heyra eitthvert lag úr því?

"Ja, það gæti verið að við gætum flutt eitthvert þeirra laga sem ég syng einn í sýningunni."

­ Verður ekkert erfitt að koma tónleikaferðalögum og Rent saman í dagskrána í sumar?

"Það verður kannski smáhöfuðverkur en ekkert sem er ekki hægt að leysa. Við höfum nú lent í þessari aðstöðu áður þannig að ég er með nokkra flugmenn á mínum snærum. Það gæti komið fyrir að við þyrftum að fljúga eftir sýningu á ball í Skagafirði. Björn Jörundur Friðbjörnsson, sem einnig leikur í Rent, leysir Jakob Smára bassaleikara af í sumar svo að þetta mun allt ganga vel, við erum með sama vinnutíma," segir Helgi glaður í bragði að lokum.

Morgunblaðið/Jón Svavarsson MEÐLIMIR sveitarinnar í gervi bankaræningja á þaki Íslandsbanka.

STAÐIÐ á ystu nöf við gerð myndbandsins.

HELGI Björnsson syngur framan í kvikmyndavélina.