Goðafossslysið vekur enn sárar minningar í hugum margra Íslendinga. Enn velta menn því fyrir sér hvort bjarga hefði mátt fleiri mannslífum hefðu áhafnir björgunarskipa ekki verið svo uppteknar við að granda þýska kafbátnum sem skaut Goðafoss niður. Hugi Hreiðarsson rifjaði upp mannskæðustu árásina á íslenskt farskip í seinna stríði.
Minningin um örlög skipverja og farþega á Goðafossi lifir enn hjá þeim sem komust af

Goðafossslysið vekur enn sárar minningar í hugum margra Íslendinga. Enn velta menn því fyrir sér hvort bjarga hefði mátt fleiri mannslífum hefðu áhafnir björgunarskipa ekki verið svo uppteknar við að granda þýska kafbátnum sem skaut Goðafoss niður. Hugi Hreiðarsson rifjaði upp mannskæðustu árásina á íslenskt farskip í seinna stríði.

SÁR seinni heimsstyrjaldar eru enn ógróin í hjörtum þeirra sem lifðu af árásina á Goðafoss föstudaginn 10. nóvember 1944. Skipið, sem var í eigu Eimskipafélags Íslands, var að koma úr rúmlega tveggja mánaða siglingu til New York með viðkomu í Lock Ewe í Skotlandi og átti eftir um þriggja klukkustunda siglingu til Reykjavíkur. Í einni svipan breyttust örlög þeirra sem um borð voru. Hver og einn varð að berjast fyrir lífi sínu og um leið að sjá á eftir vinum, ættingjum og vinnufélögum. Auk 25 manns úr áhöfn og hópi farþega fórust með Goðafossi breskur merkjamaður skipsins og 18 skipsbrotsmenn sem skipverjar höfðu bjargað skömmu áður. Þessi harmleikur kostaði því 44 menn lífið, bæði börn og fullorðna. Sjö íslensk börn urðu föðurlaus. Fyrr um daginn fórst bandarískt eftirlitsskip á sömu slóðum með 10 manna áhöfn sem talið er að sami kafbátur hafi grandað. Þótt liðin séu 55 ár frá árásinni hafa skipsbrotsmenn af Goðafossi aldrei hist og sumir hafa reyndar ekki sést síðan haustið 1944. Það var því við hæfi, þegar greinarhöfundur rifjaði upp þetta slys, að koma á endurfundum og heiðra um leið minningu þeirra sem týndu lífi.

Níu á lífi

Hópurinn hittist á björtum laugardegi fyrir nokkru og var ekki laust við að nokkurrar spennu gætti. Allir voru prúðbúnir, líkt og eitthvað hátíðlegt væri að gerast, og þegar til kom var eins og aldagamlir vinir væru að endurnýja kynnin. Alls eru níu manns í hópnum, þau Arnar Örlygur Jónsson, Áslaug Sigurðardóttir, Jóhann Guðbjörnsson, Ingólfur Ingvarsson, Guðmundur Finnbogason, Aðalsteinn Guðnason, Baldur Jónsson, Loftur Jóhannsson og Sigurður Guðmundsson. Loftur Jóhannsson var ekki um borð í Goðafossi þegar skipið var skotið niður sökum þess að hann hafði verið fluttur um borð í annað skip vegna lasleika í upphafi ferðar. Þá tókst greinarhöfundi hvorki að komast að afdrifum Stefáns Skúlasonar káetudrengs sem lengi bjó í Danmörku, né erlends skipsbrotsmanns sem komst lífs af.

Flestir þeirra sem eftir lifa búa í dag á höfuðborgarsvæðinu, utan Áslaugar sem býr í Skagafirði og Ingólfs í Hveragerði og þeirra Guðmundar og Lofts sem búa á Selfossi.

Ferðin örlagaríka

Við endurfundina þurftu sumir að kynna sig með nafni og hafði Áslaug Sigurðardóttir þerna t.d. hvorki hitt Aðalstein Guðnason loftskeytamann né Ingólf Ingvarsson háseta frá því þau kvöddust um borð í björgunarskipinu fyrir 55 árum. Svipaða sögu má segja um Arnar Örlyg Jónsson búrmann og Baldur Jónsson háseta. Enda þótt langt sé um liðið var eins og þessi sára upplifun hefði þjappað hópnum saman fyrir lífstíð. Eftir stutta stund voru allir farnir að tala hver í kapp við annan. Atburðirnir rifjuðust smám saman upp og fengu líf líkt og þeir hefðu gerst fyrir örfáum dögum.

Skipbrotsmönnum bjargað

Baldur Jónsson sem býr í Kópavogi rifjaði upp sögu sína og studdist hann við frásögn sem hann ritaði daginn eftir slysið. ,Það var klukkan 12 að hádegi að ég var leystur af "útkikki" úr efra brúarskýli af Sigurði heitnum Sveinssyni háseta. Ég hafði þá fyrir nokkurri stundu komið auga á skip framundan á bakborða, nokkuð langt undan. Veitti ég því enga sérstaka eftirtekt, reyndar rauk talsvert úr því, en mér virtist það koma úr skorsteini skipsins. Það var ekki fyrr en ég var kominn niður á bakborðs brúarvæng að ég sá eldblossa gjósa upp úr því. Ég man að ég hljóp þá strax út á stjórnborða, en þar voru staddir Stefán Dagfinnsson, 2. stýrimaður, og Sigurður Gíslason skipstjóri. Höfðu þeir báðir komið auga á eldinn í skipinu og lét skipstjórinn setja strax á fulla ferð í áttina þangað. Hann sagði mér að fara aftur í íbúðir skipsmanna og segja þeim að gera sig klára til að fara í björgunarbát ef með þyrfti."

Skip það sem stóð í björtu báli var breskt olíuskip að nafni Shirvan á leið til Íslands. Áfram heldur Baldur: "Því næst fór ég aftur upp í brú og er ég hafði verið þar í nokkrar mínútur kvað við ógurleg sprenging í olíuskipinu og eldsúlan gnæfði hátt til himins." Baldur segir að þá skömmu síðar hafi þeir komið auga á björgunarbát sem stefndi í áttina til þeirra og var gert klárt til að bjarga skipsbrotsmönnunum. Goðafoss hafi síðan lagst að björgunarbátnum um klukkan 12.30 en í honum voru þá 19 menn. Hann segir að vel hafi gengið að koma þeim um borð en að margir hafi verið illa brenndir.

Gífurleg sprenging

Nánari upplýsingar um slysið má finna í sjóréttarskjölum og styðja þær frásagnir hópsins. Þar segir að skipsbrotsmennirnir hafi farið upp í borðsal þar sem ung íslensk læknishjón, þau dr. Friðgeir Ólason og Sigrún Briem tóku við þeim og gerðu að sárum þeirra. Læknishjónin höfðu nýlokið námi í Bandaríkjunum og voru nú á heimleið með þrjú ung börn sín. Segir einnig að meðan á þessu gekk hafi verið skimað eftir öðrum björgunarbát en skipsbrotsmennir höfðu sagt að annar væri þar skammt undan.

Þrír létust samstundis

Ekki kom til þess að þeim mönnum væri bjargað um borð í Goðafoss því um klukkan 13.02 kvað við gríðarmikil sprenging í skipinu og segir Baldur Jónsson að hann hafi misst fótana. "Ég stóð strax upp aftur. Og hljóp því næst niður á næsta dekk en þá þegar var skipið byrjað að halla. Sá ég að stór rifa hafði myndast á bakborðssíðu og sjór fossaði inn." Hann segir að skömmu síðar hafi skipið rétt sig af og stöðvast á örfáum metrum.

Í sjóréttarskjölum kemur fram að ekki hafi orðið umtalsverð slys á mönnum við sprenginguna en talið er að þrír, sem staddir voru niðri í vélarrúmi, hafi látist samstundist. Nokkrir hlutu þó höfuðhögg og einn farþegi, Sigrún Þormar, slasaðist á fæti. Samkvæmd sjóréttinum var nú farið að reyna að koma flekum og einum björgunarbáti, sem heill var, frá borði. Höfðu margir farþeganna komið sér fyrir í honum, m.a. Áslaug Sigurðardóttir, Sigríður Þormar og læknisfrúin með næstyngsta barn sitt. Hallaðist skipið æ meir í öfuga átt miðað við festingar björgunarbátsins og leit illa út með að það tækist að koma honum frá. Segir að á þeirri stundu hafi borið að fleka með nokkrum úr áhöfn. Var Áslaugu Sigurðardóttur kippt þar upp en er hún ætlaði að teygja sig eftir barni Sigrúnar færðist flekinn frá vegna sjógangs og skömmu síðar hvolfdi björgunarbátnum. Einhverjir komust upp á kjöl bátsins en þá var flekinn kominn of langt í burtu til að hægt væri að róa til baka og freista þess að bjarga fólkinu. Þessar örlagaríku mínútur hafa alla tíð síðan búið í huga Áslaugar Sigurðardóttur. "Ég man vel eftir að hafa verið kippt upp á flekann af Frímanni heitnum bryta. Það var hins vegar sorglegt að geta ekki gert neitt til bjargar fólkinu. Oftsinnum hefur mér fundist ég ekki hafa átt skilið að lifa. Þegar ég hitti eitt sinn ættingja nokkurra þeirra sem fórust þá fannst mér ég þurfa að koma fram með afsökun af hverju ég fékk að lifa."

Djúpsprengjum kastað

Í réttinum kom fram að Goðafoss hefði sokkið á fimm til tíu mínútum. Þar kom einnig fram að ekki væri vitað með vissu hvað varð um suma farþegana en Sigurður Gíslason, skipstjóri, taldi flesta hafa drukknað. Jafnframt sagði hann að skömmu eftir að skipið hefði sokkið hefði fylgdarskip komið á vettvang og að þaðan hefði verið kallað "We come back" eða við komum aftur. Hefðu farþegar og áhöfn dreifst á fjóra fleka, botn á tveimur björgunarbátum, björgunarhringi, lúgur og annað tréverk er flaut. Síðan segir hann orðrétt. "Það heyrðust fyrst í stað mörg hljóð frá því, sem flaut, en þau þögnuðu von bráðar, því fylgdarskipið virtist ekki hirða um að bjarga fólkinu, en sigldi fram og aftur á staðnum með djúpsprengjukasti. Sama var um annað skip, sem kom á vettvang. Fljótlega komu flugvélar á slysstað og þær dönsuðu yfir höfðum okkar og flekarnir hentust til af djúpsprengjum." Síðar er skipstjórinn spurður nánar út í djúpsprengjukastið: "Mættur (skipstjóri) kveðst ekki álíta, að djúpsprengjukastið hafi torveldað það, að fólkið gæti haldið sér á fyrrgreindu lausu braki." Ekki skal lagt mat á hvort skipstjórinn sé þarna tvísaga en í viðtali við greinarhöfund staðfestir Ingólfur Ingvarsson að sprengjum hafi verið kastað nærri braki Goðafoss. Telur hann að ein þeirra hafi beinlínis grandað nokkrum. Hann segir jafnframt að hann og skipstjórinn hafi verið varaðir við að hafa orð á því að sprengjurnar hefðu grandað fólki þar sem ekki hefði verið vitað um viðbrögð hernaryfirvalda. Það skal tekið skal fram að eftirlifandi skipverjum ber ekki saman um áhrif árásanna á skipsbrotsfólkið og telur Baldur Jónsson í Kópavogi það af og frá. "Sprengjunum var kastað í töluverðri fjarlægð og vissulega fundum við fyrir þeim en að þær hafi grandað fólki tel ég útilokað."

A.m.k. segir í skýrslum að 25 sprengjum hafi verið kastað en engri þeirra tókst þó að granda kafbátnum eins og staðfest var í bók Friðþórs Eydal blaðafulltrúa Varnarliðsins sem kom út fyrir um tveimur árum.

Bjargað eftir 2 tíma

Það er ekki ofsagt að dregið hafi verið af fólkinu eftir tæplega þriggja tíma volk í kulda og vonskuveðri þegar því var loks bjargað um borð í fylgdarskipin. Allir sem ekki höfðu komist á fleka voru þá líklega látnir en lífsmark sást þó á kilinum á öðrum björgunarbátnum. Hins vegar vildi ekki betur til en svo að í þann mund sem fylgdarskipið lagði að bátnum kom hnykkur og rann þá sá sem þar hékk í hafið og hvarf.

En hörmungunum var ekki lokið enn. Eyjólfur Eðvaldsson loftskeytamaður sem hafði slasast við sprenginguna þoldi ekki volkið í sjónum og lést hann skömmu eftir að hafa verið bjargað um borð í fylgdarskip. Vel var tekið á móti skipsbrotsfólkinu í fylgdarskipunum og fékk það þurr föt og heita drykki. Ekki var þó haldið heim á leið heldur haldið áfram að leita kafbátsins. Stóð sú leit fram til miðnættis er stefnan var tekin á Reykjavík.

Biðin langa

Sökum stríðsins ríkti fréttabann en fljótlega spurðust út fregnir af því að eitthvað hefði hent Goðafoss. Vitað var að hann kæmi til hafnar þennan dag en ekki nákvæmlega hvenær. Fólk var hins vegar farið að lengja eftir skipinu og þegar lesin hafði verið upp tilkynning í ríkisútvarpinu þess efnis að fólk sem byggi meðfram Garðskaga væri beðið að gefa gætur opnum bátum þar í grennd fór fólk að safnast saman á hafnarbakkanum í Reykjavík. Voru bifreiðar í þéttri þyrpingu allt frá Hafnarhúsinu vestur undir Verbúðarbryggjur. Ekkert bólaði hins vegar á björgunarskipum og undraðist fólk það.

Var talinn af

Á endurfundinum rifjaði Jóhann Guðbjörnsson upp heimkomuna. "Þegar við komum í land var öllum sagt að fara upp í bíl og hópnum keyrt upp í Sjúkrahúsið á Laugarnesi við Kirkjusand þar sem breska setuliðið hafði aðsetur. Þar var honum haldið í meira en sólarhring í einskonar stofufangelsi. Ástæðu þess tel ég vera að þeir hafi ekki viljað að hópurinn tvístraðist. Faðir minn, sem var yfirlögregluþjónn í Reykjavík, hafði hins vegar fyrr um daginn náð sambandi við björgunarskipið sem kom undan í land og spurst fyrir um mig. Þar hafði hann fengið þau svör að ég hefði drukknað. Þegar ég kom síðan á hafnarbakkann var gripið í mig og þar var faðir minn kominn. Hann var í mikilli geðshræringu og saman tókst okkur að laumast burt frá höfninni í lögreglubíl og beint heim. Hann sagði mér að hann hefði ekki viljað tilkynna móður minni að líklega hefði ég drukknað og síðar komst ég að því að þeir hefðu farið mannavillt. Þegar heim kom fengum við mikið af fólki í heimsókn, m.a. 6 eða 8 menn úr stjórn Eimskipafélagsins. Þeir voru hjá okkur í um klukkustund og spurðu mig í þaula um slysið og afdrif fólksins." Um allt land ríkti mikil sorg og var mikill mannfjöldi við minningarathöfn í Dómkirkjunni þann 23. sama mánaðar. Var fjölda fyrirtækja og verslana lokað þann dag. Þá fór einnig fram minningarathöfn í Holy Trinity Church í New York.

Blóðpeningar

Í þessari upprifjun hefur aðeins verið stiklað á stóru um árásina á Goðafoss og mörgum spurningum um hana verður aldrei hægt að svara. Fyrir flest okkar sem eru fædd eftir stríð er erfitt að setja sig í spor þeirra sem upplifðu þessar hörmungar og skilja hvað í raun gerðist. Það má hins vegar með sanni segja að þetta slys hafi verið íslensku þjóðinni til áminningar um hversu þjóðir heimsins eru berskjaldaðar fyrir þeim ógnunum sem tengjast stríðsrekstri og hvernig grimmd stríðsins gjörbreytir atferli fólks. Það fer hins vegar vel á því að enda þessa upprifjun á orðum Aðalsteins Guðnasonar loftskeytamanns sem ritaði í Morgunblaðið árið 1994: "Enn, fimmtíu árum síðar, hefur tíminn ekki náð til að þurrka þessa stund ógnarinnar úr huga mínum. Á þessum degi var heimsstyrjöldinni lokið fyrir mér og mörgum öðrum, en eiturörvarnar sitja eftir. Und, sem aldrei grær. Fórnin var færð, fjörtíu og þrjár manneskjur lágu í valnum. Stríðið hafði tekið sinn toll. Hafið varð aftur gárulaust og slétt en eftir voru sárin, sem sorgin skildi eftir hjá þeim, sem misst höfðu allt það dýrmætasta og besta sem þeir áttu. Fyrir okkur, sem unnum á sjónum á þessum tíma, fengum við oft orð í eyra að við værum dýrseldir, en eftir slysið heyrðist varla orðið BLÓÐPENINGAR."

Höfundur starfar að markaðsmálum.

GREINARHÖFUNDUR ásamt eftirlifandi áhöfn Goðafoss. Efri röð: Baldur Jónsson, Ingólfur Ingvarsson, Loftur Jóhannsson, Arnar Örlygur Jónsson, greinarhöfundur. Fremri röð: Jóhann Guðbjörnsson, Áslaug Sigurðardóttir, Aðalsteinn Guðnason og Guðmundur Finnbogason. Á myndina vantar Sigurð Guðmundsson en hann var staddur erlendis þegar hópurinn hittist. Ljósm: Arnaldur.GOÐAFOSS var 1542 rúmlestir, smíðaður í Danmörku árið 1921 fyrir Eimskipafélagið. Skipið átti eftir um þriggja tíma siglingu til lands þegar tundurskeytið hæfði bakborðsíðu þess. Í sjórétti kom fram að fáir hefðu látist af sárum sínum, flestir höfðu drukknað.Morgunblaðið/Arnaldur

BALDUR Jónsson (21) var í brúnni þegar tundurskeytið hæfði Goðafoss.

ÞAÐ var vinsælt hjá íslenskum sjómönnum að hittast á ICELAND RESTAURANT á Broadway í New York. Myndin er líklega tekin fyrripart árs 1944. Jóhann Guðbjörnsson (19), Baldur Jónsson (21), Sigurður Guðmundsson (18) og Sigurður Sveinsson (28), sá eini þeirra sem ekki bjargaðist.Ljósmynd/Hugi

TIL að heiðra minningu þeirra sem fórust fór hópurinn að minnismerki, sem staðsett er í Fossvogskirkjugarði, um þá sem hafa drukknað við Íslandsstrendur.INGÓLFUR Ingvarsson (19) segir að sér hafi verið uppálagt að þegja um að djúpsprengjum hafi verið kastað í grennd við skipsbrotsfólkið.Ljósmynd/Hugi

Hópurinn hittist

F.v.: Loftur Jóhannsson, Ingólfur Ingvarsson, Guðmundur Finnbogason og Áslaug Sigurðardóttir.F.v.: Guðmundur Finnbogason, Jóhann Guðbjörnsson og Baldur Jónsson. Mynd: Hugi Hreiðarsson.

ÁSLAUG Sigurðardóttir (26) var farþegi um borð í Goðafossi. Henni var bjargað á elleftu stundu.

1. Staðsetning á Goðafossi þegar farið er fyrir Reykjanes.

2. Goðafoss um 2,5 sjómílur frá Stafnnesvita.

3. Ágiskuð staðsetning 2. stýrimanns þegar hann lýkur vakt 12.28.

4. Ágiskaður staður þegar mönnunum á Shirvan er bjargað.

5. Ágiskaður staður þar sem Goðafoss var skotinn niður 13.02.