Heimsókn Anthony Giddens, prófessors og rektors hins virta háskóla, London School of Economics, fyrir rúmri viku vakti mikla athygli og umræður, ekki sízt á meðal áhugamanna um þjóðmál. Enda var Giddens kynntur hér sem einn helzti hugmyndafræðingur að baki umsköpun brezka Verkamannaflokksins, sem komizt hefur til valda í Bretlandi eftir langt stjórnartímabil Íhaldsflokksins.
Heimsókn Anthony Giddens, prófessors og rektors hins virta háskóla, London School of Economics, fyrir rúmri viku vakti mikla athygli og umræður, ekki sízt á meðal áhugamanna um þjóðmál. Enda var Giddens kynntur hér sem einn helzti hugmyndafræðingur að baki umsköpun brezka Verkamannaflokksins, sem komizt hefur til valda í Bretlandi eftir langt stjórnartímabil Íhaldsflokksins. Velgengni Verkamannaflokks Blair hefur verið mikil á sama tíma og Íhaldsflokkurinn undir forystu Williams Hagues virðist í algerri upplausn. Það er því ekki óeðlilegt, að margir vinstri menn hér hafi velt því fyrir sér, hvort Anthony Giddens hefði svör við spurningu þeirra um það, hvernig þeir gætu náð svipuðum árangri.

Í umræðum í tilefni af heimsókn Giddens hefur stefnu Blair verið líkt við stefnu Clintons í Bandaríkjunum og talið, að þessir tveir forystumenn hinna engilsaxnesku þjóða beggja vegna Atlantshafsins byggðu í meginatriðum á sömu viðhorfum. Að hluta til er það vafalaust rétt. Þó má að mörgu leyti segja, að ríkisstjórn Clintons sé eins konar samsteypustjórn á milli þjóðfélagslegra umbótasinna og markaðssinnaðra íhaldsmanna. Þetta kemur skýrt í ljós, þegar lesin er bók Roberts Reich, fyrrum vinnumálaráðherra Clintons, sem nú er prófessor við Brandeis- háskóla í Bandaríkjunum,(sem Geir H. Haarde, fjármálaráðherra, hefur m.a. stundað nám við,) "Locked in the Cabinet". Í þeirri bók, sem áður hefur verið fjallað um hér í Reykjavíkurbréfi, lýsir Reich baráttu sinni og Hillary Clintons og að nokkru leyti forsetans sjálfs, við fulltrúa Wall Street í fyrri ríkisstjórn Clintons og þá ekki sízt Rubin, fjármálaráðherra, sem nýlega sagði af sér og fær þau eftirmæli að vera bezti fjármálaráðherra í sögu Bandaríkjanna á þessari öld. Fulltrúa þeirra sjónarmiða er tæpast að finna í ríkisstjórn Verkamannaflokksins.

Enginn vafi leikur á því, að fyrirlestur Anthony Giddens í Háskóla Íslands á eftir að hafa mikil áhrif á þjóðmálaumræður hér á næstu mánuðum og misserum og ganga má út frá því, sem vísu, að innan Samfylkingarinnar fari fram víðtækar umræður um, hvort sú stjórnmálahreyfing geti endurnýjað stefnu sína að einhverju leyti á grundvelli þeirra hugmynda og skoðana, sem hann setti fram. En hvaða hugmyndir og skoðanir eru það? Er eitthvað nýtt í þeim eða er hér á ferðinni snjöll markaðssetning á gömlum hugmyndum? Að sumu leyti en öðru leyti ekki.

Í fyrirlestri sínum í háskólanum tók Anthony Giddens saman og setti inn í eina heildarmynd margt af því, sem til umræðu hefur verið á Vesturlöndum á undanförnum árum ásamt vissum nýjum hugmyndum, sem ástæða er til að gefa gaum. Þennan heildarpakka kallar hann þriðju leiðina en viðurkennir, að það efnisheiti sé ekki nýtt af nálinni og hafi oft verið notað áður.

Hvað felst í þriðju leiðinni? Eitt af því er umfjöllun um alþjóðavæðinguna, sem hefur sett mark sitt á þjóðfélagsumræður um heim allan á þessum áratug og menn skiptast í hópa um hvort sé af hinu góða. Hvernig eigi að bregðast við alþjóðavæðingunni og áhrifum og afleiðingum hennar.

Áhrif alþjóðavæðingarinnar eru augljóslega mismunandi eftir löndum. Í Bandaríkjunum hefur Patrick Buchanan gengið fram fyrir skjöldu og hafið baráttu fyrir nýrri verndarstefnu til þess að koma í veg fyrir, að alþjóðavæðingin ræni bandarískt verkafólk atvinnu sinni. Þar hefur stjórnmálamaður á hægri vængnum tekið upp baráttu fyrir þrengstu hagsmunum verkafólks undir merkjum verndarstefnu á sama tíma og Robert Reich, einn helzti umbótasinninn í liði Clintons, vill mæta afleiðingum alþjóðavæðingarinnar með stórauknu fjármagni til þess að veita fólki nýja starfsmenntun.

Hér á Íslandi hafa áhrif alþjóðavæðingarinnar birzt með öðrum hætti, áhyggjum yfir því hvaða áhrif hún muni hafa á íslenzka tungu og menningu og sjálfsvitund þjóðarinnar. Hvort þetta litla mál- og menningarsvæði geti staðið af sér holskeflu alþjóðlegra menningaráhrifa. Það hefur ekki sízt verið Morgunblaðið sem á allmörgum undanförnum árum hefur hvatt til umhugsunar um þessi áhrif alþjóðavæðingarinnar á Íslandi. Í því sambandi hefur blaðið varpað fram spurningum um, hvort verja ætti miklum fjármunum til þess að talsetja allt efni, sem sýnt er á sjónvarpsstöðvum og í kvikmyndahúsum. Þessi viðhorf hafa lítið verið rædd á hinum pólitíska vettvangi, eins merkilegt og það nú er.

Við Íslendingar höfum á þessum áratug opnað land okkar fyrir áhrifum alþjóðavæðingar í efnahagsmálum og fjármálum að verulegu leyti. Áhrifin hafa fram til þessa verið jákvæð. En hvað gerist ef við göngum lengra? Sagt er, að með EES- samningnum getum við nýtt okkur nánast allt það bezta, sem fylgir aðild að ESB en losnum við hið neikvæða. Sjávarútvegsfyrirtæki okkar fjárfesta í vaxandi mæli í öðrum löndum á sama tíma og við bönnum erlendar fjárfestingar í sjávarútvegi hér. Hversu lengi komumst við upp með þetta? Hvaða áhrif mundi það hafa, ef við leyfðum erlendar fjárfestingar í íslenzkum sjávarútvegi? Mundu útgerðarfyrirtækin í Hull og Grimsby, svo að notað sé orðalag Morgunblaðsins sjálfs fyrr á árum, kaupa upp íslenzk útgerðarfyrirtæki og leggja þannig undir sig fiskveiðilögsögu okkar?

En svo er spurningin: hefur afstaðan til þessara mála eitthvað með hægri og vinstri að gera? Geta þeir jafnaðarmannaflokkar, sem leita að endurnýjun í hugmyndum manna á borð við Anthony Giddens, skapað sér einhverja sérstöðu í afstöðu til þessara málefna? Og þá hvaða sérstöðu?

Annað meginatriði sem Giddens lagði áherzlu á í fyrirlestri sínum í háskólanum er áhrif tæknivæðingarinnar og þá fyrst og fremst upplýsingatækninnar. Hann minnti á, að einu sinni hefði verið til fjölmenn verkalýðsstétt og það hefði ekki sízt verið hlutverk jafnaðarmannaflokka og sósíalískra flokka að standa vörð um hagsmuni hennar. Þessi fjölmenna verkalýðsstétt í þeim skilningi er ekki lengur til. Hins vegar er komin til sögunnar ný stétt fólks, sem starfar fyrst og fremst á sviði upplýsingatækni. Þetta fólk starfar ekki endilega á hefðbundinn hátt í stórum skipulögðum fyrirtækjum og stofnunum. Það getur út af fyrir sig sinnt starfi sínu á seglbát í Karabíska hafinu með jafn góðum árangri og á skrifstofu stórfyrirtækis í Bandaríkjunum. Giddens telur að þessi nýja stétt upplýsingatæknifólks sé til vinstri í sumum málum en til hægri í öðrum málum.

Það er enginn vafi á því að upplýsingatæknin er að gjörbreyta daglegu lífi okkar. Upplýsingatæknin leiðir til þess að fjölmörg hefðbundin störf eru að hverfa. Fyrir skömmu sagði Barclays-bankinn í Bretlandi upp 6000 manns vegna áhrifa símatækni og Netsins á starfsemi bankans. Fólk stundar sín bankaviðskipti sjálft. Það er ekki ósennilegt, að skiljanleg tregða íslenzku bankanna til þess að stíga svo stórt skref sé ein af meginástæðunum fyrir því, að það er enn alltof dýrt. En því hefur verið spáð, að tugir þúsunda bankamanna muni missa atvinnu sína í Evrópu á allra næstu árum.

Upplýsingatæknin er líka að útrýma gömlum milliliðum. Við förum enn út í búð til þess að kaupa í matinn. En það getur verið stutt í að hefðbundnar verzlanir hverfi og að verzlunin færist á Netið. Nú eru tvö stór fyrirtæki í Bandaríkjunum, Amazon og eBay að takast á um það í hvaða formi verzlunin verður á Netinu í framtíðinni. Netið mun útrýma gömlum milliliðum og þeim kostnaði, sem þeir hafa haft í för með sér, en auðvitað eru netfyrirtækin sjálf milliliðir. Þau eru bara annars konar milliliðir.

En hvað hefur þetta með vinstri og hægri í stjórnmálum að gera? Getur Verkamannaflokkurinn í Bretlandi skapað sér einhverja sérstöðu á þessu sviði, sem geri honum kleift að ná pólitísku forskoti á Íhaldsflokkinn?

Er þetta kannski ekki spurning um hvaða stjórnmálaflokkar verða fyrri til að svara þeim vandamálum og viðfangsefnum, sem alþjóðavætt upplýsingasamfélag kallar fram? Og að sú staðreynd, að maður á borð við Anthony Giddens er að fjalla um þau, sé vísbending um að jafnaðarmannaflokkarnir í Evrópu hafi í þeim efnum tekið frumkvæði, sem hægri flokkarnir þurfi að gæta sín á? En alla vega er ljóst, að í pólitískum umræðum samtímans skiptir máli hvaða svör stjórnmálaflokkarnir gefa við þeim spurningum, sem hinn nýi tími setur fram. Og kannski má skilja Giddens sem svo, að þarna sé tækifæri fyrir hina gömlu vinstri flokka að ganga í endurnýjun lífdaga með því að mæta betur þörfum fólks við gjörbreyttar aðstæður en hægri flokkarnir geri eða hugmyndafræðingar frjálshyggjunnar.

Við hér á Íslandi höfum ekki gert mikið af því að tengja alþjóðavæðinguna og upplýsingasamfélagið við pólitískar umræður í okkar samfélagi. En ekki er ólíklegt, að heimsókn Giddens verði til þess, að það verði gert í auknum mæli.

Nýjar hugmyndir

Í fyrirlestri Giddens í Háskóla Íslands komu fram athyglisverðar nýjar hugmyndir, sem hann tengir við þriðju leiðina svonefndu. Dæmi um það var umfjöllun hans um öldrun og stöðu aldraðs fólks. Hið hefðbundna kerfi á Vesturlöndum er að starfslok fólks verði á árabilinu 60­70 ára. Hér á Íslandi er það við 70 ár, þótt fólk geti hætt fyrr og öðlast lífeyrisréttindi fyrr. Í kringum þetta grundvallaratriði hefur svo verið byggt upp lífeyrissjóðakerfi og önnur kerfi, sem við þekkjum.

Giddens vekur hins vegar athygli á því, að við verðum að líta á öldrun í nýju ljósi. Að verða gamall er ekki það sama og áður. Það sé hægt að hafa svo mikil áhrif á það, hvernig við verðum gömul. Læknavísindin koma til sögunnar með nýjar leiðir. Lífsstíll fólks hefur breytzt. Í stuttu máli: við höfum það sjálf í hendi okkar að töluverðu leyti hvernig við eldumst og hvenær við verðum gömul. Í samræmi við þetta lýsti Giddens andstöðu við hefðbundnar reglur um starfslok.

Almenningur hér hefur talað um þessar hugmyndir Giddens um langt árabil og löngu áður en hann kom hér og lýsti þessum skoðunum. Manna á meðal hefur lengi verið spurt hvers vegna fólk eigi að hætta störfum, þótt það sé við beztu heilsu og í fullu fjöri. Og það má spyrja: hvers vegna? Eru þetta ekki einfaldlega gamlar og úreltar hugmyndir? Er ekki eðlilegt að fólk geti unnið fulla vinnu á meðan það hefur heilsu til? Mundi það ekki jafnframt létta mjög á kostnaði þjóðfélagsins, sem margir hafa vaxandi áhyggjur af, vegna þess hve stór hópur þjóðfélagsþegna er hættur störfum? Hér er Giddens raunverulega að tala um grundvallarbreytingar á því tryggingakerfi um afkomu fólks, sem byggt hefur verið upp á Vesturlöndum.

Önnur hugmynd þessu óskyld, sem fram kom í fyrirlestri hans, sneri að ríkisvaldinu. Hann lýsti þeirri skoðun, að það þyrfti að endurskilgreina ríkisvaldið. Það gætu verið til almenningsstofnanir, sem væru ekki endilega ríkisstofnanir, eins og við þekkjum þær í dag. Þetta eru áhugaverðar hugmyndir, sem geta haft víðtæk áhrif.

Í okkar huga er fyrst og fremst um að ræða tvenns konar eignarrétt, ríkiseign og einkaeign. Í lögunum um fiskveiðistjórnun frá 1984 voru fiskimiðin nefnd sameign þjóðarinnar. Margir hafa gert lítið úr þessu lagaákvæði. Við nánari skoðun kemur í ljós, að þetta hugtak á sér mörg hundruð ára gamla sögu í lagahefð ekki sízt engilsaxneskra þjóða. Í Bandaríkjunum eru fjölmargar almannaeignir, sem ekki teljast í ríkiseigu heldur í almannaeigu og ákveðnar reglur, sem gilda um þær eignir. Í umræðum um fiskveiðistjórnarkerfið hér má segja, að örlað hafi á hugmyndum um, að hugtakið sameign þjóðarinnar gæti orðið vísir að nýrri tegund eignarréttar, þar sem um væri að ræða eignir í almannaeigu eins og fiskimiðin eru lögum samkvæmt. Hugmyndir Giddens um endurskilgreiningu ríkisvaldsins tengjast augljóslega þessari hugsun að nokkru leyti.

Þá var líka athyglisvert að hlusta á umfjöllun Giddens um framtíðarþróun lýðræðisins. Þá á hann augljóslega við þá framþróun lýðræðisins, sem Morgunblaðið hefur ítrekað gert að umtalsefni síðustu árin eftir að blaðið birti í heild umfjöllun tímaritsins Economist um það, að fulltrúalýðræðið væri orðið staðnað og að færa ætti meira af ákvarðanatöku ríkis og sveitarfélaga til fólksins sjálfs.

Að mæta nýjum viðfangsefnum

Þeir sem hlusta á fyrirlestur Giddens hljóta að komast að þeirri niðurstöðu, að hann sé fyrst og fremst að hvetja til þess, að stjórnmálaumræðurnar taki mið af gjörbreyttum viðhorfum og nýjum aðstæðum. Að stjórnmálaflokkarnir hafi of lengi starfað á grundvelli hugmynda fyrri tíma. Að þeir hafi einfaldlega ekki fylgt eftir þeirri gífurlega öru þróun, sem orðið hefur á heimsbyggðinni, fyrst og fremst á þessum áratug.

Við getum yfirfært þessa hugsun á okkar samfélag og sagt sem svo: hvers vegna var við myndun nýrrar ríkisstjórnar lögð áherzla á, að sérstakur ráðherra landbúnaðarmála gæti einbeitt sér að því verkefni, í staðinn fyrir að segja sem svo, að það væri nauðsynlegt að setja á stofn nýtt ráðuneyti, sem einbeitti sér að uppbyggingu og þróun upplýsingatækni á Íslandi? Það er hinn nýi tími. Landbúnaðurinn er gamli tíminn. Og með þessum orðum er ekki gert lítið úr því starfi, sem fram hefur farið innan stjórnkerfisins um upplýsingasamfélagið.

Með sama hætti og stjórnmálaumræður á Íslandi endurspegli ekki þennan nýja tíma endurspeglist hann heldur ekki í breyttu skipulagi íslenzka stjórnkerfisins. M.ö.o., við verðum að endurskipuleggja og endurskilgreina þjóðfélagskerfi okkar til þess að geta betur svarað kröfum nýrra tíma.

Hvaða stjórnmálaflokkur verður fyrstur til?

"Er þetta kannski ekki spurning um hvaða stjórnmálaflokkar verða fyrri til að svara þeim vandamálum og viðfangsefnum, sem alþjóðavætt upplýsingasamfélag kallar fram? Og að sú staðreynd, að maður á borð við Anthony Giddens er að fjalla um þau, sé vísbending um að jafnaðarmannaflokkarnir í Evrópu hafi í þeim efnum tekið frumkvæði, sem hægri flokkarnir þurfi að gæta sín á?"