FÆÐUEFNUM má skipta í þrjá meginflokka, prótein, fitu og kolhýdröt. Flest kolhýdröt eru sykursameindir af mismunandi stærðum og gerðum. Allur sykur er samsettur úr einingum sem eru hringlaga sameindir sem kallast einsykrur eða einsykrungar. Sykur getur þannig verið einsykra, tvísykra eða fjölsykra.
LÆKNISFRÆÐIð/Er eðlilegt að það sé sykur í blóðinu?

Blóðsykur og

sjúkdómar

FÆÐUEFNUM má skipta í þrjá meginflokka, prótein, fitu og kolhýdröt. Flest kolhýdröt eru sykursameindir af mismunandi stærðum og gerðum. Allur sykur er samsettur úr einingum sem eru hringlaga sameindir sem kallast einsykrur eða einsykrungar. Sykur getur þannig verið einsykra, tvísykra eða fjölsykra. Venjulegur sykur, sem notaður er í matargerð, er unninn úr sykurreyr eða sykurrófum, hann nefnist súkrósi og er tvísykra samsett úr einni sameind af þrúgusykri (glúkósa) og einni sameind af ávaxtasykri (frúktósa). Í blóðinu er talsvert af sykri, sem er nær eingöngu einsykran glúkósi.

Sykur á einhverju formi er nauðsynlegt fæðuefni og heppilegast er að hann sé að mestu sem fjölsykrur, en þær eru yfirleitt ekki sætar á bragðið. Glúkósinn í blóðinu er mikilvægur orkugjafi, hann berst til allra frumna líkamans og þær nota hann til að framleiða orku. Blóðsykrinum er stjórnað af hormónum og þar skipta mestu máli insúlín og glúkagon sem bæði myndast í briskirtlinum. Insúlín er nauðsynlegt til að frumur líkamans geti tekið upp og nýtt sér glúkósa og veldur því lækkun blóðsykurs, glúkagon veldur hins vegar losun glúkósa úr sykurbirgðum líkamans og hækkar þannig blóðsykurinn. Þrátt fyrir þessa öflugu stjórnun er eðlilegt að blóðsykurinn hækki talsvert eftir máltíð en lækki þess á milli. Ef líkaminn býr við mikinn sykurskort getur lifrin búið til sykur úr próteinum og fitu. Stjórnun sykurefnaskipta líkamans getur raskast á ýmsan hátt og leitt til þess að blóðsykurinn verði of hár eða of lágur en við það koma fram ýmis óþægindi. Ef blóðsykurinn verður of hár fer sykur að skiljast út í þvagi, við það eykst þvagmagnið og því fylgir þorsti og einstaklingurinn léttist. Þetta geta verið fyrstu einkenni sykursýki. Sykursýki er af tveimur megingerðum, insúlínháð sykursýki, sem oftast byrjar fyrir 30 ára aldur, og fullorðins sykursýki, sem oftast byrjar eftir 30 ára aldur. Sykursýki er meðhöndluð með mataræði, lyfjum og hæfilegri hreyfingu og miðast meðferðin við að halda blóðsykrinum sem næst því að vera eðlilegur. Blóðsykur getur líka verið of lágur og getur það stafað af þekktum sjúkdómum eða af óþekktum ástæðum. Sjúkdómsástand sem getur valdið of lágum blóðsykri eru m.a. afleiðingar skurðaðgerða á efri hluta meltingarfæra, meðfæddir efnaskiptasjúkdómar og æxli sem framleiða insúlín. Einnig geta nokkur lyf og efni valdið lágum blóðsykri og má þar nefna aspirín og skyld lyf, própranólól (betablokki), áfengi o.fl. Algengasta ástæðan fyrir of lágum blóðsykri er þegar sykursýkisjúklingar taka of stóra skammta af sýkursýkilyfjum. Lágur blóðsykur veldur margvíslegum óþægindum, m.a. frá miðtaugakerfi og stundum meðvitundarleysi. Einkennin eru skjálfti í höndum, svimi, svitnun, svengdartilfinning, höfuðverkur, hjartsláttur, föl húð, skyndilegar geðsveiflur eins og t.d. ástæðulaus grátur, klunnalegar hreyfingar, athyglisskortur og sviði eða fiðringur umhverfis munninn. Þessi einkenni eru oft verst nokkrum klukkustundum eftir máltíð. Sé áfengis neytt á fastandi maga getur það valdið blóðsykurslækkun með tilheyrandi einkennum sem nærstaddir mistúlka gjarnan sem mikla áfengisvímu. Þeir sem fá óþægindi af of lágum eða of háum blóðsykri þurfa að leita læknis til að fá rétta sjúkdómsgreiningu. Síðan þarf að gera ráðstafanir sem miðast að því að halda blóðsykrinum sem mest innan eðlilegra marka. Þeir sem eru með sykursýki þurfa að lifa reglusömu lífi og finna rétt jafnvægi milli fæðu, lyjaskammta og hreyfingar. Þeir sem fá óþægindi vegna lágs blóðsykurs þurfa oft að temja sér breytt mataræði og breyttar matarvenjur. Mikilvægt er að borða fjölbreyttan og hollan mat og minna í einu en oftar; t.d. mætti fjölga máltíðum úr 2-3 í 5-6 minni máltíðir yfir daginn. Fyrir þá sem fá lágan blóðsykur án þess að taka sykursýkilyf er freistandi að taka inn sykur til að bæta ástandið. Þetta er mjög óheppilegt, sykurneysla veldur skyndilegri og mikilli hækkun á blóðsykri, við það eykst insúlínframleiðsla með þeim afleiðingum að nokkru síðar verður blóðsykurinn ennþá lægri en í byrjun. Mun heppilegra er að neyta sykurs á formi fjölsykra (kolvetna) eins og þeirra sem eru í kornmat, t.d. brauði.

Í brisinu myndast m.a. hormónin insúlín og glúkagon.

Magnús

Jóhannsson