ÞRIÐJA ríkisstjórnin undir forsæti Davíðs Oddssonar tók við stjórnartaumunum á ríkisráðsfundi á Bessastöðum á föstudaginn, en það eru sjálfstæðismenn og framsóknarmenn sem stjórna landinu eins og á síðasta kjörtímabili.

Ný ríkisstjórn

ÞRIÐJA ríkisstjórnin undir forsæti Davíðs Oddssonar tók við stjórnartaumunum á ríkisráðsfundi á Bessastöðum á föstudaginn, en það eru sjálfstæðismenn og framsóknarmenn sem stjórna landinu eins og á síðasta kjörtímabili. Samkvæmt stjórnarsáttmálanum verða helstu markmið stjórnarinnar að vinna að sem víðtækastri sátt um fiskveiðistjórnkerfið og beita aðhaldssamri hagstjórn þannig að ríkissjóður verði rekinn með umtalsverðum afgangi. Þá á að endurskoða lög um Stjórnarráð Íslands og færa Byggðastofnun undir iðnaðarráðuneytið og fella Seðlabanka Íslands undir forsætisráðuneytið.

Fimm nýir ráðherrar

NOKKRAR breytingar eru á ráðherraskipan, því fimm nýir ráðherrar setjast nú í ráðherrastóla. Flokkarnir halda sömu ráðuneytum og á síðasta kjörtímabili en fjölga þeim úr tíu í tólf. Fjórir þingmenn taka við ráðuneytum þeirra Guðmundar Bjarnasonar og Þorsteins Pálssonar, sem eru hættir þingmennsku, þ.e. Guðni Ágústsson verður landbúnaðarráðherra, Siv Friðleifsdóttir verður umhverfisráðherra, Árni M. Mathiesen verður sjávarútvegsráðherra og Sólveig Pétursdóttir verður dóms- og kirkjumálaráðherra. Þá lætur Halldór Blöndal af störfum sem samgönguráðherra og tekur við embætti forseta Alþingis, en Sturla Böðvarsson verður samgönguráðherra. Síðar á kjörtímabilinu er ráðgert að Valgerður Sverrisdóttir taki við félagsmálaráðuneytinu af Páli Péturssyni.

VINNSLUSTÖÐIN hf. tilkynnti á þriðjudaginn að allri landfrystingu í núverandi mynd yrði hætt og 89 manns sagt upp störfum. Þetta er gert vegna 600 milljóna króna taps á rekstri fyrirtækisins fyrstu 6 mánuði rekstrarársins.

RÍKISSTJÓRNIN hefur ákveðið leyfilegan heildarafla fyrir næsta fiskveiðiár, en að mestu er farið eftir tillögum Hafrannsóknastofnunar. Þorskaflinn verður 250.000 tonn.

ÚA og Burðarás hafa keypt öll hlutabréf Raufarhafnarhrepps í Jökli hf. eða 61% hlutafjárins og var kaupverðið um 580 milljónir króna. Gert er ráð fyrir að á þessu ári verði reksturinn sameinaður rekstri ÚA.

ÍSLENSKI jeppaleiðangurinn er kominn yfir Grænlandsjökul og er það í fyrsta skipti sem austur- og vesturströndin hafa verið tengd landleiðina. Leiðangurinn er nú á leiðinni til baka yfir jökulinn.

HÉRAÐSDÓMUR Reykjaness hefur dæmt 24 ára Nígeríumann í 12 mánaða fangelsi fyrir að hafa í febrúar sl. haft 11,2 milljónir króna af Íslandsbanka í Keflavík með skjalafalsi og fjársvikum.

TALSMENN Samtaka verslunarinnar fóru á föstudag á fund Samkeppnisstofnunar og ræddu þar stöðu Baugs hf. á matvörumarkaðnum, en þeir telja að Baugur, sem markaðsráðandi aðili, misnoti aðstöðu sína.