INDVERSKAR herflugvélar gerðu í gær árásir á búðir skæruliða sem berjast gegn indverskum yfirráðum í Kasmírhéraði. Indverjar hafa samþykkt tilboð Pakistana um friðarviðræður og er búist við að þær hefjist á næstu dögum.

Indland og Pakistan

boða friðarviðræður

Dras á Indlandi, Nýju Delhí, Islamabad. AP, Reuters.

INDVERSKAR herflugvélar gerðu í gær árásir á búðir skæruliða sem berjast gegn indverskum yfirráðum í Kasmírhéraði. Indverjar hafa samþykkt tilboð Pakistana um friðarviðræður og er búist við að þær hefjist á næstu dögum.

Pakistanski forsætisráðherrann bauðst til að senda utanríkisráðherra sinn til Nýju Delhí til viðræðna, og að því er upplýsingamálaráðherra Pakistans tjáði fréttstofu Reuters í gær sættist forsætisráðherra Indlands á þá tillögu.

Indverjar hafa haldið uppi loftárásum á búðir skæruliða frá því á miðvikudag. Í gær sökuðu indversk blöð Pakistana um að hafa rofið friðarsáttmála milli ríkjanna, og í harðorðum leiðara sagði The Times of India að umheiminum væri ljóst, að um væri að ræða hreinar ofbeldisaðgerðir af hálfu Pakistana.

Pakistönsk stjórnvöld hafa neitað því að þau hafi nokkur tengsl við skæruliðana í Kasmír, og utanríkisráðherra Indlands sagði á föstudag að vera kynni að pakistanski herinn væri í samstarfi við skæruliðana án tilstillis pakistanskra stjórnvalda.

"Okkur hafa borist upplýsingar um að pakistanska stjórnin hafi ekki átt mikinn þátt í þessu," sagði utanríkisráðherrann við fréttamenn. "Þetta er samsæri af hálfu hersins."

Haft var eftir talsmanni skæruliðanna í gær að væntanlegar friðarviðræður myndu engu breyta fyrir þá. "Okkur varðar ekkert um niðurstöðuna og hún mun ekki skipta okkur neinu," hafði AP fréttastofan eftir fulltrúa skæruliðanna, er berjast gegn indverskum yfirráðum í Kasmír.

Pakistan og Indland hafa tvisvar sinnum háð stríð vegna deilunnar um Kasmír síðan þau fengu sjálfstæði frá Bretlandi 1947.