Fegurst er Brandi ábóta lýst í Svínfellinga sögu og Steinunni systur hans þá ekki síður. Samkvæmt rítúalinu ætti henni að vera lýst sem húsfreyju Hrafnkels í sögu hans, en henni bregður að sjálfsögðu ekki einu sinni fyrir í þessari kvenmannslausu karlasögu. Brandur hefði þá líka lýst henni einsog gert er í Svínfellinga sögu.
VERK:: SAFN'SDSPJALL DAGS.:: 990530 \: SLÖGG:: helgispj. 30. mai STOFNANDI:: TDEG \: \: Fegurst er Brandi ábóta lýst í Svínfellinga sögu og Steinunni systur hans þá ekki síður. Samkvæmt rítúalinu ætti henni að vera lýst sem húsfreyju Hrafnkels í sögu hans, en henni bregður að sjálfsögðu ekki einu sinni fyrir í þessari kvenmannslausu karlasögu. Brandur hefði þá líka lýst henni einsog gert er í Svínfellinga sögu.

Þá er engum sérstökum atburði í Svínfellinga sögu lýst með þeim hætti að minni sterklega á frásögn Hrafnkels sögu, ekki einu sinni þegar Ormssynir koma í Kirkjubæ og Ögmundur leitar skjóls í kirkjunni, því að lýsingin á því, þegar þeir Sámur sækja Hrafnkel heim og reka hann frá Aðalbóli, er allt annars eðlis. Það var heldur óvenjulegur viðburður, því að Hrafnkell var goði og stórhöfðingi, en Ögmundur enginn goðorðsmaður, þótt fyrirferðarmikill væri. En hann er heldur fálátur og minnir á Eyvind Bjarnason sem var fáskiptinn maður einsog segir í Hrafnkels sögu, en það var Hrafnkell ekki. Mér er ómögulegt að sjá að Ögmundur í Kirkjubæ sé lykillinn að honum.

En margar skýringar Hermanns Pálssonar á framkomu og tilfinningum persóna Hrafnkötlu er þó áleitið umhugsunarefni og næsta frumlegar. Hermann hittir naglann t.a.m. á höfuðið þegar hann sýnir fram á samræmi milli þess að háður er féránsdómur eftir höfðingjann (í Kirkjubæ og á Aðalbóli) "dómur þessi er svo harður, að höfðinginn (þ.e. Hrafnketill og Ögmundur) verður að heita má eignarlaus eftir". Einnig er það rétt hjá Hermanni að Svartleggja, exi Ögmundar, er "vopn að skapi Hrafnkels, enda hefur hann öxi eina vopna, er hann fer að Einari smalamanni sínum. Það kemur vel heim við skapgerð Hrafnkels, er Ögmundur biður menn sína ganga fyrst til matar og lætur þá ekki vita fyrr en síðar, hvert starf hann hefur fyrirhugað þeim þennan morgun. Þeir Hrafnkell og Ögmundur eru báðir fámálugir menn og dulir".

Þetta má til sanns vegar færa, þótt hér sé ritskýrandinn fremur að lesa útúr textanum kenningum sínum í hag en að þetta sé beinlínis sagt með þeim hætti í sögunni sem fullyrt er.

Sú tilgáta Hermanns Pálssonar, að Oddur Þórarinsson gangi ljósum logum í Hrafnkels sögu einsog honum er lýst af venjulegri snilld Sturlu Þórðarsonar í Íslendinga sögu, eru ævintýralegar vangaveltur og harla langsóttar, einsog dæmin sem Hermann tekur sýna raunar og sanna. Dæmin sem hann tilfærir eru of almenn til að vera eftirminnileg. Hitt þykir mér öllu merkilegra þegar hann bendir á að hlutverk griðkonunnar sem er sendiboði Hrafnketils er sótt í Droplaugarsona sögu. Þessi önnur kvenpersóna Hrafnkötlu er ekki einu sinni hugarfóstur höfundar! Þá er einungis hin griðkonan eftir hjá þessum kvenmannslausa höfundi, sem þætti víst ekki merkilegur í jafnréttisbaráttu okkar tíma.

Þá er hitt og harla athyglisvert þegar Hermann Pálsson sýnir fram á skyldleika milli þess er Hrafnkell hafnar goðum og orða Alexanders í sögu hans: "Ég hygg það hégóma að trúa á goð," sagði Hrafnkell, en Alexander segir: "Mikill hégómi, segir hann, að trúa slíku."

Þessar setningar benda eindregið til sömu ættar; að þarna sé einn og sami höfundur á ferð, Brandur ábóti.

M.