SAMGÖNGUBÓT EÐA NÁTTÚRUSPJÖLL Á VATNAHEIÐI? Frummatsskýrsla á umhverfisáhrifum vegar númer 56 yfir Vatnaheiði á Snæfellsnesi hefur verið lögð fram og samkvæmt venjubundnu ferli slíkra mála hefur Náttúruvernd ríkisins sent Skipulagsstofnun ríkisins umsögn s
VERK:: SAFN'SDGREIN DAGS.:: 990530 \: SLÖGG:: vegur a vatnaheiði STOFNANDI:: GUDM \: \: ÁFORM UM VEG Á SNÆFELLSNESI VALDA DEILUM

SAMGÖNGUBÓT EÐA

NÁTTÚRUSPJÖLL Á VATNAHEIÐI?

Frummatsskýrsla á umhverfisáhrifum vegar númer 56 yfir Vatnaheiði á Snæfellsnesi hefur verið lögð fram og samkvæmt venjubundnu ferli slíkra mála hefur Náttúruvernd ríkisins sent Skipulagsstofnun ríkisins umsögn sína um matið. VSÓ Ráðgjöf vann frummatið fyrir Vegagerðina í mars á þessu ári. Athugasemdir Náttúruverndar ríkisins benda til þess að þetta mál verði talsvert til umræðu á næstunni. Guðmundur Guðjónsson gluggaði í frummatið og athugasemdir Náttúruverndar, og ræddi við ýmsa aðila sem tengjast svæðinu á ýmsan hátt.

ÁÐUR en við lítum á umsagnir í frummatsskýrslunni og athugasemdalista Náttúruverndar ríkisins skulum við kanna hvernig Vatnaheiði er lýst í Árbók Ferðafélags Íslands, "Snæfellsnes norðan fjalla" frá árinu 1986: "Um fjallaskarð þetta, sem ýmist var nefnt Vatnaheiði, Vatnsskarð, Vatnamýri eða Vatnsheiði, var lengi alfararleið úr Hraunsfirði suður í Miklaholtshrepp og Staðarsveit. Þetta er breiðasta og lægsta skarðið í Snæfellsnesfjallgarði og á fyrstu áratugum flugferða hér á landi lá um það aðalflugleiðin til Vestfjarða frá Reykjavík. Þarna eru allmikil heiðarlönd, að mestu blásnir sandar austan til, en gróðursæl afréttarlönd vestan til, sem eru notuð af bændum beggja vegna fjallgarðsins. Tvö stór og góð silungsvötn setja mjög svip á landslagið þarna, Hraunsfjarðarvatn (207m), sem nefnt er Hjarðarvatn í Eyrbyggja sögu, og Baulárvallavatn (191m) nokkru sunnar. Þau hafa bæði afrennsli suður af, Vatnaá rennur úr Hraunsfjarðarvatni suður í Baulárvallavatn og þaðan rennur Straumfjarðará niður Dufgusdal til sjávar á sunnanverðu Snæfellsnesi."

Fjórði fjallvegurinn

Fyrir eru þrír fjallvegir yfir Snæfellsnes, Fróðárheiði, Kerlingarskarð og Heydalsvegur. Þeir henta afar misvel fyrir byggðarlögin eins og gefur að skilja, en allir eiga þeir til að lokast í vetrarveðrum og raunar er lítt treystandi á Fróðárheiði að vetri til. Þá eru aðeins tveir eftir og hefur Kerlingarskarð löngum haft á sér orð fyrir illviðri og vart líður sá vetur að ekki þurfi að koma fólki þar til aðstoðar. Því er fjórði fjallvegurinn yfir nesið kominn í umræðuna.

Vegagerðin áformar nú að leggja 16,5 kílómetra langan veg um Vatnaheiði. Um er að ræða 6,5 metra breiðan veg í vegflokki C2. Áformað er að hefja framkvæmdir í byrjun næsta árs og skal vegagerð vera lokið að fullu árið 2002. Áætlað er að verkið allt muni kosta um 460 milljónir króna og er markmiðið með nýju vegstæði að bæta samgöngur og auka umferðaröryggi. Framkvæmdin samræmist stefnu sveitarstjórna á Vesturlandi varðandi uppbyggingu vegakerfisins, sem talin er eitt brýnasta hagsmunamál byggðarlaganna á Snæfellsnesi.

Sem fyrr segir vann VSÓ Ráðgjöf frummat fyrir Vegagerðina og verða nú helstu niðurstöður matsins raktar:

­ Nýr vegur um Vatnaheiði mun auka umferðaröryggi og bæta samgöngur. Útreikningar á umferðaröryggi benda til þess að vegur yfir Vatnaheiði verði a.m.k. 50% öruggari en endurbættur Kerlingarskarðsvegur og því umtalsvert öruggari en núverandi vegur. Hönnun og lega vegarins mun jafnframt bæta samgöngur og verður hönnunarhraði nýs vegar 90 km/klst. Auk þess benda athuganir á veðurfari til þess að það valdi minni röskun á samgöngum á vegi yfir Vatnaheiði en á vegi yfir Kerlingarskarð.

Fyrirhuguð veglína er yfirleitt vel gróin. Suðurhluti hennar er nær algróinn en gróðurhulan er gisnari á norðurhlutanum, sem er þurrari og meira áveðurs. Vegurinn mun eyða þeim gróðri sem fer undir vegstæðið, en með lagningu fljótandi vegar verður ekki breyting á grunnvatnsstöðu eða -streymi. Vegurinn mun ekki útrýma sjaldgæfum tegundum, en hann mun skerða vaxtarsvæði Skollakambs.

Vandað verður til við frágang efnistökustaða og þeir aðlagaðir landslagi, sama á við um vegkanta. Uppgræðsla með grenndargróðri verður í samráði við Náttúruvernd ríkisins.

Fuglalíf á fyrirhuguðu vegstæði er töluvert og þéttleiki mófugla meiri en á mörgum sambærilegum svæðum. Á svæðinu er ekki að finna sjaldgæfa fugla. Búsvæði fugla sem eru á vegstæðinu munu eyðileggjast en það eru búsvæði fugla sem eru algengir á landsvísu og verður þeim ekki útrýmt á svæðinu.

Við Straumfjarðará er mesta straumandarþéttbýli á Snæfellsnesi og verður framkvæmdum hagað í samráði við Náttúruvernd ríkisins á þann hátt að ekki verði raskað varpi straumanda við Straumfjarðará.

Framkvæmdir munu ekki raska fornminjum.

Fyrirhugaður vegur mun fara um jaðar svæðis sem er á Náttúruminjaskrá, en hann mun ekki raska þeim jarðfræðiminjum sem taldar eru hafa mest verndargildi. Vegurinn mun skera vikurruðninga, sem eru fyrir ofan Selvallavatn, en reynt verður að draga sem kostur er úr raski á þeim.

Landslag í nágrenni fyrirhugaðs vegstæðis er fallegt og margbreytilegt. Vegurinn mun breyta ásýnd svæðisins, þar sem farið er yfir tiltölulega óraskað land. Landslagsheildin mun breytast en landslagsformin munu halda sér óbreytt sem áður.

Erfitt er að spá um áhrif á útivist á svæðinu. Margir nýta sér möguleikana til veiða í Selvallavatni og Baulárvallavatni, auk þess sem tjaldað er við Selvallavatn. Vegur um Vatnaheiðina mun auðvelda aðgang að svæðinu og opna það frekar fyrir útivist. Fyrirhugaðar framkvæmdir munu ekki hafa áhrif á lífríki straumvatna. Gerðar verða ráðstafanir til þess að tengja reiðleiðir milli norðanverðs og sunnanverðs Snæfellsness og er þá m.a. gert ráð fyrir að nýta veginn um Kerlingarskarð sem reið- og gönguleið."

Önnur sjónarmið

Árni Bragason forstjóri Náttúruverndar ríkisins sagði í samtali við Morgunblaðið að málið væri nú í eðlilegum lögbundnum farvegi, verkið hefði verið auglýst og margir látið athugasemdir sínar í ljós. Næsta skrefið væri að Skipulagsstjóri færi yfir gögn málsins og sendi frá sér úrskurð. Sá úrskurður er kæranlegur til ráðherra og væru til dæmi um að ráðherra hefði fellt slíkan úrskurð úr gildi. Það væri því ljóst að enn ætti þetta mál eftir að vera í umræðunni þar sem þó nokkrir aðilar myndu kæra úrskurðinn hvernig sem hann félli.

Árni sagði að Náttúruvernd ríkisins hefði farið yfir gögnin í málinu og sent athugasemdir sínar til Skipulagsstofnunar. Náttúruvernd ríkisins leggst gegn hugmyndum um veg yfir Vatnaheiði og í athugasemdum stofnunarinnar eru helstu ástæðurnar tíundaðar: ­ Samtökin leggjast alfarið gegn hugmyndum um nýjan veg yfir Vatnaheiði. Hið fyrirhugaða vegarstæði er eitt stærsta ósnortna náttúrusvæði á Snæfellsnesi. Um er að ræða gróskumikið votlendi, sem er að hluta á náttúruminjaskrá, prýtt fágætum og einstaklega fögrum jarðmyndunum (Berserkjahraun og gígarnir Grákúla og Rauðkúla). Umrætt svæði er nú vinsælt útivistarsvæði.

Mikilvægi þess að hlífa náttúrugæðum sem þessum eykst stöðugt. Slík náttúrugæði verða jafnan ekki endurheimt heldur eyðilögð um alla framtíð sé hróflað við þeim með meiriháttar mannvirkjagerð, jarðefnavinnslu og umbroti á landi.

Samtökin gagnrýna, að náttúru- og útivistargildi svæðisins er stórlega vanmetið í frummatsskýrslunni. Vegagerð þar stríðir bæði gegn ákvæðum nýrra náttúruverndarlaga um sérstaka vernd landslagsgerða, sem eru einkennandi fyrir Ísland, og skuldbindingum Íslands gagnvart sáttmála Sameinuðu þjóðanna um líffræðilega fjölbreytni (7. grein) sem samþykktur var í Ríó 1992. Þá telur Náttúruvernd ríkisins að meintur vegtæknilegur ávinningur sé umdeilanlegur, enda skorti rannsóknir þar að lútandi.

Náttúruvernd ríkisins telur endurbætur á núverandi leið um Kerlingarskarð (Kostur B) mun vænlegri kost. Þó ber að huga að útfærslu þeirrar leiðar. Einkanlega að norðanverðu þar sem samgönguvandamálin eru. Stofnunin telur óviðunandi að fórna náttúrugæðum Vatnsheiðar og Berserkjahrauns vegna farartálma sem upp kemur endrum og sinnum á mjög takmörkuðum vegkafla að vetrarlagi."

Sé litið ögn nánar á samantekt Náttúruverndar ríkisins kemur í ljós að á svæðinu sem um ræðir hafi fundist m.a. tvær sjaldgæfar háplöntutegundir, sóldögg og burkninn skollakambur og athyglisverða mosaflóru sé einnig að finna í votlendi á jörðinni Dal og þar vaxi m.a. tvær sjaldgæfar tegundir, flekkulápur og hómosi. Þessar tegundir þola alls ekki að mýrin sé þurrkuð. Þá vitna athugasemdirnar í það álit sérfræðinga Náttúrufræðistofnunar að straumandarvarpið við ofanverða Straumfjarðará gæti raskast við aukna umferð um svæðið.

Varðandi votlendið segir eftirfarandi í bréfi Náttúruverndar ríkisins: ­ Í frummatsskýrslunni kemur m.a. fram að gert er ráð fyrir að lagður verði fljótandi vegur yfir votlendissvæðin á Vatnaheiði. Votlendinu í nágrenni vegar verði því ekki raskað né votlendisjarðvegi undir veginum. Náttúruvernd ríkisins telur að forðast eigi að leggja vegi yfir óraskað votlendi enda hefur gengið mjög á mýrlendi á þessari öld vegna framræslu. Nauðsynlegt er að vernda það sem eftir er ósnert, m.a. vegna fuglalífs. Þá er röskun á votlendi ekki í samræmi við stefnu yfirvalda en í riti umhverfisráðuneytis, "Sjálfbær þróun í íslensku samfélagi ­ Framkvæmdaáætlun til aldamóta", segir m.a. um ástand umhverfismála á Íslandi: "Fá óspillt votlendissvæði á láglendi eru eftir á Íslandi og nauðsynlegt er að varðveita þau og önnur innlend vistkerfi gegn röskun og endurheimta þau eftir því sem kostur er."

Síðar stendur þetta: ­ Að mati Náttúruverndar ríkisins er fyrirhuguð lagning vegar yfir votlendi á Vatnaheiði í ósamræmi við stefnu yfirvalda hvað varðar verndun votlendis. Jafnframt er slík vegarlagning í ósamræmi við nýsamþykkt lög nr. 44/1999 um náttúruvernd sem taka gildi 1.júlí nk. en samkvæmt 37. grein þeirra laga skulu mýrar og flóar, 3 hektarar að stærð eða stærri, njóta sérstakrar verndar og skal forðast röskun þeirra eins og kostur er. Þá má benda á að í greinargerð Náttúrufræðistofnunar Íslands kemur fram að votlendið á Mýrum og Vesturlandi er gróskumikið og tegundaauðugt og hefur mikið gildi á landsvísu og eru mýrarnar á Vatnaheiðarleið hluti af því. Samkvæmt frummatsskýrslu er fyrirhugað að leggja fljótandi veg yfir mýrlendið. Náttúruvernd ríkisins bendir á að hér á landi hafa ekki farið fram rannsóknir á áhrifum slíkrar vegalagningar á votlendi, t.d. hvort breytingar verði á gróðri í nágrenni vegarins. Því eru í raun engin gögn fyrir hendi sem styðja þær fullyrðingar að lagning fljótandi vegar hafi ekki neikvæð áhrif á vatnsbúskap og gróður í votlendi."

Og varðandi veðurfar segir m.a.: ­ Náttúruvernd ríkisins telur að miðað við þau gögn sem lögð eru fram í frummatsskýrslu hafi ekki verið sýnt fram á svo óyggjandi sé að vegur yfir Vatnaheiði sé mun betri kostur í veðurfarslegu tilliti en vegur yfir Kerlingarskarð. Í því sambandi má einnig benda á að veðurmælingar á Vatnaheiði hafa staðið mjög stutt yfir en fyrsta veðurstöðin var sett upp á Vatnaheiðarleið 18.desember 1998. Kemur fram í frummatsskýrslu að athygli veki hve mikill munur er á tíðni ófærðar eftir árum og sýni það mikilvægi þess að hafa sem flest ár til grundvallar við könnun á veðurfari af þessu tagi. Þá vekur Náttúruvernd ríkisins athygli á að gróður á Vatnaheiði bendir eindregið til þess að um snjóþungt svæði sé að ræða og er það í samræmi við heimildir um mikla snjósöfnun í Dufgusdal. Þrátt fyrir þessar vísbendingar hafa ekki farið fram mælingar á snjóalögum á svæðinu."

Morgunblaðið/Náttúruvernd ríkisins

NORÐARLEGA á vegstæðinu. Það sér til Breiðafjarðar og framundan eru Rauða- og Gráakúla. Framundan er einnig Bjarnarhafnarfjall.

í VOTLENDI Vatnaheiðar, Straumfjarðará t.v. Stikur Vegagerðarinnar greinilegar til hægri við göngufólkið.

Auk þess benda athuganir á veðurfari til þess að það valdi minni röskun á samgöngum á vegi yfir Vatnaheiði en á vegi yfir Kerlingarskarð

Náttúruvernd ríkisins telur að miðað við þau gögn sem lögð eru fram í frummatsskýrslu hafi ekki verið sýnt fram á svo óyggjandi sé að vegur yfir Vatnaheiði sé mun betri kostur í veðurfarslegu tilliti en vegur yfir Kerlingarskarð