Krútsjov gerist bandarískur Washington. The Daily Telegraph. SERGEJ Krútsjov, sonur Nikíta Krútsjovs, fyrrum leiðtoga Sovétríkjanna, hefur greint frá því að hann hyggist gerast bandarískur ríkisborgari. Sergei er 63 ára og á sínum tíma tók hann þátt í að hanna kjarnaodda sem beint var að því landi sem hann hefur nú ákveðið að gera að heimalandi sínu.
Krútsjov gerist bandarískur

Washington. The Daily Telegraph.

SERGEJ Krútsjov, sonur Nikíta Krútsjovs, fyrrum leiðtoga Sovétríkjanna, hefur greint frá því að hann hyggist gerast bandarískur ríkisborgari. Sergei er 63 ára og á sínum tíma tók hann þátt í að hanna kjarnaodda sem beint var að því landi sem hann hefur nú ákveðið að gera að heimalandi sínu.

Sergej kvaðst hafa tekið þá ákvörðun, að setjast að í Bandaríkjunum, vegna þess að honum finnist hann "eins og heima hjá sér" í borginni Providence í Rhode Island-ríki, sem er á norðausturströnd Bandaríkjanna. Hann er þess fyllilega meðvitaður að þessi ákvörðun hefði valdið föður hans miklu hugarangri, því Nikíta leit á Bandaríkin sem versta óvin þjóðar sinnar.

"Loftslagið hér er mjög svipað og í Úkraínu, þar sem ég og kona mín ólumst upp," sagði Sergei um Rhode Island, þar sem hjónin hafa átt heima undanfarin átta ár. "Þetta þýðir ekki að ég sé ekki lengur Rússi. Ég get farið heim hvenær sem ég vil, og synir mínir þrír og þrjú barnabörn eiga enn heima í Moskvu."

Sergej viðurkenndi að þessi ákvörðun sín væri skýrt merki um breytta heimsmynd. "En ákvörðun barna minna um að búa áfram í Rússlandi, vegna þess að þar vilja þau vera, er einnig markverð." Hann hyggst halda áfram að gegna lektorsstöðu við utanríkismáladeild Brown- háskóla.