BORGARFJÖRÐUR EYSTRI er líklega þekktastur fyrir steiniðju og fjölbreyttar stein- og bergtegundir ef marka má könnun Félagsvísindastofnunar sem gerð var árið 1993. Þar kom í ljós að langflestir aðspurðra, eða 27%, sögðu að þeim dytti Álfasteinn, steinar og fleira í þeim dúr í hug þegar það heyrði Borgarfjörð eystri nefndan.

Álfasteinar

í Borgarfirði

BORGARFJÖRÐUR EYSTRI er líklega þekktastur fyrir steiniðju og fjölbreyttar stein- og bergtegundir ef marka má könnun Félagsvísindastofnunar sem gerð var árið 1993. Þar kom í ljós að langflestir aðspurðra, eða 27%, sögðu að þeim dytti Álfasteinn, steinar og fleira í þeim dúr í hug þegar það heyrði Borgarfjörð eystri nefndan.

Fyrir ókunnuga hljómar þetta undarlega, en Álfasteinn er annað tveggja stærstu fyrirtækjanna sem rekin eru á Borgarfirði eystri, hitt er fiskverkun. Álfasteinn er steiniðja sem býr til muni úr borgfirskum steinum og bergtegundum. Fyrirtækið rekur verslun og mikið safn af steinum sem finnast á svæðinu. Er þar meðal annars til sýnis fágætur geislasteinn, mordinit, sem jafnframt er sá stærsti sem fundist hefur hér á landi. Við innganginn í Álfasteini er einnig einn stærsti jaspíssteinn sem fundist hefur á landinu, 2.250 kíló að þyngd. Árlega koma hátt í 10 þúsund ferðamenn á Borgarfjörð og vel yfir 90% þeirra koma við í Álfasteini en auk þess að vera með verslun rekur Álfasteinn upplýsingamiðstöð ferðamanna á svæðinu.

Helsta auðlind svæðisins nýtt

Það er semsagt ómögulegt að koma við á Borgarfirði eystri án þess að taka eftir Álfasteini, en nafn fyrirtækisins er einnig í sterkum tengslum við menningu svæðisins, sem byggir að miklu leyti á álfasögum og álfamenningu. Á Borgarfirði er urmull af álfasteinum, sem álfar og huldufólk hafa búið í öldum saman. Best þekkt er e.t.v. Álfaborgin, stór klettaborg sem stendur við þorpið, en hún er sögð vera höfuðstöðvar álfa á Austurlandi.

Fyrirtækið Álfasteinn ehf. var stofnað árið 1981. Að sögn Helga Magnúsar Arngrímssonar, fram kvæmdastjóra Álfasteins var ákveðinn aðdragandi að stofnun fyrirtækisins, sem hófst með byggðaþróunaráætlun árið 1979. Upp kom sú hugmynd að nýta þann fjölbreytileika sem finnst í borgfirskum grjót- og bergtegundum. "Svæðið var þegar þekkt fyrir fjölbreytilegar grjót og bergtegundir. Þarna var vannýtt auðlind þangað til Álfasteinn kom til sögunnar," segir Helgi, en fyrirtækið var það fyrsta á landinu sem fór út í framleiðslu af þessu tagi.

Farið var út í töluverða fjárfestingu þegar tæki til þess að vinna grjótið voru keypt. Upphaflega var framleiðslan nokkuð einhæf en í dag eru vörutegundir orðnar yfir 100. Auk þess er um helmingur framleiðslunnar ýmiskonar sérunnir hlutir með texta og myndum að óskum kaupenda. Einnig eru framleiddir legsteinar úr norskum steinum.

Helmut Kohl á stein frá Álfasteini

Úrvalið af handverki og gjafavöru í Álfasteini er gífurlegt. Þar má finna vörur til borðhalds eins og mokkabollasett, glasamottur, teketilsstand, salt- og piparstauka, ostaskera og upptakara. Allar þess ar vörur eru unnar úr íslenskum steinum, tegundum eins og líparíti, basalti, granofir og gabbro. Þá er einnig hægt að finna pennastatíf, bindisnælu, leslampa, skartgripi, skápahöldur og borðklukkur en síðastnefnda varan er ein best þekkta afurð fyrirtækisins.

Álfasteinn hefur frá því um miðjan níunda áratuginn selt framleiðslu sína til gjafavöruverslana um allt land. Stærsti markaðurinn er að sögn Helga í Reykjavík en einnig hefur verið selt lítilsháttar til Færeyja. Fyrirtækið hefur hlotið alþjóðlegar og íslenskar viðurkenningar fyrir hönnun og framleiðslu. Álfasteinn framleiðir m.a. salt- og piparstauka sem hannaðir voru af Pálma Einarssyni, iðnhönnuði, en þeir hlutu hönnunarverðlaun Handverks árið 1994. Einnig borðsett hannað af Bryndísi Snjólfsdóttur sem hlaut hönnunarverðlaun á sýningunni Drekinn árið 1995. Þá hlutu tréumbúðir sem fyrirtækið notar utan um hluta framleiðslunnar, norrænu umbúðarverðlaunin Scanstar árið 1992 og í kjölfarið á því Worldstar 1992 og eru það einu íslensku umbúðirnar sem fengið hafa þau verðlaun. Umbúðirnar voru hannaðar af Jón Þórissyni, leikmyndahönnuði. Einnig má geta þess að Davíð Oddsson forsætisráðherra færði þáverandi kanslara Þýskalands, Helmut Kohl stein að gjöf í heimsókn sinni þangað í fyrra og var sá steinn sagaður og slípaður í Álfasteini.

Þegar komið er til Borgarfjarðar er vænlegast að hefja ferðina um þorpið og nágrenni í Álfasteini, þar sem unnt er að nálgast kort af svæðinu og aðrar upplýsingar. Þar er upplýsingamiðstöð ferðamanna staðsett og starfsfólk verslunarinnar reynir að leiðbeina ferðafólki. Þá hafa Helgi og kona hans Bryndís Snjólfsdóttir skipulagt gönguferðir um Víknaslóðir í sumar en Ferðamálahópur Borgarfjarðar hefur staðið fyrir merkingu fjölda gönguleiða og útgáfu vandaðs göngukorts af svæðinu. Um Álfastein og gönguleiðirnar má fá góðar upplýsingar á heimasíðu Álfasteins www.alfasteinn.is.Morgunblaðið/RAX HELGI Magnús Arngrímsson, framkvæmdastjóri Álfasteins og Bryndís Snjólfsdóttir eiginkona hans, starfsmaður verslunarinnar og hönnuður, innan um fjölbreytt úrval í versluninni.

MOKKABOLLASETT úr líparíti, eggjabikarasett einnig úr líparíti og borðlampi úr basalti eru meðal þess sem Álfasteinn framleiðir.