ÞRÍR vinnufélagar, Alfreð Þórðarson, 30 ára verkfræðingur, Birgir Finnsson, 33 ára tölvunarfræðingur og Þorbjörn Njálsson, 27 ára kerfisfræðingur, unnu fyrstu verðlaun í samkeppninni Nýsköpun '99. Þeir hafa þegar stofnað fyrirtækið Lux Inflecta og ætla að ráða starfsfólk og koma
Áttatíu og tvær viðskiptaáætlanir bárust í samkeppnina Nýsköpun '99, sem Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins, Viðskiptaháskólinn í Reykjavík, KPMG Endurskoðun hf. og Morgunblaðið stóðu í sameiningu að. Ragnhildur Sverrisdóttir ræddi við sigurvegarana í samkeppninni, þrjá forritara sem stofnuðu fyrirtækið Lux Inflecta, og konurnar sem hlutu önnur verðlaun fyrir áætlun sína um markaðssetningu Spaksmannsspjara erlendis.

Létu drauminn um

eigið fyrirtæki rætast

ÞRÍR vinnufélagar, Alfreð Þórðarson, 30 ára verkfræðingur, Birgir Finnsson, 33 ára tölvunarfræðingur og Þorbjörn Njálsson, 27 ára kerfisfræðingur, unnu fyrstu verðlaun í samkeppninni Nýsköpun '99. Þeir hafa þegar stofnað fyrirtækið Lux Inflecta og ætla að ráða starfsfólk og koma rekstri fyrirtækisins á fullan skrið í sumar. Þeir segja auðvitað nokkra áhættu fylgja því að segja upp góðum störfum og reyna fyrir sér á eigin spýtur, en þeir hafi allir ákveðið að "stökkva fram af brúninni" eins og þeir orða það. Þeir hafa mikla trú á verkefninu og benda á að tölvuheimurinn leyfi mönnum ekki að hugsa sig um svo mánuðum eða árum skipti. Það var því nú eða aldrei.

Alfreð, Birgir og Þorbjörn störfuðu allir hjá hugbúnaðarfyrirtækinu Streng hf.. Alfreð hóf störf þar árið 1992 og vann við Java-forritun frá 1995. Birgir hóf störf þar um svipað leyti og Þorbjörn bættist síðar í hópinn. Þremenningarnir unnu meðal annars að gerð dreifðs rauntíma-upplýsingakerfis fyrir fjármálaheiminn. Þeir höfðu velt því fyrir sér um tíma hvort þeir ættu að láta drauminn um eigið fyrirtæki rætast og þegar samkeppnin Nýsköpun '99 var auglýst létu þeir verða af því að semja viðskiptaáætlun fyrir Lux Inflecta, sem ætlunin er að þrói og markaðssetji þróunarverkfærið Giza sem einfaldar verklag við dreifða netforritun í Java.

"Keppnin var kærkomið tækifæri til að láta verða af þessu," segir Þorbjörn. "Við höfðum velt stofnun fyrirtækis fyrir okkur hver í sínu horni, en samkeppnin gaf okkur ákveðinn frest, auk þess sem við fengum tækifæri til að sitja námskeið og fá aðra hjálp við gerð áætlunarinnar."

Birgir segir að síðari hluta febrúar hafi þeir félagar hafið gerð viðskiptaáætlunarinnar fyrir alvöru og unnið að henni allar helgar og kvöld. "Og nætur," bætir Alfreð við. Hann segir að sigurinn skipti þá miklu máli. "Ekki bara vegna þess að við unnum milljón, heldur ekki síður vegna þessarar leiðsagnar sem KPMG Enduskoðun hf. og Viðskiptaháskólanum veita í heilt ár."

Þorbjörn tekur undir þetta. "Við erum allir tæknimenn og höfum ekki næga þekkingu á þeirri markaðsvinnu, sem þarf að leysa af hendi."

Sveigjanleiki og traust

Merki fyrirtækisins Lux Inflecta er píramídi og ljósbogi. "Lux Inflecta er latína og þýðir í raun ljósbogi," segja þeir. "Ljósboginn vísar til sveigjanleika og nýrrar hugsunar, en píramídinn til einfaldleika og trausts. Þannig á Giza verkfærið að vera, einfalt og traust en þó sveigjanlegt."

Giza er umhverfi til netforritunar, sem þremenningarnir segja að alls ekki megi rugla saman við vefforritun. "Þetta er verkfæri fyrir forritara og umsjónarmenn tölvukerfa, en ekki almenning," segir Alfreð. "Giza gerir forriturum kleift að dreifa vinnslu tölvukerfa þannig að afkastageta þeirra og mögulegur notendafjöldi aukist til muna. Þar að auki mun Giza stytta þann tíma, sem það tekur að skrifa tölvukerfi, mjög mikið. Java er sú tækni sem liggur að baki Giza, en Java er ekki nema fjögurra ára. Fyrirtæki sem framleiða þróunarverkfæri hafa hingað til, með misgóðum árangri, reynt að sníða verkfæri sín að Java og dreifðri vinnslu. Lux Inflecta sér verkefnið hins vegar frá nýjum sjónarhóli og nýtir því innbyggða eiginleika Java og dreifðrar vinnslu til hins ítrasta."

Þorbjörn segir að þetta verði þó aðeins fyrsta verkefni fyrirtækisins og þegar það verði komið vel á veg taki örugglega fleiri verkefni við.

Birgir segir verkefnin óþrjótandi og bendir meðal annars á að Netið sé í sífelldri þróun. "Við sjáum enn sem komið er bara toppinn á ísjakanum. Netið á eftir að verða enn öflugra en það er nú og við viljum gjarnan vera einu skrefi á undan, svo við verðum reiðubúnir þegar önnur og þróaðri útgáfa Netsins tekur við."

80 milljóna þróunarkostnaður

Þorbjörn segir að Lux Inflecta þurfi 80 milljónir króna til að þróa Giza. "Markaðurinn sem Giza sækir á er metinn í hundruðum milljarða króna og slíkur markaður rúmar marga. Markaðurinn hefur virkilega þörf fyrir nýstárleg verkfæri vegna nýrra krafna. Með lækkun verðs vélbúnaðar verður dreifð vinnsla mikilvægari og alltaf eykst krafan um styttri hönnunartíma."

Alfreð segir að ýmsir aðilar hafi lýst áhuga á að leggja fram fé til fyrirtækisins, eftir að úrslit Nýsköpunar '99 lágu fyrir. "Við sendum eintak af viðskiptaáætlun okkar til Nýsköpunarsjóðs og stjórn sjóðsins samþykkti hlutafjárframlag á föstudag. Stuðningur sjóðsins skiptir okkur mjög miklu máli og verður áreiðanlega öðrum fjárfestum hvatning, þótt nú þegar séu nokkrir aðilar áhugasamir, bæði hér á landi og erlendis."

Bæta hver annan upp

"Íslenski markaðurinn er mjög lítill og þess vegna horfum við fyrst og fremst til útlanda," segir Þorbjörn. "Það skiptir í raun engu máli hvar í heiminum unnið er að þróunarvinnunni og við þurfum engin flutningaskip eða vörubíla til að koma þessari vöru á framfæri erlendis. Það getur þó vel hugsast að við flytjum okkur út. Tölvuheimurinn er alþjóðlegur."

Alfreð tekur undir að þróunarvinnan geti farið fram hér á landi, en sala og markaðssókn þurfi af eðlilegum ástæðum að hafa höfuðstöðvar erlendis.

Þrátt fyrir að Alfreð sé verkfræðingur, Birgir tölvunarfræðingur og Þorbjörn kerfisfræðingur hafa félagarnir allir svipaða reynslu í forritun. "Við bætum hver annan upp," segja þeir. "Áhugasvið okkar eru misjöfn og þannig náum við að spanna víðara svið en ella."

Skilningsríkar fjölskyldur

Þeir hlakka greinilega til að koma fyrirtækinu á rekspöl. "Það fylgir því alltaf ákveðin stöðnun að vera lengi í sama starfi og nú fáum við tækifæri til að skapa, gera það sem okkur langar til," segir Þorbjörn.

Birgir segir að þetta verði enginn leikur og þeir þurfi að leggja hart að sér hér eftir sem hingað til. "Við eigum allir skilningsríkar fjölskyldur," segir hann og vísar sjálfur til sambýliskonu og þriggja barna á aldrinum 14 mánaða til 10 ára.

Alfreð, kvæntur og faðir 6 ára telpu, tekur undir þetta og ekki dregur Þorbjörn, kvæntur og faðir 3 og 5 ára barna, þar úr. "Konurnar okkar hafa sýnt okkur ótrúlegt umburðarlyndi," segja þeir. "Við vitum að margir eiga sér drauma um að verða sjálfs sín herrar og við hvetjum þá til að láta þá drauma rætast, en ekki láta aðra draga úr sér kjarkinn. Við heyrðum margar úrtöluraddir, fólk taldi fánýtt að eyða tímanum í þetta. En við trúðum á sjálfa okkur. Auðvitað þurfa menn að geta hlustað á uppbyggilega gagnrýni. Það gerðum við og héldum svo áfram."

Morgunblaðið/Árni Sæberg FÉLAGARNIR Þorbjörn Njálsson, Alfreð Þórðarson og Birgir Finnsson, eigendur fyrirtækisins Lux Inflecta.