FYRIRTÆKIÐ Spaksmannsspjarir tók til starfa í 25 fermetra húsnæði við Skólavörðustíg fyrir sex árum. Nú reka hönnuðirnir Björg Ingadóttir og Valgerður Torfadóttir fyrirtæki sitt í stóru húsnæði við Þingholtsstræti 5.
Með íslenskar spjarir á erlendan markað

FYRIRTÆKIÐ Spaksmannsspjarir tók til starfa í 25 fermetra húsnæði við Skólavörðustíg fyrir sex árum. Nú reka hönnuðirnir Björg Ingadóttir og Valgerður Torfadóttir fyrirtæki sitt í stóru húsnæði við Þingholtsstræti 5. Ef viðskiptaáætlun fjórmenninganna Auðar Bjarkar Guðmundsdóttur fjölmiðlafræðings, Eddu Bjarkar Guðmundsdóttur viðskiptafræðings, Höllu Tómasdóttur alþjóðaviðskiptafræðings og Söru Lindar Þorsteinsdóttur fjölmiðlafræðings gengur eftir verður fljótlega opnuð verslun í Kaupmannahöfn og síðar í London, New York, París og Tókýó. Viðskiptaáætlunin hlaut 2. verðlaun í samkeppninni Nýsköpun '99.

"Við byrjuðum smátt og öll vinna var í okkar höndum," segja Björg, 36 ára, og Valgerður, 43 ára, sem stofnuðu fyrirtækið á sínum tíma með Evu Vilhelmsdóttur, en eiga það núna tvær. "Við höfum alltaf selt vöru okkar í eigin verslun. Við hönnum fötin og saumastofan Sjö í höggi vinnur allar prufur fyrir okkur, viðgerðir og breytingar á fatnaði. Saumastofan er verktaki hjá okkur og vinnur forvinnu fyrir aðrar saumastofur. Það er erfitt og óhagkvæmt að skipta við svo margar smáar einingar, sem voru um tíma tólf talsins, en á móti kemur að fatnaðurinn í versluninni á hverjum tíma verður fjölbreyttari, sem kemur viðskiptavinum til góða."

Til að mæta þessari óhagkvæmni hafa Spaksmannsspjarir þegar fært sig út fyrir landsteinana. "Við erum farnar að skipta við saumastofu í Slóveníu, en ársframleiðslan okkar er eins og dropi í haf þeirra."

Tilbúnar til útflutnings

Valgerður segir að Spaksmannsspjarir séu núna tilbúnar til útflutnings. "Á síðasta ári vorum við að flytja í stærra húsnæði, en við höfum lengi velt fyrir okkur að færa út kvíarnar, enda fáum við margar fyrirspurnir frá útlöndum. Við kynntum til dæmis hönnun okkar á sýningu í Bella Center í Kaupmannahöfn í febrúar og fengum mjög góðar viðtökur og höfum einnig fengið fyrirspurnir frá verslun innan Neiman Marcus keðjunnar í Bandaríkjunum, svo dæmi séu nefnd."

Björg segir það kost að fyrirtækið hafi stækkað jafnt og þétt. "Við höfum alltaf haft alla þræði í hendi okkar og getað hagað rekstrinum eftir aðstæðum hverju sinni. Við Valgerður höfum unnið svo lengi saman að við erum búnar að móta ákveðinn grunn í hönnun okkar sem við byggjum báðar á. Þess vegna er eðlilegt flæði í hönnun okkar, hún tekur breytingum eftir tískustefnu hvers tíma, en er alltaf í rökréttu samhengi. Viðskiptaáætlunin gerir líka ráð fyrir herrafatalínu, sem við erum þegar farnar að þreifa okkur áfram með, unglingalínu, skóm og fleiru. Við gerum ráð fyrir að halda áfram allri hönnun og vöruþróun hér á landi, enda eru viðskiptavinir okkar mjög opnir fyrir nýjungum og því tilvalið að prófa vöruna fyrst á íslenskum markaði."

Viðskiptavinirnir gerðu áætlunina

Meðal viðskiptavina Spaksmannsspjara undanfarin ár eru fjórar konur á aldrinum 30 til 32 ára, sem þekkjast frá því að þær voru samtímis í námi í Bandaríkjunum. Þær Auður Björk, Edda Björk, Halla og Sara Lind ákváðu að taka þátt í samkeppninni Nýsköpun '99 um viðskiptaáætlanir.

"Við vorum með ákveðna hugmynd, en þegar Björg og Valgerður heyrðu að við ætluðum að taka þátt í samkeppninni spurðu þær hvort við vildum ekki gera viðskiptaáætlun fyrir þeirra fyrirtæki," segja þær Edda, Halla og Sara, en Auður var erlendis þegar viðtalið var tekið. "Við vorum hrifnar af hugmyndinni og spenntar fyrir að koma íslenskri hönnun á framfæri erlendis. Niðurstaðan er í stuttu máli sú, að vara Spaksmannsspjara er kjörin til útflutnings og horfurnar eru mjög góðar, sem ætti að hvetja fjárfesta til samstarfs."

Þótt fjórmenningarnir hafi nokkuð ólíkan bakgrunn féll menntun þeirra og reynsla vel saman við gerð viðskiptaáætlunarinnar. Viðskiptafræðingurinn Edda og fjölmiðlafræðingurinn Sara starfa báðar hjá Landsbankanum, Auður fjölmiðlafræðingur hefur starf nú um mánaðamótin hjá Frjálsri fjölmiðlun og Halla alþjóðaviðskiptafræðingur starfar hjá Íslenska útvarpsfélaginu. "Gerð viðskiptaáætlunarinnar reyndist auðveld þegar við lögðumst allar á eitt."

Áhersla á eigin verslanir

Hönnuðirnir og höfundar viðskiptaáætlunarinnar eru sammála um að Spaksmannsspjarir eigi að leggja áherslu á að opna sínar eigin verslanir erlendis, undir vörumerkinu Spaksmannsspjarir, samhliða því að selja vöruna í verslanir annarra. "Ef við seljum fötin okkar bara á vörusýningum, þá getum við ekki gert neinar raunhæfar áætlanir um sölu," segja Björg og Valgerður. "Við fáum kannski mjög stóra pöntun frá einu vöruhúsi í ár, en á næsta ári er kominn nýr verslunarstjóri þar, sem vill kaupa aðra vöru. Við viljum fara sömu leið og margir aðrir hönnuðir og selja okkar eigin vöru í okkar eigin verslunum."

Fyrsta skrefið er að opna verslun í Kaupmannahöfn. Viðskiptaáætlunin gerir ráð fyrir að það verði í mars á næsta ári, en þær vilja leggja allt í sölurnar til að geta gert það fyrr, helst næsta haust svo jólaverslun Kaupmannahafnarbúa renni þeim ekki úr greipum. "Við viljum vera miðsvæðis í Kaupmannahöfn og höfum augastað á húsnæði við Kronprinsessegade, nálægt Kongens Nytorv."

Fimm verslanir á tíu árum

Til að áætlanir í Kaupmannahöfn gangi eftir þarf að lágmarki 50 milljónir króna, en þær eru allar sammála um að æskilegt sé að ná sem mestu fjármagni strax, til að geta byggt fyrirtækið upp hraðar og skilað hagnaði fyrr en ella. Áætlunin gerir ráð fyrir að opnaðar verði fimm verslanir erlendis á næstu tíu árum.

"Við erum með mjög gott viðskiptatækifæri og næsta skref er að leita eftir fagfjárfestum. Viðurkenningin, sem viðskiptaáætlunin hlaut, gerir fjármögnunina væntanlega auðveldari. Þetta er spennandi verkefni sem við hlökkum til að takast á við," segja Björg og Valgerður.

Morgunblaðið/Golli SPAKSMANNSSPJARIR færa út kvíarnar á næstunni. Frá vinstri: Valgerður Torfadóttir, Halla Tómasdóttir, Edda Björk Guðmundsdóttir og Björg Ingadóttir. Sitjandi eru Sara Lind Þorsteinsdóttir og Auður Björk Guðmundsdóttir.