"Við erum ekki sammála þessari skoðun ríkisskattstjóra og munum fylgja því eftir eins og við getum," sagði Sólon R. Sigurðsson, bankastjóri Búnaðarbanka Íslands, þegar Morgunblaðið leitaði viðbragða hans við ákvörðun Skattstjórans í Reykjavík um að skattleggja sem hlunnindi og með 25% álagi mismuninn á verði því sem starfsmenn bankans og almenningur greiddu fyrir hlutabréf í bankanum.
Bankastjóri Búnaðarbanka um skatt á hlutabréf starfsfólks

Munum fylgja þessu

eftir eins og við getum

"Við erum ekki sammála þessari skoðun ríkisskattstjóra og munum fylgja því eftir eins og við getum," sagði Sólon R. Sigurðsson, bankastjóri Búnaðarbanka Íslands, þegar Morgunblaðið leitaði viðbragða hans við ákvörðun Skattstjórans í Reykjavík um að skattleggja sem hlunnindi og með 25% álagi mismuninn á verði því sem starfsmenn bankans og almenningur greiddu fyrir hlutabréf í bankanum.

Starfsmönnum bankans var í október 1998 veittur forkaupsréttur að hlutabréfum í bankanum á verði sem svaraði til gengisins 1,26, sem var innra virði bankans um áramótin 1998. Almenningi var um sl. áramót seldur hlutur á genginu 2,15. Í dag er skráð gengi þessara bréfa á Verðbréfaþingi Íslands 3,45.

Alla leið í gegnum skattkerfið

Sólon Sigurðsson sagði að þótt skattayfirvöld hefðu á sínum tíma skrifað bankanum bréf með ábendinum um að þau teldu mismuninn á gengi til starfsmanna og almennings skattskyld hlunnindi hefðu forsvarsmenn bankans verið ósammála þessari lagatúlkun stjórnvaldsins. Einhverju þessara mála yrði fylgt eftir alla leið í gegnum skattkerfið.

Í bréfi skattstjórans til þeirra starfsmanna, sem keyptu hlutabréfin, segir m.a. að ráðleggingar og athafnir stjórnenda Búnaðarbankans hafi ekki samrýmst niðurstöðum skattyfirvalda og almennum skyldum bankans sem launagreiðanda samkvæmt ákvæðum skattalaga. Þarna segir Sólon vísað til bréfaskrifa skattstjóra til bankans vegna sölunnar. "Við teljum þetta ekki skattskyld hlunnindi því það var ekkert annað útboðsgengi til á bréfunum en þetta á þessum tíma.

Þetta mál okkar er öðru vísi vaxið en mál starfsmanna Landsbankans. Þegar við seldum starfsmönnum á genginu 1,26 var ekkert annað gengi til hjá okkur. Það er ekki fyrr en rúmum mánuði síðar sem útboðsgengið verður til hjá okkur. En hjá Landsbankanum fer útboð til almennings og starfsmanna fram á sama tíma. Þá vita menn hvert gengið er. Hjá okkur var ekkert útboðsgengi til annað en þetta á þessum tíma. Þetta var gert í samráði við ríkisstjórnina, fjármálaráðherra og viðskiptaráðherra, og ákveðið þá að gengið yrði innra virði bankans á áramótum. Þá var aldrei rætt um skattlagningu þar til viðbótar," sagði Sólon.

Bréf seld þriðja aðila á 1,26 fyrir útboð til almennings

"Það má fullyrða að starfsmenn hefðu aldrei samþykkt að létta af ríkisábyrgð á eftirlaunum sínum ef þeir hefðu vitað að Ríkisskattstjóri mundi túlka þetta svona," sagði Sólon. "En þungamiðjan í þessu er sú að það var ekki til annað útboðsgengi á þessum tíma og ekkert hægt að skattleggja. Það er meira að segja til dæmi um það að starfsmaður hafi selt sín bréf til annars manns á þessu sama gengi, 1,26, áður en útboð til almennings fór fram. Hvernig á að skattleggja þá manneskju?"

Sólon sagði að starfsmenn bankans hefðu hins vegar verið varaðir við um afstöðu skattyfirvalda og þeim ráðlagt að skýra frá þessu í sínu skattframtali. "Það gerðu menn vonandi allir," sagði Sólon.