GRADUALEKÓR Langholtskirkju heldur tónleika í Langholtskirkju á morgun, mánudag kl. 20. Undirleikari kórsins er Lára Bryndís Eggertsdóttir og einsöngvarar úr röðum kórfélaga koma fram. Efnisskráin mun bera keim af Kanadaferð kórsins í sumar og verða íslensk og kanadísk verk áberandi, m.a. ættjarðarlög, þjóðlagaútseningar eftir Jón Ásgeirsson og "Salutatio Marie" eftir Jón Nordal.
Gradualekór Langholtskirkju

GRADUALEKÓR Langholtskirkju heldur tónleika í Langholtskirkju á morgun, mánudag kl. 20. Undirleikari kórsins er Lára Bryndís Eggertsdóttir og einsöngvarar úr röðum kórfélaga koma fram. Efnisskráin mun bera keim af Kanadaferð kórsins í sumar og verða íslensk og kanadísk verk áberandi, m.a. ættjarðarlög, þjóðlagaútseningar eftir Jón Ásgeirsson og "Salutatio Marie" eftir Jón Nordal. Frá Kanada mun m.a. hljóma verk þar sem sungið er á indíánamáli og kórinn skapar frumskógastemmningu með ýmsum dýra- og fuglahljóðum.

Á komandi sumri hefur kórinn þegið boð um að koma fram á "Niagara Falls International Music Festival" í Kanada. Í tengslum við ferðina verður einnig farið til Nýja Íslands og haldnir þar tónleikar í Gimli, Árborg og Winnipeg.

Árið 1995 gaf kórinn út geislaplötuna "Ég bið að heilsa". Hann söng einnig með Sinfóníuhljómsveit Íslands á geislaplötu sem Chandos fyrirtækið gaf út með verkum eftir Jón Leifs. Árið 1996 kom út jólaplata og árið 1997 platan "Gradualekór Langholtskirkju".

Síðustu tónleikar fyrir lokun

Gradualekór Langholtskirkju hefur margsinnis komið fram með Sinfóníuhljómsveit Íslands og sungið m.a. á "Evróputónleikum útvarpsstöðva".

Tónleikarnir á mánudag verða síðustu tónleikar sem haldnir verða í Langholtskirkju fyrir lokun hennar 1. júní, en þá hefjast framkvæmdir við uppsetningu kórglugga úr steindu gleri sem listamaðurinn Sigríður Ásgeirsdóttir hefur gert. Að því verki loknu hefst uppsetning á nýju orgeli, en það verður seinast í júní.

GRADUALEKÓR Langholtskirkju ásamt stjórnandanum Jóni Stefánssyni.