FÖSTUDAGINN 21. maí var hátíðin Dagar lita og tóna sett í Vestmannaeyjum og stóð hún í fjóra daga. Hátíðin var haldin í áttunda skipti og eins og nafnið bendir til var bæði um listsýningu og tónlistarviðburði að ræða.
Listsýning og djasstónleikar í Vestmannaeyjum Dagar lita og tóna

FÖSTUDAGINN 21. maí var hátíðin Dagar lita og tóna sett í Vestmannaeyjum og stóð hún í fjóra daga. Hátíðin var haldin í áttunda skipti og eins og nafnið bendir til var bæði um listsýningu og tónlistarviðburði að ræða. Listvinafélagið stendur fyrir viðburðinum og að sögn Hermanns Einarssonar eins frammámanna félagsins, myndar listamaðurinn vanalega umgjörð um hátíðina en auk þess koma fimm til átta djasssveitir fram.

Að þessu sinni sýndi listamaðurinn Grímur Marinó Steindórsson verk sín en hann ólst upp í Eyjum.

Aðspurður um forsögu þessarar hefðar sagði Hermann: "Þetta byrjaði allt með því að menn höfðu góðar minningar af velmektardögum músíklífs í Vestmannaeyjum sem voru í kringum 1950. Þegar Guðni Hermannssen málari og tónlistarmaður féll frá voru haldnir minningartónleikar um hann, þeir þóttu takast svo vel til að við höfum haldið þetta síðan."

Þær hljómsveitir sem fram komu á tónleikunum voru Eyjadúóið, Djassvaktin, Furstarnir og Ice Blue, Dixiesveit L.V. og Stolzabandið ásamt fjórum einsöngvurum.

Fjölmargir gestir komu og stemmningin var feikilega góð að sögn Hermanns.Morgunblaðið/Sigurgeir LISTAMAÐURINN Grímur Marinó Steindórsson fékk blómakörfu afhenta af forseta bæjarstjórnar.

EINBEITTIR djasstónlistarmenn: Árni Elfar á píanó, Ómar Axelsson á bassa, Geir Ólafsson söngvari og Helgi Svavars Hjálmarsson á trommur.

MEÐAL gesta voru frændurnir Árni Johnsen og Árni Sigfússon sem mætti ásamt konu sinni Bryndísi Guðmundsdóttur.