Þeir sem óvart álpast í Rauða hverfið í Amsterdam furða sig trúlega á óvenjulegum útstillingum í sumum gluggum. Valgerður Þ. Jónsdóttir álpaðist ekki neitt heldur fór markvisst til að skoða fallegt, gamalt hverfi og fjölskrúðugt mannlífið.

Rauða hverfið

í Amsterdam Þeir sem óvart álpast í Rauða hverfið í Amsterdam furða sig trúlega á óvenjulegum útstillingum í sumum gluggum. Valgerður Þ. Jónsdóttir álpaðist ekki neitt heldur fór markvisst til að skoða fallegt, gamalt hverfi og fjölskrúðugt mannlífið. MEÐ vegvísi upp á vasann eru ferðamenn ekki í vandræðum með að finna litlu hafmeyjuna og Tívolí í Kaupmannahöfn, Eiffelturninn í París eða Péturskirkjuna í Róm. Sama máli gegnir um Gömlu kirkjuna, Oude Kerk, sem er elsta og ein sögufrægasta byggingin í Amsterdam. Hins vegar virðist Rosse Buurt í Amsterdam, eða Rauða hverfið, hvergi vera merkt inn á kort þótt flestar ferðahandbækur og upplýsingabæklingar segi skoðunarferð um hverfið einstaka upplifun. Ekki þó eingöngu vegna Gömlu kirkjunnar, sem um aldir hefur trónað þar hnarreist á meðan lífið allt um kring hefur ekki lotið ýkja kristilegum siðalögmálum. Gamla kirkjan reis af grunni á fjórtándu öld skömmu eftir að stífla (dam) var byggð í ánni Amstel þar sem nú er Dam-torgið. Framkvæmdin markaði upphafið að borginni Amsterdam, sem smám saman þandist út meðfram austurbakka árinnar og þangað sem Rauða hverfið er núna. Borgarbúar nefna þetta svæði líka walletjes eða litlu múrana. Þeir voru byggðir á róstusömum tímum 15. aldar og þurftu yfirvöld að fjármagna verkið að hluta með því að skikka sakamenn til að greiða sekt sína í múrsteinum.

Ef grannt er skoðað má enn sjá leifar gömlu borgarmúranna og við Nieuwmarkt-torg stendur de Waag, eitt af þremur hliðum borgarinnar frá miðöldum. Frá árinu 1488 var virkið lengst af vigtarhús, síðar aftökustaður, slökkviliðsstöð, samkomuhús ýmissa félagasamtaka og kennsluspítali, en þar málaði Rembrandt (1606-1669) The Anatomy Lessons . Núna er veitingastaður og fjölmiðlamiðstöð í gamla vigtarhúsinu. Fólkið og orðstírinn

Aðlaðandi skipulagsleysi einkennir hverfið, þar sem fólk reisti hús sín þvers og kruss eins og því þóknaðist án afskipta arkitekta og skipulagsfræðinga. Enginn vandi er heldur að villast á göngu um margar þröngar götur sem hlykkjast sérkennilega út um allt að því er virðist. Húsin eru flest há, mjó og fögur og eiga sér langa sögu. Því er kjörið fyrir fróðleiksþyrsta ferðalanga að fara um í fylgd fararstjóra og hlusta á þá ausa úr sögulegum viskubrunni sínum.

En þótt margar byggingarnar eigi sér merkilega sögu er það fyrst og fremst fólkið í Rauða hverfinu, sem hefur skapað orðstírinn. Hvort hann er góður eða slæmur fer eftir viðhorfum hvers og eins um kynlíf sem söluvöru. Mörgum, sem álpast þangað alveg óvart á rölti sínu um götur og torg, kann að bregða í brún að sjá óvenjulegar gluggaútstillingar. Sjálf álpaðist ég ekki neitt. Nokkuð vel lesin í ferðapésunum mínum var ég búin að komast að því að með því að stefna á Oude Kerk eða Nieuwmarkt, sem hvort tveggja er tilgreint á vegvísum, væri ég komin í þetta fyrrum alræmda lastabæli, sem allt sómakært fólk forðaðist. Meðfram Warmoesstraat, Oudezijds Voorburgwal, Oudezijds Achterburgwal og Zeedijk hefur elsta atvinnugreinin verið stunduð frá miðöldum. Líka allt um kring í ótal húsasundum og þröngum götum við fögur síki.

Markaðssetning kvennanna þar um slóðir er líkast til allsendis ólík því sem tíðkast annars staðar á áþekkum markaðssvæðum í heiminum. Fáklæddar stilla þær sér upp í flóðlýstum gluggum, sumar afskaplega diskódísarlegar en aðrar gamlar og þreytulegar. Fyrirrennarar þeirra, sem einkum eru sagðar hafa haft ofan af fyrir langþreyttum sægörpum fyrr á öldum, höfðu líka svipaðan háttinn á. Þó öllu praktískari því þær fengu einfaldlega listmálara til að mála af sér rómantíska mynd, sem þær síðan stilltu fyrir framan dyrnar hjá sér. Þannig hafa þær efalítið getað notað tímann og sýslað eitthvað smálegt innan dyra á meðan þær biðu eftir viðskiptavinum. Litla Kínaborgin

Innan um og saman við leikhús, söfn og búðir, sem gera út á erótík, eru ósköp venjulegar verslanir með matvöru, búsáhöld eða önnur þarfaþing fjölskyldunnar. Einnig margir veitingastaðir þótt mér þætti reyndar svolítil leitun að einum þekkilegum. Fann þó einn tælenskan um síðir, Bird við Zeedijk. Greinilega hugnaðist fleirum hann öðrum fremur því stundarfjórðungs bið var eftir borði. Vel þess virði þó því maturinn Nua-Sawan og Keng Ped Ped Yang , bragðaðist ágætlega, og þjónustan gekk snurðulaust.

Rauða hverfið er stundum nefnt Litla Kínaborgin, enda búa þar margir Kínverjar, sem reka veitingastaði og verslanir. Sagan segir að þeir séu afkomendur sjómanna, sem fyrir óralöngu komu til Amsterdam til að brjóta verkfall hafnarverkamanna á bak aftur. Ekki fylgir sögunni hvers vegna kínverskir sjómenn voru að skipta sér af hafnarverkfalli í evrópskri borg. Um hábjartan dag er Rauða hverfið ekki mjög ólíkt öðrum hverfum í Amsterdam þar sem fólk býr og starfar og aðrir ganga um á leið sinni eitthvert annað. Andrúmsloftið umbreytist á kvöldin þegar konurnar stilla sér í auknum mæli upp í ótal gluggum hlið við hlið úti um allt, erótískar sýningar hefjast og miðasölumenn svífa á vegfarendur og bjóða þeim á ógleymanlegar sýningar þar sem þeir lofa að nákvæmlega allt sé sýnt fyrir 50 gyllini, sem eru um 1.800 krónur íslenskar.

Lappi....eða hvað?

Innan um og saman við túrista og aðra sakleysingja skjótast flóttalegir karlar og kerlingar og bjóða hass og kókaín til sölu þótt kaupa megi a.m.k. hass með lögmætum hætti á börum og búllum úti um alla borg. Ferðapésarnir mínir sögðu að þrátt fyrir allt þetta væri Rauða hverfið eitt öruggasta svæði borgarinnar en þó væri vissara að halda fast í veskið sitt og flagga ekki peningum. Prútt tíðkast eins og ég komst áþreifanlega að raun um þegar maður nokkur, vel greiddur og snyrtilegur, vildi endilega selja mér miða á erótíska sýningu. Þegar hann hafði ekki árangur sem erfiði þrátt fyrir að hafa boðið miðana á töluvert lægra verði en í upphafi klykkti hann út með að segja að ég hlyti að vera frá Lapplandi, og best færi á að ég hundskaðist þangað aftur. Mér skildist að það þætti fremur hallærislegt að vera Lappi í Rauða hverfinu. Forsvarsmenn Theater Casa Rosso, (O.Z Achterburgwal 10), sem er eitt vinsælasta leikhús sinnar tegundar þurftu greinilega ekki að hafa slíkan útsendara á sínum snærum því löng biðröð var við innganginn þetta laugardagskvöld. Í auglýsingum segir að innan dyra fái viðskiptavinir VIP-þjónustu og þjónn beri þeim drykki meðan á sýningu stendur. Skammt frá, númer 37, er Bananabarinn sem sagður er vel þekktur á alþjóðavettvangi vegna þess hve aðlaðandi þjónustustúlkur eru leiknar í alls kyns brellum með banana. Konur fá ekki inngöngu á Bananabarinn nema á sérstökum kvennakvöldum og þá þarf að panta tímanlega. Framangreindan fróðleik hef ég frá vinum mínum, ferðapésunum. Lítt amast í Amsterdam

Hverfi flestra stórborga, þar sem viðskipti af áþekku tagi og í Rauða hverfinu eru ástunduð, eru jafnan nefnd skuggahverfi eða undirheimar stórborganna, enda glæpatíðni há, og ferðamönnum eindregið ráðlagt að halda sig víðsfjarri. Sums staðar geta menn jafnvel átt yfir höfði sér dóm fyrir að eiga viðskipti við vændiskonur og líklega nánast alstaðar í hinum vestræna heimi verði þeir uppvísir að því að höndla með fíkniefni. Í Amsterdam er hass hins vegar selt í mismunandi gæðaflokkum á mörgum börum og sérstökum kaffistofum. Við öllu þessu er ekki amast í Amsterdam, a.m.k. ekki ef fólk hefur tilskilin leyfi frá yfirvöldum.

Einhvers staðar verða "vondir" að vera kann að vera frasi sem borgaryfirvöld hafa haft að leiðarljósi þegar þau ákáðu að snúa vörn í sókn og koma lögum yfir vændi, dóp og svartamarkaðsbrask. Konurnar í gluggunum hafa um árabil gert grein fyrir afkomu sinni á skattskýrslum rétt eins og aðrir þjóðfélagsþegnar, fara reglulega í læknisskoðun og sumar eru félagar í Rauða þræðinum, óformlegum hagsmunasamtökum vændiskvenna. Borgarbúar virðast stoltir af Rauða hverfinu sínu rétt eins og merkum minjum og segja ferðamenn ekki svikna af að litast þar um ­ sem þeir gera í ríkum mæli. Íslendingar líka því í mannlífsrannsóknum mínum þetta laugardagskvöld mátti af og til heyra nokkur orð í því ástkæra og ylhýra.

HÚSIN í Rauða hverfinu eru flest há, mjó og fögur og eiga sér langa sögu.

GAMLA kirkjan er ein af elstu byggingum í Amsterdam.

Í THEATER Casa Rosso eru viðskiptavinir sagðir fá VIP-þjónustu.

ERÓTÍSKA safnið við O.Z. Achterburgwal.

KONUR fá ekki inngöngu á Bananabarinn nema á sérstökum kvennakvöldum.